05.11.1951
Neðri deild: 22. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

41. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. V-Ísf. hefur gert grein fyrir, er hér um að ræða staðfestingu Alþ. á brbl. Það var svo komið síðastl. vetur, að skuldir ríkissjóðs við sparisjóðsdeild Landsbankans voru orðnar svo miklar, að það ráð var tekið að setja mótvirðissjóðinn í sparisjóðsdeildina í stað seðladeildarinnar, þar sem hann hefði átt að vera lögum samkvæmt. Nú er það svo, að óheimilt er að ráðstafa mótvirðissjóði á þennan hátt, að flytja hann í sparisjóðsdeild úr seðladeild. Á aðalfundi landsbankanefndar 22. febr. 1951 mótmælti ég þessari færslu og taldi hana nánast lagabrot. Raunverulega var viðurkennt af þeim bankastjórum, er þarna voru mættir, að um lagabrot væri að ræða, en því aðeins lýst yfir, að ef mótvirðissjóður yrði færður í seðladeild, yrðu ríkisskuldirnar færðar þar líka. Mótmæla tillaga frá mér gegn þessu var felld með 8 atkv. gegn 3. Ég skýrði frá þessum staðreyndum á Alþingi skömmu seinna. Hefði hæstv. ríkisstj. því viljað leita samþykkis Alþ., þá hefði verið auðvelt að koma nauðsynlegri breyt. lagalega í gegn, svo að ekki væri óhjákvæmilegt að láta landsbankastjórnina fremja lagabrot. Svo eru 30. apríl eða tveimur mánuðum seinna gefin út brbl., sem afnema takmarkanir, sem á því voru, að ríkissjóður geti fengið lán að vild úr seðlabankanum. Nú verð ég að segja það, að það er ekki frá mínu sjónarmiði aðallega efnishlið þessa máls, sem er athugaverð, heldur formshliðin, bæði aðferðin við framkvæmd þess og svo er það einkar óviðkunnanlegt, að engin lagafyrirmæli séu um það, hversu mikið ríkissjóður megi skulda í bönkunum, jafnvel þótt ríkisstj. gefi fyrirheit um það í brbl., að einhvern tíma eigi að setja ákvæði um þetta. Það eru sérstaklega athyglisverð og einkennileg orðatiltæki í forsendum brbl., orðatiltæki, sem ekki er venja að nota, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „enda verða um þau málefni, er áminnzt lagagrein fjallar um, sett ákvæði, er lokið er þeirri heildarendurskoðun á bankalöggjöfinni, er nú stendur yfir.“ Þetta eru einkennileg orð. Það er eins og verið sé að hugga Alþ. með því, að einhvern tíma eigi að setja einhver ákvæði um þetta. Ætlar hæstv. ríkisstj. ef til vill að gera það með brbl.? Það getur liðið langur tími þar til lokið verður endurskoðun þeirri, sem nú fer fram á bankalöggjöfinni, þrátt fyrir allan þann kærleik, sem ríkir milli stjórnarflokkanna. Ég veit ekki, hvort það er í sambandi við þetta, að efnahagsráðunautur ríkisstj. var hér á ferðinni um sama leyti, og hvort það er frá honum, sem vænta má þessara ákvæða, og það sé ef til vill hann, sem á að stjórna Íslandi á næstunni. Ég vil því segja það, að það hefði ekkert verið við þessu að segja, ef hæstv. ríkisstj. hefði komið fram með brbl. hér á Alþ. um þessa breyt., sem mjög hægur vandi hefði verið að koma í gegn.

Ég álít, að þessi aðferð, sem hér hefur verið viðhöfð, sé með öllu óverjandi og að Alþ. verði að átelja þetta. Það fer að tíðkast nokkuð mikið, að ríkisstj. noti sér heimild 28. gr. stjskr. til að gefa út brbl., án þess að brýna nauðsyn beri til. En það er fjarri því að vera tilgangur 28. gr. stjskr., að stjórna eigi landinu með brbl. Það er Alþ., sem hefur löggjafarvaldið, og það er þess vert að vekja á því athygli, að Alþ. er að fara út á hættulega braut með því að gefa hvaða ríkisstjórn sem er of mikið undir fótinn með útgáfu brbl. Það er óneitanlega þægilegra fyrir stj. að gefa út brbl. en standa fyrir máli sínu í þinginu. Og það er stórskaðlegt, ef stj. helzt uppi að leggja á skatt með brbl. og verja til svona og svona ráðstafana. Ég vil taka það fram, að á forsendum eins og þeim, að fjárhagsmálefni landsins hafi orðið fyrir breytingum síðan 1928, er hægt að breyta hvaða lögum sem er. Það er jafnvel hægt að afnema bankaráð og landsbankanefnd og leggja á og innheimta skatta, áður en Alþ. hefur fengið að fjalla nokkuð um þessi mál. Svona skattur hefur verið lagður á, þar sem er álagningin á bátagjaldeyrinn, en heimild til þess er ekki til í lögum að mínu áliti, en aðeins í ákvæðum ríkisstj.

Það er sagt í fylgiskjalinu, sem fylgir þessu frv., að það verði sett nánari ákvæði, þegar lokið verði heildarendurskoðun á bankalöggjöfinni. Það er ekki verið að bíða eftir því, að Alþingi setji lög um seðlabanka. Það er auðvitað, að það er léttara að stjórna með þessu lagi. Það er léttara að stjórna svona, ef t.d. ríkisstj. kemur sér ekki saman um, hvernig hún vill hafa ákvæðin um seðlabanka landsins, eða ef hún kemur sér ekki saman um, hvernig hún vill skipta tekjuafgangi þjóðarinnar. Það er léttara fyrir hana að hleypa þessum málum ekkert inn í Alþingi; svo getur hún, þegar Alþingi er slitið, komið saman og samið brbl. og annar aðilinn fær vilja sinn með tekjuafganginn, en hinn kemur fram sínum sjónarmiðum um seðlabankann. En ef svo verður lengi haldið áfram hér eftir, þá verður ekki séð, hvaða vald það er, sem ríkisstj. hefur í huga að taka sér.

Nú stendur yfir heildarrannsókn á bankamálum landsins, en það er ekki verið að bíða eftir því, að niðurstöður þessarar rannsóknar verði kunnar, heldur eru sett um þetta brbl., án þess svo mikið sem spyrja nokkurra ráða, og ekki nóg með það, heldur er sagt, að það verði sett ákvæði um þetta seinna. Nú er þess að geta, að yfirleitt eru bankamálin íhaldssömustu mál hvers lands, og verður ekki séð, hvað hefur rekið á eftir með setningu brbl. um þetta efni.

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að láta ríkisstj. vita, að því þykir nóg komið af því, að sett séu brbl. milli þinga, sem það svo er látið samþykkja eftir á. Þess vegna hef ég lagt til, að málið verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem deildin álítur útgáfu þeirra bráðabirgðalaga, sem þetta frv. á að staðfesta, og forsendur þeirra sýna óviðeigandi tilhneigingu af hálfu ríkisstjórnar til að seilast inn á valdsvið Alþingis og stjórna landinu með sífelldri útgáfu bráðabirgðalaga, ákveður deildin að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég er — eins og þm. heyra — ekki með þessu móti að setja mig á móti breytingu á þessari gr. laganna, því að það er vitað, að það er full þörf á að gera breytingu á þessari 20. gr. laganna. Og ég er ekki áfram um það að setja seðladeild Landsbankans á hausinn og ekki heldur sólginn í að skera niður vald ríkisstj. yfir þessari deild með því að setja þar við óeðlilegar hömlur, og ég veit, að samþykkt yrði á Alþingi breyting á þessari gr., sem í fælust sæmilegar skorður við lánveitingum, og ég efast ekki um, að þar kjósa þm. heldur að hafa nokkrar skorður. En ég veit, að þarna vilja þm. sjálfir hafa nokkuð um að segja, og því tel ég rétt að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá. Ég veit, að þá mundi stj. leggja fram frv. til breytinga á 20. gr. laganna um Landsbanka Íslands, sem veitti henni nokkuð rúman aðgang að seðladeild Landsbankans, en þó með hæfilegum takmörkunum, þar til heildarrannsókn á bankamálunum væri lokið.

Við höfum þegar nokkra reynslu af heildarrannsóknum, og við vitum, að þegar einni heildarrannsókninni er lokið, þá er reynslan sú, að ekkert er samþykkt, og þá þarf að láta fara fram aðra heildarrannsókn. Ég skal hins vegar falla frá þessu áliti, ef ríkisstj. segði, að við mættum vænta gagngerðra breytinga á bankalöggjöfinni, en mér er næst að halda, að ekkert sé farið að ákveða enn um þessi mál.

En jafnvel þótt svo sé, að þessari heildarrannsókn sé lokið, þá álit ég, að Alþingi geti ekki annað en samþykkt þessa rökstuddu dagskrá, ef það vill standa á rétti sínum, en læt þó vita um leið, að þeir, sem með þeirri stefnu yrðu, mundu engu að siður telja, að breytinga væri þörf á þessari grein.