19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Pétur Ottesen:

Það er fornt spakmæli, sem hljóðar svo, að ekki sé hyggilegt að höggva oft í sama knérunn, en það virðist mér að verið sé að gera að vissu leyti í sambandi við þetta mál. Það virðist mér gert með þessu frv. að því er snertir aðstöðu ýmiss konar menningarstarfsemi úti um hinar dreifðu byggðir þessa lands. Það hafa nú á þrem þingum verið lagðar fram breyt. á l. um skemmtanaskatt, og hafa þær breyt. allar gengið út á að rýra þau hlunnindi, sem menningarstarfsemi úti um land hefur notið í sambandi við skemmtanaskattinn, en þau hlunnindi, sem þessi starfsemi hefur þannig verið svipt, verið notuð til góða menningarlífi í Reykjavík og til að bera uppi starfsemi þjóðleikhússins. Á síðasta þingi var 1. um skemmtanaskatt breytt þannig, að aðstaða félagsheimila og lestrarfélaga var rýrð beinlínis, en nú á þessu þingi á að rýra þessa aðstöðu að minnsta kosti óbeinlínis. Það er að vísu ekki í þessu frv. gert ráð fyrir, að hlutfalli því, sem lagt er til grundvallar úthlutun skemmtanaskattsins til þjóðleikhússins annars vegar og félagsheimila og lestrarfélaga hins vegar, verði raskað, en hins vegar er gert ráð fyrir, að hlutur sá, sem hefur átt að ganga til greiðslu á skuldum þjóðleikhússins, verði lækkaður um 17%, en sá hluti skattsins, sem renna á í rekstrarsjóð hússins, hækki þá um sömu upphæð. Þetta veldur því, að það tekur lengri tíma en ella að greiða upp byggingarskuldir þjóðleikhússins, og þar af leiðir, að sú skerðing á skemmtanaskattinum, sem annars mundi geta runnið til félagsheimila og lestrarfélaga, stendur lengur yfir en annars hefði orðið, og þá hinn varanlegi hluti þjóðleikhússins af skattinum stækkaður. Það var látið í veðri vaka, er þessi úthlutun skattsins var ákveðin, að þetta hlutfali yrði tekið til athugunar á ný, þegar búið væri að greiða upp allar skuldir þjóðleikhússins. En nú á enn að halda áfram að sölsa stærri og stærri hluta þessa skatts undir þjóðleikhúsið, og ef á að halda uppteknum hætti og ganga á rétt þeirra aðila, sem í dreifbýlinu eru, til þess að afla fjár handa þjóðleikhúsinu, eins og gert hefur verið í þrjú ár í röð, þá er engin trygging fyrir því, að ekki verði enn haldið áfram á þeirri braut. — Ég vildi því ekki láta þetta frv. ganga hér fram án þess að vekja athygli á þessu, enda sjálfsagt, að við hér á Alþ., sem eigum að standa reikningsskil á okkar gerðum, séum fullkomlega á verði, ef svo fram vindur að því er snertir þessi mál.

Ég vil enn fremur benda á annað atriði, sem er athyglisvert í þessu frv., en það er 2. gr., þar sem kveðið er á um það, að innheimta skuli skemmtanaskatt með 10% álagi og ríkisstj. heimilað að greiða helming af tekjum þeim til sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er alkunnugt, að sett hefur verið á stofn þetta fyrirtæki, sem mun vera alldýrt í rekstri, og sagt er, að rekstrarkostnaður þess muni vera kominn upp í eina millj. og 300 þús. kr., og er reiknað með því, að hann vaxi enn. Með þessu ákvæði mundi stigið það spor, sem fæli í sér, að ríkisstj. skuli taka að sér að sjá þessu fyrirtæki farborða, því að samkv. þessari grein mundi vera heimilt að láta ganga til að bera uppi þessa starfsemi um 150 þús. kr., eða helming af þessu 10% álagi, sem mundi nema um 300 þús. kr., og er þetta framlag þó ekki nema rúmur helmingur þeirrar upphæðar, sem farið var fram á við 2. umr. fjárl. að veitt yrði til hljómsveitarinnar, en þar var ætlazt til þess, að beint framlag til hennar úr ríkissjóði yrði 250 þús. kr. á næsta ári. — Ég vildi einnig vekja athygli á þessu, því að eins og nú er komið hag ríkissjóðs og möguleikum hans til að afla sér tekna, er rétt, að menn hafi opin augun fyrir nýjum og varanlegum byrðum, sem á hann á að leggja og stefnt er að, ef þetta frv. verður samþ.

Nú, það er í þriðja lagi vert að benda á það í sambandi við þetta frv., að á síðasta þingi voru sett þau lagaákvæði, að hagnaður af Viðtækjaverzlun ríkisins skyldi renna í ríkissjóð og varið til að greiða byggingarskuldir þjóðleikhússins á árunum 1950–52. Nú á að framlengja þetta ákvæði í fjögur ár í viðbót, eða til ársins 1956, og væri þannig búið að ráðstafa þessu fé líka í þágu þjóðleikhússins, og því er það horfið til annarra greiðslna, hvort heldur væri til útvarpsins eða annarra stofnana.

Þá kveður 4. gr. þessa frv. á um það, að ríkissjóður taki að sér að greiða allar byggingarskuldir þjóðleikhússins. Það hefur ekki áður verið farið inn á þessa braut að láta ríkissjóð taka við forsjá þessa máls, heldur hefur það verið í höndum viðkomandi ráðuneytis. En með þessu frv. er svo ætlazt til, að ríkissjóður taki á sig allar skuldir hússins, sem nema nú um 101/2 millj. kr. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessum atriðum, því að það virðist vera orðið svo, að auk þess sem ríkið verður að leggja mikið fé í að standa straum af kostnaði byggingar þjóðleikhússins, þá séu einnig horfur á þungum bagga fyrir ríkissjóð að því er snertir rekstur fyrirtækisins. Mér dettur ekki í hug að mæla því mót, að hér só um þýðingarmikið menningarfyrirtæki að ræða, en ekki fjölmennari þjóð en við Íslendingar erum verður að gæta þess að reisa sér ekki hurðarás um öxl í þessu efni, heldur haga rekstri þessarar stofnunar þannig, að hún geti haft sem mest menningargildi, jafnframt því sem reynt sé að reisa rönd við þeim kostnaði, sem slíkt hefur í för með sér, en allt bendir til þess, og saga þessa fyrirtækis sýnir það, að hér muni verða um allþungan bagga að ræða fyrir ríkið. Og það kom fram í sambandi við 1. umr. þessa máls í gærkvöld, að til þess að afla aukatekna með skemmtanaskatti, sem skyldi þá renna allur á einn og sama stað, þá væri ef til vill ástæða til að taka það til athugunar, hvort í því augnamiði mætti ekki svipta þau fyrirtæki, sem nú starfa í þessu landi og eru undanþegin skemmtanaskatti, þeim hlunnindum sínum. Viðleitnin til að afla tekna handa þjóðleikhúsinu er komin svo langt, að það er meira að segja farið að tala um að kippa grundvelli undan þeirri starfsemi í landinu, sein byggð er á hornsteinum menningar og mannúðar. Menn eru farnir að ganga svo langt í að hlúa að þessu fyrirtæki, að farið er að tala um að skerða stórlega aðstöðu þeirra samtaka í landinu, sem vinna hina þýðingarmestu menningar- og félagsstarfsemi. Hér er komið langt út fyrir þau takmörk, sem sæmilegt er fyrir svo virðulega stofnun sem Alþ. að stíga yfir.