14.12.1951
Efri deild: 43. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

145. mál, vegalög

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Þegar á öndverðu þessu þingi komu fram tvö frv. um breytingu á vegalögunum og síðan brtt. við þessi frv. Þessum málum var öllum vísað til samgmn. deildanna og unnið að þeim í samvn. samgm. Þegar farið var að athuga þessi frv. og brtt. við þau, kom í ljós, að farið var fram á að bæta í þjóðvegatölu nálega 1550 km. Nefndin varð strax sammála um að taka nýja vegi upp í lögin á þessu þingi, en henni var ljóst, að það mundi verða örðugleikum bundið og nær ómögulegt að sinna öllum þeim beiðnum, er fyrir lágu. Nefndin starfaði í samvinnu við vegamálastjóra, og voru samdar tillögur upp á nýtt um nálega 750 km. Eftir þetta var enn farið að athuga málið nánar og þá í samráði við þá þm., sem flutt höfðu brtt., og nefndin reyndi að haga störfum þannig, að sem minnst yrði hróflað við frv. — Eins og gefur að skilja, fengu ekki allir hv. þm. óskir sínar uppfylltar, en þm. tóku þessu vel og gerðu ýmsar breytingar á till. vegamálastjóra, skiptu um vegi o.s.frv., sem þeir álitu meiri þörf á. Eftir að þannig var búið að fara yfir þetta aftur, var ákveðið þetta frv. á þskj. 349, sem flutt var í hv. Nd. og hefur náð samþykki þar. — Ef þetta frv. verður samþ., munu þjóðvegirnir lengjast um tæpa 1000 km, eða 958.8 eins og stendur hér í grg., en við síðari hreytingar bættust við 12–14 km, svo að það eru nálega 970 km, og verða þá að þessu frv. samþykktu 7174, en voru 6215. — Ég vil ekki lengja umræður með því að tala lengur við þessa 1. umr. Ég sé ekki ástæðu til að leggja til að vísa því til nefndar, þar sem samgmn. þessarar deildar hefur unnið að því í samvinnu við samgmn. hv. Nd., en vil vænta þess, að frv. fái sem fljótasta afgreiðslu og verði samþ. óbreytt.