13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt, að þetta mál, sem snertir afkomu 1/3 hluta þjóðarinnar, sé rætt hér ýtarlega. Hv. 1. þm. N-M. viðurkenndi hér, að hann hefði alltaf sýnt þessari stétt fullan fjandskap. Það er ekki nýtt, að þessi þm. sýni andúð á mönnum og málefnum. Ég var að blaða í bréfum hjá mér og fann þá ljósprentað bréf frá hv. þm., þar sem hann skorar á ágætan kjósanda að strika hv. 2. þm. N-M. út. (BrB: Skrifaði hann þetta til hv. þm. Barð.?) Nei, hann skrifaði það til hv. kjósanda síns og hvatti hann til að strika Halldór Ásgrímsson út vegna andúðar, sem væri á honum, og kvaðst hann vei geta skilið þá andúð. Það yrði að koma sér inn, til þess að hann gæti haldið áfram að vinna fyrir þessa ágætu menn.

Ég vil segja hv. þm., að verndartollarnir eru ekki eingöngu fyrir iðnaðarmennina, heldur líka m.a. til að spara gjaldeyri og fyrirbyggja atvinnuleysi í landinu. Það er ekki nema eðlilegt, þegar svo er komið, að 1/3 hluti þjóðarinnar lifir af iðnaði, ef veitt er inn í landið sumpart lakari iðnaði, eins og oft er um innfluttar iðnaðarvörur, og vil ég vísa þar til ummæla hv. þm. Vestm. um bátasmiðina. Að sjálfsögðu hefðu ýmsir þeir agnúar ekki komið fram, ef verkið hefði verið unnið af íslenzkum höndum. Það er alveg áreiðanlegt, að það er að skapast öngþveiti í atvinnumálunum á Íslandi, og það er verið að eyðileggja fyrir okkur að hafa gjaldeyri fyrir nauðþurftum landsmanna. Það er komið það ástand, að nauðsynlegt er að koma á verndartollum, annars vegar til að spara gjaldeyri og hins vegar til að halda fólkinu að þarflegri vinnu. Iðnaðurinn í landinu er að byggjast upp og er orðinn ein aðalstoð þjóðfélagsins. Ég vil benda á, að undanfarin ár hefur iðnaðurinn stuðlað að því að auka verðmæti sjávarútvegsins og landbúnaðarins með því að breyta hráefnum í verðmæti, sem hafa veitt tugmilljónum meiri gjaldeyri inn í landið, og er óhætt að minna þar á hraðfrystihúsin, lýsisvinnslu, lýsisherzlu o.fl.

Í sambandi við þessi mál hefur nú á 3–4 þingum verið rætt um af mér og hv. 1. þm. N-M. að skapa iðnaðinum meiri sérþekkingu, til þess að þessi mál gætu þróazt betur. Hann hefur alltaf sýnt því máli fullan fjandskap, þó ekki af því, að það kosti neinn styrk til stéttarinnar beinlínis, á sama tíma og hann hefur barizt fyrir því og það réttilega, að landbúnaðurinn fengi auk 50–60 millj. í beina styrki upp undir 30 fulltrúa til leiðbeiningar á ýmsum sviðum. Og hann heldur fast í þessa tölu, þó að hann upplýsi sjálfur, að a.m.k. einn þessara manna sé meira til málamynda og af því að hann var einu sinni kominn þarna inn en af því, að hann geri þar gagn með starfi sínu. Hann vill halda þessu kerfi, en neita öðrum atvinnugreinum landsmanna um sams konar aðstoð. Þess vegna vil ég halda fram, að ég hafi fært sönnur á, að hann hafi alltaf sýnt þessu máli fullan fjandskap.

Hv. þm. sagði, að ég hefði verið sér sammála um að vísa þessu máli frá í fyrra, og hv. 8. þm. Reykv. vísaði einnig til þess og las upp úr nál., sem ég þá samdi. Ég vil benda á, að síðan það var samið er nær eitt ár, eða 9 mánuðir, heill meðgöngutími, og á þeim tíma hefur stj. og þeir aðilar, er málið kemur við, haft tíma til að ganga með málið, en þeim hefur bara ekki dottið það í hug. Stj. hefur ekkert gert til að fá málið upplýst á þann hátt, sem um var rætt í n., og ekki sent hv. Nd. neinar nýjar upplýsingar. Allar upplýsingarnar eru á þskj. 187 og eru ekki til að leiðbeina þm. nei!t. Ég veit ekki, hvers vegna nú á að fara að senda málið til sömu aðila, sem ekki hafa áhuga á að upplýsa neitt í sambandi við það. Ég hef því horfið frá að senda þeim málið aftur og legg til, að það verði samþ. Þetta tel ég full rök fyrir minni afstöðu. — Sjáum, hvað form. mþn. segir á þessu þskj.: „Annað aðalverkefni bankamálanefndar er: að gera athugun og tillögur um myndun lánsstofnunar, er veiti fé til fjárfestingar í sambandi við atvinnuvegina.“ Í fyrsta lagi er hér ekki um lánsstofnun að ræða, sem ætlað er eingöngu að veita fé til fjárfestingar. Hér er beinlínis átt við mótvirðissjóðinn, hvort rétt sé að gera hann að sérstakri lánsstofnun, sem vinni að fjárfestingu í landinu, en alls ekki iðnaðarbanka eða almennan banka. — Hvað er svo um hitt aðalverketnið? Hvers vegna segir form. mþn. ekki frá því? Það var ekki aðeins aðal-, heldur höfuðverkefni mþn., og það er seðlabankinn. Það getur ekki undir neinum kringumstæðum verið hennar verkefni að leggja til, hvort eigi að stofna einn eða fleiri banka til að standa undir sérstökum verkefnum í landinu. Það, sem hún á sérstaklega að vinna að, er það, hvort stofna skuli sérstakan seðlabanka og hvort stofna skuli sérstaka lánsstofnun með fé úr mótvirðissjóðnum.

Það er alger misskilningur hjá hv. 1. þm. N-M., að það geti verið nokkur undirstaða undir það, hvort ákveðið skuli að stofna iðnaðarbanka, hvað mikið lánsfé sé útistandandi hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eða hvað mikið sé útistandandi þá daga, sem við erum að ræða þetta máli Útlán hjá bönkunum eru yfirleitt bundin við 3 mánaða víxla. Það er því enginn mælikvarði, hvort standa úti 65 millj. eða einhver önnur upphæð. Það er breytilegt frá degi til dags og ári til árs og því engin ástæða til að spyrjast fyrir um það atriði. Iðnlánasjóðurinn hafði þessa upphæð ákveðinn dag, en fáum dögum síðar var hann kannske tómur. Það er tilviljun, hvernig sjóðurinn er þann dag, sem um það er spurt. Þó að ákveðin upphæð sé í sjóðnum þann dag, sem um það er spurt, er það aðeins tilviljun, og getur ekki verið nein ástæða til, að ekki skuli stofnaður nýr banki fyrir iðnaðinn.

Hv. þm. sjá, að það er kjarni þessa máls, hvort á að veita iðnaðarstéttinni sömu aðstöðu í sambandi við peningastarfsemi og hinum tveim aðalatvinnuvegunum, landbúnaði og sjávarútvegi. — Ég skil vel, að sá maður, sem nýlega barðist gegn því, að þessi stétt fengi sömu aðstöðu varðandi tæknilega aðstoð og landbúnaðurinn, vilji ekki heldur veita þessari stétt sömu aðstöðu í fjármálum, þegar hann líka viðurkennir, að hann sé á móti stéttinni og vilji ekkert fyrir hana gera. Iðnaðarmenn finna það, að þeir eru ekki látnir sitja fyrir hjá lánsstofnunum, þegar þrengir að á lánamarkaðnum, og þess vegna er þetta mál komið fram til að tryggja, að þessi stétt verði ekki afskipt. — Í sambandi við þetta vil ég nefna eitt dæmi, sem ég þekki vel. Hér er nú rekinn allverulegur iðnaður í sambandi við Reykjalund. Er hann hóf starfsemi sína, lánaði Landsbankinn til þess 300 þús. kr. Síðan hefur stofnunin víkkað út rekstur sinn, vistmönnum hefur fjölgað, safnazt hafa vörubirgðir og reksturinn orðið umfangsmeiri, auk þess sem krónan hefur rýrnað í verði. Bankinn hefur samt ekki fengizt til að hækka þessa upphæð, þó að vitað sé, að þessi stofnun getur ekki sagt sínum starfsmönnum upp, þar sem hér er um að ræða öryrkja, sem vinna fyrir sér og geta ekki farið út á hinn venjulega vinnumarkað. Engum getur því dottið í hug, að ekki sé full ástæða til að hækka þetta framlag. En þetta sýnir, að Landsbankinn vill láta aðila eins og S.Í.S. ganga fyrir, því að án þess að ég þekki þær tölur, sem lánað er til S.Í.S., er ég viss um, að ecki er hægt að bera saman þær tölur eins og þær voru fyrir 6 árum og nú, þó að hægt sé að bera þær saman í sambandi við Reykjalund. Hvers vegna hefur svo hv. þm. V-Húnv. (SkG) borið fram brtt. í hv. Nd. um að leyfa S.Í.S. þátttöku í þessari bankastarfsemi? Það er vegna þess, að með því að samþ. þá till. væri S.Í.S. stór þátttakandi í því fyrirtæki og hefði möguleika til að ráða því eins og öðrum lánsstofnunum í landinu. Og þess vegna er hv. þm. N-M. á móti þessu máli, af því að hann veit, að ekki er hægt að nota þetta fyrirtæki fyrir ákveðinn stjórnmálaflokk í landinu. — Þeir japla á því dag ettir dag, að ekkert nýtt fé komi í umferð við þetta. Ekkert nýtt fé kom í umferð, þegar Búnaðarbankinn var stofnaður, og enginn nýr gullforði kom inn í landið, en það var stutt af þeirri skoðun meiri hluta Alþ., að landbúnaðurinn fengi ekki þá lánsaðstoð hjá Landsbankanum, sem hann ætti heimtingu á, til að geta þróazt eins og aðrir atvinnuvegir í landinu, og þyrfti þess vegna að fá sína eigin lánsstofnun. Það sama liggur til grundvallar hér. Samkv. bréfi frá Landsbankanum 7. nóv. s.l., sem birt er hér með nál., er tekið fram, að höfuðrök iðnaðarins séu þau, að hann hafi orðið afskiptur með lánsfé, miðað við aðra atvinnuvegi í landinu; þar segir líka, að um slíkt megi deila. Vitanlega er höfuðástæðan til, að þeir vilja koma upp sinni eigin bankastofnun, sú, að þeir geti sjálfir ráðið yfir því, sem þeir eiga í sparisjóðum og bönkum.

Út af því, sem sagt var um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, vil ég taka fram, að ég hef fengið þær upplýsingar, að ástæða er til að halda, að unnið sé jákvætt að því að reyna ^ð sameina Sparisjóð Reykjavíkur og iðnaðarbankann, ef þessi lög ná fram að ganga. (Dómsmrh.: Það væri mikilsvert.) Ég fullyrði ekkert um þetta, en það eru líkur til þess. Hins vegar er slíkt auðvitað ekki hægt nema eftir ákveðnum reglum. Stjórn sparisjóðsins lýtur ákveðnum lögum, og getur verið, að ekki sé hægt að taka upp viðræður um þetta, fyrr en vitað er, að lögin verði samþ. — Sparisjóður Reykjavíkur hefur ekki bundið fé sitt í viðskiptaveltu iðnaðarins, en hefur kosið að lána út á fasteignir. Slíkt er eðlilegt, því að hann hefur ekki hlutafé til slíks og verður að tryggja lán sín örugglega. Hefur því ekki þótt öruggt að lána gegn víxlum, en í þess stað verið valin sú leið að lána gegn veði í fasteignum eða ríkisábyrgð. Sé ég ekki að sé skaði að slíku, og sízt ætti hv. 1. þm. N-M. að álíta það, eftir allt hans brölt í húsnæðismálunum, að það sé skaði að því, að Sparisjóður Reykjavíkur taki að sér það hlutverk að stuðla að því að koma upp fleiri húsum, þegar sú lánastofnun, sem þessu á að sinna og tilheyrir Landsbankanum, veðdeildin, hefur brugðizt. Ég hef enga ástæðu til að halda, að sagt verði upp þeim 64 millj., sem hv. þm. upplýsti að væru útistandandi (PZ: Um síðustu áramót.), þó að iðnaðarmenn komi sjálfir upp banka. Mér dettur ekki í hug að halda það. En ég bendi á Búnaðarbankann. Hversu mikið fé hefur sú stofnun ekki haft, m.a. hér í Reykjavík, og kemur ekki nálægt því að veita fé til landbúnaðarins? Þegar kvartað er yfir því, að landbúnaðurinn hafi ekki nóg fé, þá er það vegna þess, að svo og svo mikill hluti af þessu fé er lánaður í þriggja til sex mánaða víxlum. Þetta er veltufé, sem ekki er lánað til þess að þjóna landbúnaðinum. Það er svo með þá, sem þarna ráða, að þeir vilja lána féð þangað, sem það er öruggast og vextir eru mestir. Ég er ekki að segja þetta til að ámæla stjórn Búnaðarbankans, nema siður sé.

Ég vil svo vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) hér segja að síðustu, að það er síður en svo, að hv. 8. þm. Reykv. hafi gert nokkra tilraun til þess að tefja málið í n., og er það virt af mér sem formanni n. En hins vegar fór hann ekki fram á, að frestur yrði veittur. Hefði mér ekki dottið í hug að neita að veita eðlilegan frest til þess að fá upplýsingar um málið og senda það á ný til þeirra aðila, sem búnir voru að senda sínar umsagnir. En það var ekki minnsta ástæða til þess. Það verður að taka alveg fyrir það, að mál séu margsend til stofnana, þegar sú reynsla er fengin, að jafnvel ríkisstofnun leyfir sér að vanvirða Alþingi með því að halda málum hjá sér í 7–8 mánuði, eins og nýlega hefur komið fram. Það mun a.m.k. ekki vera hvatning fyrir mig sem formann n. að senda slíkri stofnun nokkurt mál til umsagnar eftir slíka meðferð.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt nú. Ég vænti þess, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Það er sanngirnismál að koma á móti þeirri stétt, sem er orðin ein allra þýðingarmesta stétt landsins og afkoma annarra stétta, eins sjávarútvegs og landbúnaðar, byggist á.