18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Ég sé, að form. menntmn. er ekki viðstaddur, en n. hefur flutt þetta frv. eftir minni beiðni. Ástæðan til þess, að sú breyt. er gerð á skiptingu skattsins, sem hér er lögð til, er sú, að rekstur þjóðleikhússins hefur verið þannig á þessu ári, að sá hluti skattsins, sem þjóðleikhúsinu ber að fá, hrekkur ekki fyrir útgjöldum. Það er gert ráð fyrir því nú, að rekstrarhalli verði á leikhúsinu á þessu ári, sem nemur mörgum hundruðum þúsunda króna, þegar tekinn hefur verið sá hluti, sem leikhúsið fær af skattinum. Nú eru flestir sammála um það, að ekki sé hægt fyrir okkur að opna hér þjóðleikhús fyrir tveimur árum og loka því svo, þó að það komi á daginn, að rekstur leikhússins borgi sig ekki. Margir vilja halda fram, að þjóðleikhúsi eigi að halda uppi af því opinbera, eins og landsbókasafni og háskóla og öðrum hliðstæðum stofnunum.

Um það má deila. En um hitt held ég, að ekki verði deilt, að við getum ekki látið loka leikhúsinn. Hitt er svo sjálfsagt, að gera þær ráðstafanir, sem hægt er, til þess að leikhúsið sé rekið eins hagkvæmlega og kostur er, án þess þó að það lúti lægra en þjóðin vill að það geri í sínu starfi. Það hefur verið undanfarið farið mjög nákvæmlega í að athuga rekstur þjóðleikhússins og sparað alls staðar þar, sem hægt er að spara. Að vísu má segja, að þessi reynsla, sem fengizt hefur af rekstrinum, sé ekki löng, aðeins á annað ár. Og að sjálfsögðu verður ekki hjá því komizt, að einhver mistök verði á einu eða öðru sviði, sem svo er hægt að kippa í lag eftir því, sem reynslan sýnir, að betur hentar.

Til þess nú að bjarga málinu við, hefur verið hallazt að því að láta rekstrarsjóð leikhússins fá meira af skemmtanaskattinum en hann hefur haft áður, og draga það aftur frá byggingarsjóði hússins. Hér er lagt til, að ríkissjóður taki að sér byggingarskuldir leikhússins eins og þær eru nú. Virðist það vera að öllu leyti eðlilegra en að hafa þetta eins og nú er, að það hvíli að öllu leyti á menntmrh. að sjá byggingunni farborða. Að sjálfsögðu hefur menntmrn. enga fjármuni til að standa undir þessu, nema það lán, sem það útvegar, en það sýnir aftur á móti, að ríkið verður að standa undir byggingu leikhússins, þó að byggingarkostnaðurinn verði að síðustu greiddur af þeim skemmtanaskatti, sem leikhúsinu hefur verið ætlaður. Það er ekki hróflað við öðrum þeim aðilum, sem hér fá hluta af skemmtanaskattinum, en munurinn, sem þetta gerir, verður auðvitað sá, að tilgangur félagsheimilasjóðs næst síðar, eða það verður lengri tími, þangað til hann kemst upp í þann hluta, sem honum ber samkvæmt l. Hann fær inn 35% af skattinum, sem var á síðasta ári rúmlega 1 millj. kr. Og ég verð nú að segja það, þó að ég sé þessu máli mjög hlynntur og vilji síður en svo, að það falli niður, að félagsheimili verði byggð í sveitum, að þá er þó þetta fé, sem þarna kemur, svo mikið, að ég efast um, eins og nú standa sakir, að það sé mjög líklegt, að hægt verði að leggja meira á móti en sem því svarar af hendi sveita og héraða. Svo þó að félagsheimilasjóður fái ekki nema 35% af skattinum, þá þarf það ekki að verða til þess að tefja byggingu slíkra heimila frá því, sem annars mundi verða. Enn fremur er lengt tímabilið, sem hagnaður Viðtækjaverzlunar ríkisins á að renna til ríkissjóðs til að standa undir útgjöldum byggingarsjóðsins. Einnig er gert ráð fyrir því, að þeim 10%, sem lögð voru á skemmtanaskattinn á síðasta ári í þeim tilgangi, að það fé rynni eingöngu í byggingarsjóðinn, verði haldið, en þar er því bætt við, að af þessum 10% hafi fjmrh. heimild til að greiða 5% til sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég gerði því ráð fyrir, að með þeim styrk, sem sinfóníuhljómsveitin fengi af þessum hluta, þá mundi henni vera gert kleift að halda uppi starfsemi sinni. Hún hefur farið fram á að fá 250 þús. kr. úr ríkissjóði, og er þá gert ráð fyrir, að hún fái jafnmikið úr bæjarsjóði. Undir þetta hefur ekki verið tekið, að leggja til, að slíkur styrkur verði settur inn á fjárl. Hins vegar er mikill þingvilji fyrir því að styrkja þetta fyrirtæki, svo að það gliðni ekki í sundur í höndunum á þeim mönnum, sem mikið hafa á sig lagt við þetta starf, og þá hefur verið horfið að því að reyna að styðja þennan rekstur eitthvað nú fyrst um sinn með því að samþ. 5% af þessum 10% aukaskatti.

Ég vænti þess, að hv. d. taki þessu vel, því að það varðar miklu í þeim málum, sem að þjóðleikhúsinu lúta, ef ekki er hægt að afgreiða þetta mál á þann veg, sem hér er lagt til.