13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að blanda mér í þessar umr., en sérstaklega voru það ummæli hv. 1. þm. N-M., sem gáfu mér tilefni til að standa hér upp. Ég get fallizt á ýmsar röksemdafærslur hans um, að það sé nokkuð tvíeggjað fyrir iðnaðarmenn að ráðast í þessa baukastofnun, sérstaklega að því leyti, að það liggur ekki fyrir, að þeim muni verða það að því gagni, sem þeir nú gera ráð fyrir. Hins vegar finnst mér röksemdafærslur hv. þm. byggjast á því tvennu, annars vegar því, að hann þykist vera mjög velviljaður iðnaðarmönnum, sem ég skal ekki efa, að minnsta kosti segir hann, að hann sé það í garð sumra, en vill þó hafa vit fyrir þeim. Mér finnst, að ef mena hafa álit á mönnum og telja, að þeir hafi nokkurt yfirlit yfir sín störf, þá finnst mér það vera eðlilegast, að þeir ráði sínum málum sjálfir, þannig að jafnvel þó að okkur, sem utan við þetta stöndum, finnist, að við getum ekki orðið þeim sammála, þá séum við ekki að efa það gagn, sem þeir telja sig hafa af þessu, eins og þeir sjálfir álíta. Og mér finnst, að það þurfi nokkru sterkari rök en hér hafa verið borin fram til þess að taka af þeim ráðin, ef svo mætti segja. Ef þeir telja og eru sannfærðir um, að þetta verði þeim mikil hjálp, þá finnst mér það vera mikilvægt atriði í þessu máli. Ég tel, að Alþ. hafi ekki slíkt vald eða allsráðandi skyggni. að við getum sagt hverjum manni það, hvernig hann eigi að haga sínum málum. Það langeðlilegasta fyrirkomulag er, að hver aðili fyrir sig í þjóðfélaginu af þeim, sem tekjusöm störf vinna og eru til gagns eins og er um iðnaðarmenn, þá eigi þeir að ráða sem allra mest sínum eigin málum og meta sjálfir, hvað þeim er til framdráttar eða ekki. Mér finnst, að þm. eigi að hafa þá skoðun, a.m.k. þar til það er sannað, að það skaði þjóðarheildina, að þessir aðilar ráði sínum málum. Þess vegna segi ég það, að mér finnst hv. 1. þm. N-M., eftir því sem ég heyrði hann tala hér og aðra andstæðinga þessa máls, að þeir taki málið upp á röngum grundvelli. Þeir vilja setja sig sem alvalda og yfirboðara, eins og fram kom hjá hv. 1. þm. N-M. og eins og hann virtist hugsa. Þetta finnst mér ekki skynsamleg afstaða, hvorki í þessum málum né öðrum. Þess vegna mundi ég meta meira rök hv. þm., ef hann sýndi fram á, að þetta skaðaði þjóðarheildina, en hann heldur því fram, að hér sé um misráð að ræða frá hendi iðnaðarmanna. En meðan iðnaðarmenn sannfærast ekki sjálfir, þá held ég, að okkur sé það betra að láta þá meta sjálfa sinn eigin hag en að taka upp ráð fyrir þá, ef ekki eru aðrar ástæður, sem liggja til grundvallar í þessu máli. Það getur verið, að þær ástæður komi fram eftir á, en þá er að breyta eftir þeim og meta þær. Og ég vil gjarnan athuga þessar aðstaður, ef til eru. Það er alveg nóg búið að sýna iðnaðarmönnum fram á og telja upp fyrir þeim þá annmarka, sem á þessu eru frá þeim séð. En ef þeir segðu: Við gerum okkur ljósa þessa annmarka, en við erum sannfærðir um, að þetta verður til góðs, — þá er ekki hægt að ganga fram hjá því. (PZ: Hv. þm. Seyðf. færði rök fyrir þessu í gær.) Ég hlustaði á nokkurn hluta af ræðu hv. þm. Seyðf., og heyrði ég það ekki. Og ég hef reyndar átt tal við hv. þm. Seyðf. og fengið ýmsar upplýsingar hjá honum, en hamt hefur ekki bent mér á þetta. En ef þær upplýsingar eiga eftir að koma fram, þá sýnist mér þau rök veigamikil, og ættu fleiri ræður að vera á þeim grundvelli, því að það þarf mikið til að sannfæra iðnaðarmenn um, að þeir hafi tjón af þessu. Og ég sé því ekki í raun og veru, að annað sé fyrir okkur að gera en að segja við iðnaðarmenn: Þið verðið að meta ykkar mál sjálfir, — ef ástæðurnar fyrir þessu eru ekki aðrar en þær, sem hér hafa nú fram komið.

En ég vil segja, að hv. 1. þm. N-M. kom inn á mjög þýðingarmikið atriði í þessu, þar sem hann vék að Sparisjóði Reykjavíkur. Það væri í raun og veru ofur eðlilegt, að iðnaðarmenn hefðu jafneindregna ástæðu fyrir því, að þetta sé rétt, eins og þeir segja, ef ekki væri vitað um þau miklu ráð, sem þeir hafa yfir Sparisjóði Reykjavíkur, eins og hv. 1. þm. N-M. benti á. því að þeir ráða þar mestu, og það voru iðnaðarmenn, sem stofnuðu sparisjóðinn. Það væri því afar eðlilegt, að þeir sýndu trú sína í verkinu og sameinuðu sparisjóðinn við þennan nýja banka, og það mundi gera okkur hægara fyrir um að samþ. þetta frv. og ganga í trú um, að þeir hafi rétt fyrir sér, og aftur á móti. að sú trú yrði þeim til góðs, enda væri það þá hliðstætt því, sem var um Búnaðarbankann, þegar hann var stofnaður. Þar runnu inn ýmsar deildir, sem var búið að stofna landbúnaðinum til góðs og áður höfðu starfað landbúnaðinum til styrktar. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er stofnun iðnaðarmanna, og væri því eðlilegt, að hann rynni inn hjá þessum nýja banka. Og ég vil lýsa eftir því frá formælendum þessa frv., hvaða horfur eru á í þessu efni, því að ef það lægi fyrir, að Sparisjóður Reykjavíkur ætti að renna þar inn eða sameinast bankanum, þá væri það öruggasta tryggingin fyrir því, að þessi stofnun gegndi því hlutverki sínu frá upphafi, sem henni var ætlað og afar miklu varðar, að hún geti gert.

Ég verð að segja, að það er sannleikur, að iðnaðurinn stendur nú á vegamótum, ef svo mætti segja. Hann hefur vaxið undanfarið í skjóli þeirra hafta, sem hafa verið, og án allrar samkeppni. Nú er þessum höftum aflétt, og það er gefinn hlutur, að undir öllum kringumstæðum hljóti svo að fara, meðan verið er að létta af öllum höftum, að fyrstu tímarnir þar á eftir hljóta að vera erfiðir tímar fyrir iðnaðinn og iðnaðarframleiðslu, og þetta hlýtur aftur á móti að skapa öllum iðnrekendum erfiðleika og gera þá meira híkandi í framleiðslunni en áður. Og eins og ég sagði, þá skapar þetta fyrir þá tímabundna erfiðleika. Þessir erfiðleikar standa yfir einmitt nú hvað mest, svo að það má ekki furða sig á því, þó að þröngt sé fyrir dyrum hjá iðnaðinum nú. Það er fráleitt að láta sér detta í hug, að endalaust sé hægt að halda iðnaðinum vernduðum með höftum, þannig að engin samkeppni komist að. Ef sú leið hefði verið viðurkennd, hefði það leitt til þess, að menn hefðu fengið vörur með hærra verðlagi. Það er því ljóst, að þessum höftum var létt af vegna þjóðarheildarinnar. En þó að þetta hafi verið gert, verður að athuga ekki siður, hvað við getum haft góðan iðnað í landinu, sem getur með þessari vernd verið samkeppnisfær. Ég er sannfærður um það, að af ýmsum þjóðhagslegum ástæðum er ekki hægt að búast við, að iðnaðurinn sé alltaf studdur innflutningshöftum, og fær þá iðnaðurinn samkeppnina annars staðar frá. Það er þá verkefni iðnaðarmanna og þeirra, sem að iðnaði vinna, að kvarta undan aðgerðum ríkisvaldsins og benda á, hvaðan hin ósanngjarna samkeppni komi af hálfu erlendrar vöru, og það er alls staðar þar, sem hægt er að segja, að íslenzk lög hjálpi erlendum aðilum til að hafa betri aðstöðu en íslenzkum aðilum. Er þá eðlilegt, að iðnaðarmenn kvarti, svo að löggjafarvald og stj. geri ráðstafanir til að bæta úr þessu.

Það er eðlilegt að athuga, að hve miklu leyti eðlilegir verndartollar greiði fyrir iðnaðinum í landinu. Ég vék að þessu í dag varðandi innflutning á erlendu blaðarusli, þannig að íslenzk útgáfustarfsemi fái að njóta sin, og þannig er það sjálfsagt í mörgum tilfellum. En það er eðlilegast, að iðnaðarmenn sjálfir bendi á þetta, því að þeir þekkja bezt, hvar skórinn kreppir að. Ég get ekki fallizt á, að óeðlilegt sé, að íslenzkur iðnaður njóti verndartolla, en sú vernd má þó ekki vera svo mikil, að iðnaðurinn verði algerlega samkeppnislaus og Íslendingar vinni að iðnaði, sem fær ekki staðizt samkeppni erlendis frá. Það er erfitt í þessu eins og oft að finna rétta meðalveginn, en mér finnst rétt, að iðnaðurinn fái að vita, að hann njóti stuðnings Alþ. í að leysa úr þessum vanda.