13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur, og mun ég því ekki við hann tala. Ef hann hefði verið hér, hefði ég spurt hann að því, hvað hann gerði, þegar börnin hans ætluðu að gera eitthvað, sem hann teldi ekki rétt. En þar sem hann er ekki staddur hér nú, skal ég ekki fara lengra út í þetta atriði.

Hv. þm. Barð. nefndi hér bréf, sem hann hefði frá mér. Ég held, að það sé bezt fyrir hann að minnast sem minnst á þetta. Ég get sýnt honum öll þrjú bréfin, ef hann langar til að sjá þau. Annars kemur þetta þessu máli ekki við og ekki heldur iðnaðarmálastjóra.

Hv. þm. Barð. kvartaði undan því, að engar upplýsingar hefðu fengizt um þetta. Það hefur komið fram, að ríkisstj. hefur skipað mþn. til þess að ráða bót á þessu, og er hún starfandi. Þannig er haft meira við þetta mál en venjulegt er með önnur mál. Er hér sett ný mþn. með mörgum hagfræðingum og ýmsum öðrum mönnum, sem eiga að athuga þetta mál. Það liggur í hlutarins eðli, að þar sem málið liggur þannig fyrir, þá er þetta ekkert annað en vantraust á þessa n. og stj. sýnd lítilsvirðing. Um þetta þarf ekki að deila.

Hv. þm. Barð. sagði, að með þessu frv. væri verið að láta iðnaðinn hafa sömu aðstæður og hina atvinnuvegina. Ég vil spyrja: Ber hann bankastjórn Útvegsbankans það á brýn, að hún láti bankann ekki sinna iðnaðinum, þó að hann að lögum eigi að gera það? Er það þess vegna, að þörf er á þessum nýja banka? Er það ekki einmitt verk bankanna í sameiningu að reyna að miðla því fjármagni, sem til er, milli atvinnuveganna á þann hátt, sem þeir telja að sé þjóðinni fyrir beztu á hverjum tíma? Eiga bankarnir að láta einhvern mann sitja fyrir öðrum mönnum, bara af því að hann er iðnaðarmaður, eða taka verzlunarmann fram yfir einhvern annan mann, sem þarf á peningum að halda? Eiga bankarnir ekki að reyna að meta, á hvern hátt þeir geta miðlað sínu fjármagni, svo að það komi þjóðinni til sem mests gagns? Það er raunar svo fjarstætt, að það sé nokkur mælíkvarði á það, hvort einhver stétt — í þessu tilfelli iðnaðarstéttin — sé sett hjá, að henni finnist það sjálfri. Hverjum einasta manni, sem kemur í banka og biður um lán og fær það ekki, finnst hann vera settur hjá, ef einhver annar maður fær lán á sama tíma. Það stendur næst bankastjórninni að sjá um, að peningunum sé miðlað þannig milli atvinnuveganna, að þeir geti allir dafnað eðlilega og þar á sé ekki haldið neinni einokun. Þegar hv. þm. Barð. heldur því fram, að iðnaðarmenn séu settir hjá og þess vegna sé þörf á iðnaðarbanka, þá er þar með beinlínis sagt, að bankastjórn þess banka, sem á að sjá um fjárveitingar til iðnaðarins, ræki ekki það starf, sem hún lögum samkvæmt á að rækja. Ef hægt er að segja með rökum, að þörf sé á þessum banka vegna þess, að iðnaðarmenn fái ekki eðlilegt rekstrar- og stofnfé hjá bankanum, þá er það af því, að útvegsbankastjórnin gerir ekki skyldu sína. Það er eitt af verkum mþn., og kannske það mesta, að athuga, hvernig eðlilegast sé, að þetta lánsfé skiptist milli atvinnuveganna í landinu. Þetta stendur nú yfir. og veit ég ekki, hvernig það skiptist. Árin 1946–1950 voru allar skuldir bænda 60–70 millj. kr., og var mest af því stofnlán. Ég veit, að á sama tíma voru allar skuldir iðnaðarins 64 millj. kr. fyrir utan það, sem var í hraðfrystihúsum og iðnlánastofnuninni. Í þeirri stofnun er meira en hjá bændum. Ég vil ekki leggja neinn dóm á það, hvort bankastjórnin hefur dreift fénu ranglátlega. Það er ekki hægt að segja neitt um það, meðan tölurnar eru óþekktar hvað þetta snertir. — Hv. þm. Barð. talaði um, að Búnaðarbankinn lánaði ekki allt sitt lánsfé til bænda. Þetta er víst alveg rétt. En ég vona, að bankarnir þrír hafi um það samráð sín á milli, hvernig þeir lána fé út í atvinnulífið. En á meðan ég veit ekki, hvernig þetta er, tel ég mig ekki færan um að dæma um, hvort iðnaðarmenn hafa verið settir hjá, eins og mér skildist af orðum hv. þm. Barð.

Ég er sammála hv. 4. þm. Reykv. um, að það er vafamál, hvort ekki á að breyta frv. af þeim mönnum, sem eru því fylgjandi. Á þessu stigi er ég því ekki fylgjandi, hvorki í einni né neinni mynd, því að ég tel, að það eigi að bíða eftir nál. Þá fær maður að sjá, hvernig nefndin telur heppilegast, að lánsfénu verði dreift út í atvinnulífið og hvernig hún telur heppilegast, að mótvirðissjóði verði varið og dreift út í atvinnulífið. Finnst mér, að maður eigi að bíða og sjá, hvernig hún leggur til, að yfirstjórn allra þessara banka verði, og hvort hún vill einn banka með fleiri deildum eða marga banka. Annars benti hv. þm. Seyðf. (LJóh) réttilega á það, að því fleiri bankar sem væru, því meiri hluti lánsfjárins færi í kostnað og því minna fé yrði til lána. Þetta er ein hlið þessa máls. Og þó að það sé ekki mikill hluti af öllu því fé, sem rennur í gegnum bankana, sem fer í rekstrarkostnað, þá skiptir það alltaf milljónum á hverju ári. Þannig gæti mikið lánsfé sparazt við það að hafa eina stofnun eins og iðnlánasjóð, og er ég því fylgjandi.