20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

72. mál, sala Múlasels og Hróastaða

Frsm. (Andrés Eyjólfsson):

Herra forseti. frv. þetta er um það að selja eyðijörðina Múlasel í Mýrasýslu Gísla Jónssyni bónda á Helgastöðum í sama hreppi. Með frv. fylgdu umsagnir umboðsmanns kirkjujarðarinnar Múlasels og meiri hluta hreppsnefndar Hraunhrepps, eða fjögurra hreppsnefndarmanna af fimm.

Landbn. tók þetta mál til athugunar og óskaði síðan eftir umsögnum um það frá landnámsstjóra og dóms- og kirkjumrn. Svör bárust frá báðum aðilum og voru mjög á sama veg og umsagnir hreppsnefndarinnar og umboðsmanns, að heppilegast væri að sameina þessar tvær jarðir og að Múlasel væri svo lítil jörð. að það mundi tæplega vera hægt að reka á henni sjálfstæðan búskap. Eftir að þetta mál var borið fram hér á þinginu, barst umsögn fimmta hreppsnefndarmannsins í Hraunhreppi. Leggur hann á móti því, að jörðin verði seld, og aðalrök hans í málinu eru þau, að þarna sé um að ræða allmikið skóglendi, sem ríkið gæti tekið til sinna nota síðar. Einnig barst n. umsögn skógarvarðarins á Vesturlandi, þar sem hann telur, að þarna sé aðeins um kjarrskóg að ræða, og muni ríkið varla fara að sækjast eftir landinu til skógræktar.

Landbn. hefur athugað frv. á tveim eða þrem fundum, og fékk hún landnámsstjóra til að mæta á einum fundinum, og staðfesti hann þar sína fyrri umsögn svo og það, að lýsing jarðarinnar, eins og hún kom frá hreppsnefnd Hraunhrepps, væri rétt og jörðin mundi tæplega verða byggð, þar sem hún væri fremur illa fallin til ræktunar og engjar litlar og lélegar. Landbn. er öll þeirrar skoðunar, að það beri frekar að fjölga býlum en fækka þeim, en eftir að hafa athugað allar aðstæður í sambandi við þetta mál, taldi hún þó rétt, að þessar tvær jarðir yrðu sameinaðar, því að með því gætu skapazt möguleikar fyrir tvö býli á Helgastöðum, en þá jörð, sem er fjallajörð, skortir beitiland, og þar mun fyrst og fremst verða um sauðfjárbúskap að ræða. Því varð það niðurstaða n. að leggja til, að frv. yrði samþykkt.