17.12.1951
Efri deild: 45. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

145. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég er vanur því í flestum málum að fylgja vini mínum, hv. 1. þm. N-M., og svo fer enn í þessu máli, að ég vil teygja mig eins langt og mögulegt er til fylgis við hann. Hér liggja fyrir frá honum sex brtt. við vegal., og verður líklega að flokka þær í I. og II. flokk. Þrjár af þeim virðast mér vera aðeins orðabreyt., sem geri í raun og veru ekki mikið til eða frá, hvort orðin standa í l. eins og er í brtt. eða eins og er nú í frv. En skemmtilegra væri, ef hæstv. forseti sæi sér fært að taka þær brtt. aðeins eins og þær væru leiðréttingar, en ekki beint brtt. Á þessu þskj., nr. 463, er því lýst, að Bæjarsveitarvegur eigi að koma á Borgarfjarðarbraut, þar sem þó í frv. er sagt, að þessi vegur eigi að liggja að Reykholtsdalsvegi. Þetta er réttara í brtt. hv. þm., og annars staðar í frv., þar sem þessi vegur er nefndur, sem þarna er nefndur Reykholtsdalsvegur, er hann nefndur sinn rétta nafni, Borgarfjarðarbraut. Ég votta það sem kunnugur maður þarna, að þetta er réttmæt till. Virðist mér mega skoða þessa brtt., b-liðinn, sem leiðréttingu á prentvillu.

Í öðru lagi er e-liður brtt. þessarar um, að í stað orðsins „Ólafsfjörður“ komi: Ólafsfjarðarkaupstaður. Þar vitum við allir, að þar hefur verið í frv. meint, að vegurinn eigi að liggja til kaupstaðarins í Ólafsfirði. (GJ: Hann er lagður — kominn alveg niður í kaupstaðinn.)

Í þriðja lagi er e-liður brtt. þessarar, sem mér virðist vera ekki nema orðabreyt. — Annars hefur það stundum komið fyrir þennan hv. þm., 1. þm. N-M., vin minn, að hann hefur viljað undir því yfirskini, að um leiðréttingu væri að ræða, koma því fram að teygja vegi eitthvað lengra með því en annars hefði verið, svo að till. hans þurfa endurskoðunar við, þó að hann þurfi kannske ekki þess eftirlits við nú. — En hann gengur hreint að verki um síðustu brtt. og viðurkennir, að þar er um langan veg að ræða. En hitt eru spottar, sem hann er að reyna að smálengja, annan veginn um 4 km, en hinn um 5 km. (PZ: Nei, nei.) En það virðist mér ekki koma til mála að setja frv. í hættu vegna þessara brtt., sem ég síðast nefndi.

En það voru nýjar upplýsingar, sem hann var að gefa, að ríkissjóður er nú orðinn svo ör á fé, — hvort sem það er vegna stjórnar okkar ágæta vegamálaráðh., sem við eigum nú, — að hann leggur ótæpt fé í vegi, sem eru ekki taldir með í þjóðvegum eða fjallvegum. Ég tel það góðar upplýsingar, og væri gott fyrir Dalasýslu að fá eitthvert fé á þann hátt. En manni hefur reynzt erfitt að fá fé í hina lögákveðnu þjóðvegi og ekki eins auðvelt að opna lindir ríkissjóðs í því efni eins og ræða hv. 1. þm. N-M. gaf til kynna. En þar sýnast flestar lindir standa opnar þessum hv. þm. (PZ: Ég hef í engan veg fengið fé á þann hátt.)

Þá minntist hv. 2. þm. Árn. aðeins á brtt. hv. 6. landsk. þm. Og ég get tekið fram, að hv. þm. N-Ísf. sótti það fast í n. að fá það ákvæði inn, að Ísafjarðarvegurinn kæmi frá Engjavegi, samkv. 1. brtt. Þetta lá fyrir hjá n., og virtist manni, að nokkur vegarspotti kæmi í þjóðvegatölu þarna með þessu móti, sem lægi innan kaupstaðarlóðarinnar. Það er nýtt, ef farið er að taka í þjóðvegatölu vegi innan kaupstaðaumdæmistakmarka, og við vildum ekki fara inn á þessa braut. Þess vegna spyrntum við aðeins við í þessu máli. Okkur virtist um prinsip að ræða hér, sem ekki mætti brjóta. — Svo er Glámuvegurinn, sem er aðalefnistill. hv. 6. landsk. þm. Það er nú ekki nema gott að segja um þá vegargerð. En fyrir n. lá það, að leiðin væri ekki nægilega rannsökuð enn. Og það virðist vafasamt að fara að taka í þjóðvegatölu og leggja fram fé í þennan veg að svo órannsökuðu máli um vegarstæðið. En það vil ég segja hv. þm., að ég tel það alveg víst, að ef rannsökuð væri þessi leið með þeim árangri. að leiðin þætti vel fallin til að ryðja hana, þá mundi fást sérstakt fé hjá Alþ. til þess að ryðja þá braut. En mér virðist eiga að rannsaka það mál, og ég er viss um, að hv. form. fjvn. er á sama máli um það og að það muni ekki standa á honum að greiða atkv. með því að veita fé — úr ríkissjóði meina ég — til þessara vega. Og ekki mundi heldur standa á fylgi hv. 6. landsk. þm., sem er og hefur verið í fjvn., við þetta mál. — Þess vegna held ég, að það sé gersamlega óþarft að vera hér að samþ. þessa vegalagabreyt. svona út í bláinn og setja með því aðra vegi í hættu um, að þeir komist fram á þessu þingi. — En ég er sannfærður um, að rannsókn á því, hvort leiðin er vel fallin til að ryðja veg þarna, mun verða framkvæmd, ef þeir hv. fjórir þm. Vestfjarða beita sér fyrir því, og munu þeir vart láta sitt ettir liggja í því efni.