20.12.1951
Efri deild: 52. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

153. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar fjárlfrv. var til athugunar í fjvn., var rætt um það. hvort taka ætti inn á fjárlög tekjur og gjöld í sambandi við rekstur þjóðleikhússins. Þetta var ekki gert og m.a. vegna þess, að ríkissjóður vildi ekki þannig gefa um það fyrirheit að greiða allan þann kostnað, sem yrði við rekstur hússins, sem mun nú vera um 900 þús. kr. Í sambandi við þetta óskaði n. að fá ýmsar upplýsingar um þjóðleikhúsið, m.a., hvað hæft væri í því, sem breitt hefur verið út, að Anna Borg hafi fengið 70–80 þús. kr. fyrir sína vinnu við þjóðleikhúsið, en Stefano Íslandi hafi ekkert tekið fyrir sína vinnu. Í þessu sambandi vil ég lesa upp bréf það, sem fjvn. barst frá þjóðleikhússtjóra, dags. 29. nóv. 1951. Þar segir meðal annars: „Samkvæmt beiðni leyfi ég mér hér að senda skrá um greiðslur til þeirra söngvara og leikstjóra, sem fengnir voru erlendis frá á þessu ári.“ Í skýrslu þessari kemur í ljós, að Anna Borg hefur fengið fyrir 23 sýningar á heilagri Jóhönnu 25 þús. kr., fyrir 14 sýningar á Ímyndunarveikinni 14 þús. kr., eða samtals 39 þús. kr. fyrir báðar þessar leiksýningar. En auk þess hefur hún fengið greitt upp í ferðakostnað kr. 3824.42 og fyrir uppihald 11200 kr. Stefano Íslandi hefur fengið greiddar fyrir 29 sýningar á Rigoletto 24500 kr. og auk þess 7612 kr. í ferðakostnað og kr. 14903.50 fyrir uppihald. — Else Mühl voru greiddar fyrir 18 sýningar á Rigoletto 9000 kr., í ferðakostnað kr. 4995.10 og í uppihald kr. 5918.75. Else Mühl tekur því helmingi minna fyrir hverja sýninu en Anna Borg og Stefano Íslandi. — Simon Edwardsen hafa verið greiddar fyrir uppsetningu og leikstjórn á 29 sýningum á Rigoletto 18605 kr., í ferðakostnað kr. 7849.55 og í uppihald kr. 12179.55. — Til Evu Bérge hafa verið greiddar fyrir 11 sýningar á Rigoletto 4765 kr., í ferðakostnað 3806 kr. og í uppihald kr. 3294.95.

Mér þótti rétt að láta þessar upplýsingar koma hér fram til þess að mótmæla því, sem dreift hefur verið út um bæinn í sambandi við þessar leiksýningar.