23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, þá er þetta mál ekki nýtt. Það hefur verið flutt á síðustu þrem þingum og var á síðasta Alþingi flutt sem 109. þingmáli Ég hafði þá viljað ganga svo langt í þessu máli að taka allt erfðaféð til þess að inna af hendi það verkefni, sem hér um ræðir. En þetta vildi hv. deild ekki fallast á í fyrra, og var málinu vísað frá í þessari hv. deild með till. frá forseta deildarinnar, Bernharð Stefánssyni, svofelldri:

„Í trausti þess, að ríkisstj. undirbúi löggjöf um stofnun og rekstur hælis fyrir öryrkja, sem misst hafa hluta starfsgetu sinnar, og leggi tillögur sínar um það efni og um fastan tekjustofn í þessu skyni fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi hv. deild hafði því markað afstöðu sina til málsins í fyrra, og ég vænti þess, að hún nú sjái sér fært að fylgja þessu máli í því formi, sem það nú er borið fram, því að það uppfyllir óskir flutningsmanns þessa máls frá síðasta Alþingi.

Ég vil leyfa mér að benda á, að í 1. gr. frv., eins og það er nú, er gert ráð fyrir því, að erfðafjárskattur renni til Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. jan. 1952. Ég legg til, að þessu verði breytt þannig, að í stað 1952 komi 1953, og bið ég formann nefndarinnar að athuga þetta milli umræðna. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. vilji halda þessum lið á fjárlögum næsta árs, þótt hér sé ekki um stóra upphæð að ræða, eða um 300 þús. kr. Hins vegar þarf þetta engum ágreiningi að valda í framtíðinni, þótt þetta væri e.t.v. betra nú. Ég fyrir mitt leyti er fús til samkomulags um þetta atriði. en vil beina því til formanns nefndarinnar að taka þetta til athugunar milli umræðna.

Ég vildi mega æskja þess, að hæstv. forseti taki þetta mál á dagskrá eins fljótt og honum er unnt, til þess að hægt væri að samþykkja það áður en þessu þingi lýkur.