13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

145. mál, vegalög

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur leyft sér að leggja fram nokkrar brtt. á þskj. 423 við frv. sitt, sem hún bar fram hér í deildinni. Ég skal taka það fram í sambandi við þessar brtt., að hér er yfirleitt um að ræða orðalagsbreytingar. Það kom í ljós við yfirlestur frv. hjá n., að í því höfðu orðið ýmsar minni háttar villur, t.d. hafa vegir hér verið prentaðir á öðrum stað en átti að vera, og varð þetta þegar verið var að steypa frv. saman í eina heild. Hv. þm. munu reka augun í það, að um er að ræða nokkra nýja liði, sem svo eru nefndir, en um þá er það að segja, að þar er aðeins um leiðréttingar að ræða. Um 11. lið brtt. er það að segja, eins og hv. þm. munn sjá við yfirlestur frv., að þar hefur algerlega fallið niður einn vegur við prentun frv., og er þar því ekki um nýjan lið að ræða. Um 5. lið er einnig það að segja, að þar er ekki um nýjan lið að ræða, heldur er þar tekinn vegarspotti af öðrum vegi, sem áður var í frv., og færður inn á nýjan tölulið. Á öðrum stöðum, þar sem um mistök hefur verið að ræða í frv., hefur nú þannig verið gengið frá þessu í samráði við vegamálastjóra, að þar mun vera komin leiðrétting á. Það hefur því ekki verið breytt neitt út af þeirri stefnu, sem n. hefur haft, að hv. þm. gætu sameinazt um frv., þar sem reynt hefur verið svo sem tök voru á að koma að óskum þeirra um breyt. Vitanlega er ekki hægt að taka upp í frv. alla þá vegi, sem óskir hafa komið fram um, en n. hefur reynt að þræða meðalveginn.

Ég vil vænta þess, að Alþ. afgreiði málið með þeim breyt., sem n. hefur hér borið fram til leiðréttingar á frv.