20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir brtt. minni á þskj. 513. Ég vil þó geta þess, að það vakir ekki fyrir mér að gera neinar efnisbreytingar á þessum lögum. Ég skal þó viðurkenna það, að á fyrri till. minni á þskj. 513 var um nokkra efnisbreytingu að ræða, þar sem farið er fram á að veita ráðh. heimild til að undanþiggja sumar opinberar skemmtanir því að greiða skattinn. — Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég vil geta þess, að ég hef orðið var við nokkurn misskilning milli mín og hv. þm. í þessu máli, þar sem þeir halda, að ég sé að fara annað en raunverulega er tilgangur minn með þessum till. Það er ekki ætlun mín að draga úr þeim heimildum, sem hér eru veittar, en það kom fram hjá hv. þm. Borgf., að það vekti fyrir mér að kippa einhverjum stoðum undan þessari starfsemi.

Til þess að blanda þessu máli ekki frekar inn í umr. um þetta frv. vegna hins nauma tíma, ætla ég að verða við óskum hæstv. ráðh. og taka till. mína aftur, og það því fremur, sem hann hefur upplýst, að allsherjar rannsókn á skemmtanaskattinum standi nú yfir, og hefur lofað, að sjónarmið mitt í þessu máli verði þar athugað. — Að svo mæltu dreg ég till. mína til baka.