20.12.1951
Neðri deild: 51. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Pétur Ottesen:

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH ) hefur tekið aftur till. sína, og ég get vel tekið undir það með honum, að það var engan veginn hans meining að ganga í berhögg við það, sem ég vildi láta standa óhaggað í l. Að vísu hefði ég talið æskilegra, að till. hefðu verið öðruvísi orðaðar.

Ég hef áður nokkuð rætt orðalag þessa frv. og um leið hinar auknu byrðar, sem ríkið tekur á sig með samþykkt þess. Enn fremur hef ég bent á, að í 2. gr. frv. væri farið inn á þá varhugaverðu braut, að ríkið taki á sínar hendur rekstur sinfóníuhljómsveitarinnar. Ég álít það allvarhugavert, að ríkið taki þetta að sér, þar sem mjög mikill halli hefur orðið á starfsemi hennar, og ég tel það ekki gerandi fyrir ríkissjóð að bæta þessu á sig til viðbótar við þær skyldur, sem hann hefur við þjóðleikhúsið. Það er mjög varhugavert fyrir ríkissjóð að taka á sínar herðar hverja stofnunina á fætur annarri, sem reknar eru með halla. Á síðasta þingi var felld till. um 250 þús. kr. framlag til hljómsveitarinnar, og nú á þessu þingi kom fram við 2. umr. fjárl. till. um framlag til hennar, en eins og hv. alþm. vita, var hún tekin aftur.

Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. við þetta frv., þess efnis, að 2. málsgr. 2. gr. falli niður, en þar segir: „Heimilt er ráðherra að greiða helming af tekjum þessum til sinfóníuhljómsveitarinnar.“ Vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. mína. Það hefur ekki unnizt tími til þess að prenta hana vegna þess, hve tími er naumur.