23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér þykir hér vera svo merkilegt nýmæli á ferðinni, að þótt míns máls væri ekki þörf til þess að afla því fylgis, þá vildi ég þó taka þá afstöðu til málsins fyrir mitt leyti, að það eigi hinn ríkasta stuðning skilið. Eins og hv. þm. Barð. minntist á, er hér um að ræða hina sömu hugmynd sem hann hefur verið flutningsmaður að, að vísu í öðru formi, í fyrra og deildin þá galt samþykki sitt við í „prinsipinu“, en óskaði eftir, að ríkisstj. undirbyggi það betur til þess að færa það í betra horf og beitti málinu meira upp í vindinn.

Sá hópur manna í þjóðfélaginu, sem hér um ræðir, mun hafa allt of lengi sætt lítilli athygli þess opinbera, þótt ýmsir góðir og gegnir menn hafi komið auga á þörf einstakra öryrkja og veitt þeim aðstoð til þess að vinna fyrir sínu daglega brauði á þann hátt, sem örlögin hafa skapað þeim möguleika til þess. Hv. frsm. minntist réttilega á Reykjalund sem lýsandi fordæmi þess, hverju má til vegar koma hjá lasburða fólki, þegar rétt er stefnt og réttilega staðið að framkvæmdum. Og það er það, sem ekki er hvað minnst áríðandi. Á Alþingi má oft heyra menn lýsa þeim ókostum, sem ríkisstofnanir hafa, að þær verði byrði okkar, se;n erum bakhjarlar ríkisvaldsins, hversu þetta virðist oft takast illa, þegar því er eingöngu stjórnað af tilkvöddum aðila ríkisvaldsins. Þar með er ekki sagt, að slíkt þurfi alltaf að fara illa. Mér þykir rétt að benda á við þetta tækifæri, að um leið og ég fyrir mitt leyti vona, að öll þessi hv. deild hljóti að fylgja meginhugmynd og hinni stóru hugsjón, sem liggur til grundvallar frv. þessu, að þá þurfi að reyna að tá því til vegar komið með öruggri framkvæmd, að tel sé vandað til undirbúnings vistheimilisins og þá ekki hvað sízt forstöðumanns þess. Reykjalundi hefur lagzt margt gott til og ekki hvað sízt forsjál forstaða, og ég þykist viss um, að sú gæfa, sem yfir því heimili ríkir, eigi ekki hvað sízt rót sína að rekja til forsjállar stjórnar fyrirtækisins. Það er fágætt, og við höfum ekki mörg dæmi þess, að saman fari góðir læknishæfileikar og góðir búmannshæfileikar og ráðdeild yfir verksmiðjuvinnu, eins og nú er farin að verða í Reykjalundi. En einmitt þetta hafa berklasjúklingarnir, ágætan lækni, sem veitir Reykjalundi forstöðu, mann, sem sameinar þessa hæfileika á mjög blessunarríkan hátt.

Ég skal ekki tefja deildina með frekari ræðu um þetta mál, heldur vildi ég aðeins nota tækifærið til þess að leggja mín meðmæli með þessari stofnun, að henni verði komið á fót. Ég vona, að blessun fylgi henni og stjórn og forstaða hennar verði góð og þeim, sem hennar njóta, til gagns og þjóðinni til sóma, þegar þar að kemur.

Hv. þm. Barð. lýsti smáagnúa, sem á þessu er hvað tekjuöflun snerti, að það kynni að reka sig á við fjárlög 1952. Þar sem hv. þm. er formaður fjvn., þá er hann rétti maðurinn til að henda á þetta. En þeir skattar, sem hér um ræðir, eru ekki það verulegt atriði í fjármálum ríkisins, að ekki ætti að mega bjargast af án þeirra, ef það er satt og rétt, sem ég dreg stórlega í efa, að tekjur ríkissjóðs að öðru leyti hrökkvi ekki til, því að það vita allir, að eftir gengislækkunina og fyrir gjafir Marshallhjálparinnar til landsins hafa sogazt svo stórar fjárupphæðir inn í ríkissjóðinn, að það er talað um, að tekjuafgangur þessa árs verði um 50 millj. kr. En ég ætla, ef ekkert sérstakt kemur fyrir þær sex vikur, sem eftir eru af árinu, að það sýni sig, að tekjuafgangur verði miklu meiri en 50 millj. kr. Þess vegna er ástæða hv. þm. Barð. rétt að efni til, en óþörf og bagaleg, af því að þá mundi þetta mál þokast aftur á bak um eitt ár frá því, sem stefnt er að í þessu frv., og ég sé eftir þessu ári meira en tiltölulega óverulegum tekjum ríkissjóðs, vegna þess að hann er þegar fullmettur í því peningaflóði, sem hann fær frá öðrum lindum. Það er sjálfsagt að taka undir það með hv. þm. Barð., að þetta sé athugað. En ég hef látið mitt álit í ljós, og ég álít hið glataða ár meira virði en tekjur þær, sem af erfðafé falla til ríkissjóðs. — Þetta var allt, sem ég vildi segja. En ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði, og óska þess, að þessi hv. deild ýti svo vel áfram þessu frv., að það komist sem fyrst til Nd., því að við vitum, að þeir þurfa lengri tíma þar til að athuga málin en þessi hv. deild, og erum við með því að reyna að varna því, að trafali sé settur á veg þess.