10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

145. mál, vegalög

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Nú á þessu Alþingi hafa komið fram tvö frv. um breyt. á vegalögunum, og við þau frv. hafa verið bornar fram margar brtt. og viðaukatill. Samvn. samgm. fékk þessi mál til meðferðar og hefur rætt þau ýtarlega á mörgum fundum og hefur um þessar breyt. haft samráð við vegamálastjóra, og er niðurstaðan af störfum n. það frv., sem hér er lagt fram í Nd. af samgmn. þessarar hv. deildar.

Eins og hv. þm. sjá, hefur niðurstaðan hjá n. orðið sú að bera fram nýtt frv., þar sem teknar eru með allar þær breyt., sem n. telur að hægt sé að gera á núgildandi vegalögum. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa á undanfarandi þingum komið fram allmargar brtt. við vegalögin, en frá árinu 1947 hafa þær ekki náð fram að ganga, en þeim hefur fjölgað ár frá ári, og þörfin á því að koma ýmsum vegum í þjóðvegatölu hefur stöðugt vaxið. Það hefur verið reiknað út af vegamálastjóra, að þær till., setu núna voru lagðar fram til viðbótar á þjóðvegakerfinu, mundu fela í sér aukningu á þjóðvegakerfinu, sem nemur 1550 km. Við í samgmn. töldum ógerlegt að taka slíka tölu í einu upp í þjóðvegakerfið. Ég vænti, að það sé líka öllum hv. þm. ljóst, að ef ekki hefði verið reynt að vinna úr þessum till. og bræða saman ýmis ólík sjónarmið og fá út úr því heilsteypt frv., þá yrði lítið úr því, að nokkur breyting yrði gerð á lögunum að þessu sinni. Það er því skoðun n., og ég vænti þess, að allir hv. þm. séu samdóma um það, að allir aðilar hafi reynt að ná samvinnu um þetta mál í því formi, sem frv. er lagt fram nú.

Samkvæmt því frv., sem hér liggur nú fyrir, er gert ráð fyrir því, að þjóðvegirnir lengist um 95A km, og nemur sú aukning 15% af öllum þeim þjóðvegum, sem nú eru í þjóðvegatölu, og er það ekki svo lítil viðbót, þegar horft er á það, hvernig aukningin hefur verið undanfarið, þegar vegalögunum hefur verið breytt, en hím hefur alltaf verið minni. Að vísu hefur aukningin hækkað í hvert skipti og þjóðvegum hefur verið bætt inn í vegakerfið. Þannig var aukningin árið 1940 476 km, 1945 593 km og 1947 707 km. Þannig er mismunurinn á aukningunni frá 1940 og 1947 um 230 km. Samgmn. var óskipt þeirrar skoðunar, að hér væri gengið eins langt og mögulegt væri að ganga með aukningu á þjóðvegakerfinu að þessu sinni. Það er öllum hv. þm. ljóst, að með því að auka þjóðvegakerfið þannig, koma til með að stórhækka framlög úr ríkissjóði vegna þessarar viðbótar og vegna viðhalds á þjóðvegum Og þar sem ekki lítur út fyrir það í þetta sinn, að nokkuð verði hækkað framlag til vega, þá voru ekki sérstaklega góðar horfur á að taka fleiri vegi upp í þjóðvegakerfið en n. nú leggur til.

Ég hirði ekki um að rekja hér, hvaða breyt. hafa verið gerðar á vegalögunum, hv. þm. mun vera það ljóst, því að frv. fylgir sérstakur listi, þar sem raktar eru breytingarnar á vegakerfinu, og má finna þar alla þá vegi, sem nú voru teknir í vegalögin. Það var skoðun nefndarinnar, að ríkissjóður gæti ekki þegar á næsta ári tekið að sér viðhald þessara nýju þjóðvega. og þess vegna setti n. inn í frv. ákvæði til bráðabirgða um, að sýslurnar skyldu á árinn 1952 annast viðhald þessara vega, og var þetta ákvæði sett inn í frv. að ráði vegamálastjóra. Hann taldi, að það mundu koma fram svo margar kröfur um viðhald þessara vega, að ef ekki kæmu til nýjar fjárveitingar úr ríkissjóði til viðhalds þeirra á næsta ári, mundi þeim alls ekki verða haldið víð, nema þetta bráðabirgðaákvæði yrði sett í lögin.

Ég hygg, að n. hafi reynt að taka tillit til allra óska frá hv. þm., sem fram hafa komið í sambandi við breyt. á vegalögunum, og er þess að vænta, að ekki komi fram brtt. við frv. og að það gangi umræðulítið gegnum báðar þingdeildir. Ég vil taka það fram, að það er um að ræða smávægilega leiðréttingu, sem samgmn. mun væntanlega bera hér fram vegna þess, að vegamálastjóri hefur skýrt n. frá því, að um villu sé að ræða í sambandi við einn veg austanlands, og verður lögð fram brtt., þar sem þetta verður leiðrétt.

Hv. alþm. munu án efa reka augun í það, að það er að sjálfsögðu um að ræða mismunandi langa vegi fyrir hverja sýslu. Bæði er það, að sýslur eru mismunandi vegaðar og vegir innan þeirra hafa mismunandi mikla þýðingu, og því getur ekki orðið um fullkomið jafnræði að ræða milli allra sýslna. Hins vegar hefur verið reynt að láta þá vegi koma fyrst í þjóðvegatölu, þar sem þörfin er talin mest, að áfram verði haldið með vegaframkvæmdir. og her að styðja að þeim vegum, sem mest er þörf á, burt séð frá því, í hvaða kjördæmi þeir eru, og vona ég, að allir séu sammála um það. Eins og ég sagði, lengist vegakerfið um 950 km, en nú er lengd allra þjóðvega á landinu rúmlega 6200 km.

Ég held, að ekki gefist sérstakt tilefni til að rekja nánar þær till., sem samgmn. ber hér fram. Það er sérstakt fylgiskjal, sem fylgir frv., og þar eru þær upplýsingar, sem ég tel að verði fullnægjandi fyrir þingmenn til þess að sjá, hvernig ástatt er um þessi mál núna. Allir eru sammála um, að mikil nauðsyn er fyrir atvinnuvegi bæði til lands og til sjávar, að vegakerfi landsins sé sem allra fullkomnast, og að því beri að stefna. Þótt um mikil fjárframlög sé að ræða í þessu skyni, er það sameiginleg skoðun nefndarmanna, að ekki næði neinni átt að skerða þá upphæð, heldur auka þá upphæð, sem fer til þess að bæta vegakerfi landsins.