11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og hefur verið til athugunar í fjhn. þessarar deildar. Nefndarmenn hafa orðið ásáttir um að mæla með, að þetta frv. verði samþ., þ.e.a.s. efni þess, en hins vegar taldi n. rétt að gera nokkrar breytingar á frv. til þess að gera ákvæði þess skýrari en þau nú eru. Hafa verið lagðar fram brtt. á þskj. 570 við þrjár greinar frv. — Í fyrsta lagi flytur n. till. um, að það verði skýrt fram tekið í 1. gr., að þetta fé renni í sérstakan sjóð, er verði í vörzlum Tryggingastofnunar ríkisins, en .aðgreindur frá öðru fé, er sú stofnun hefur undir höndum. Þetta er ekki skýrt fram tekið í frv. — 2. brtt. er um það, að þessu fé verði varið til lána og styrkveitinga til þess að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir öryrkja og gamalmenni til að styðja þetta fólk til sjálfsbjargar, svo að það geti notað sína takmörkuðu starfsgetu. Í frv., eins og það nú er, er rætt um vinnuheimili og vinnustöðvar, en n. telur, að einnig geti komið til mála að styrkja öryrkja til að eignast vinnutæki, þó að þeir hafi ekki aðstöðu til að dveljast á vinnuhæli. — Í þessari sömu till. er gert ráð fyrir heimild til að veita sveitarfélögum lán úr sjóðnum í þessu skyni. Þó eru sett takmörk fyrir, hve miklu þau megi nema af stofnkostnaðinum. Þar er einnig gert ráð fyrir, að til greina komi að veita einstökum mönnum aðstoð í þessu skyni, helzt einstökum öryrkjum, en líka kemur til greina að veita einstökum mönnum styrk til að koma upp vinnuhælum fyrir öryrkja. Einnig kemur til mála að styrkja félagssamtök til að koma upp stofnunum í líkingu við S.Í.B.S., sem hefur sett upp vinnuhæli handa berklasjúklingum í Mosfellssveit. — Síðasta brtt. er við 3. gr. og er um, að félmrh. skuli taka ákvarðanir um styrkveitingar úr sjóðnum og að hann setji þau skilyrði fyrir lánunum og styrkveitingunum, sem ástæða þykir til, einnig að ráðh. setji reglur um fyrirkomulag vinnuheimilanna og vinnustöðvanna, er fá lán eða styrk úr sjóðnum. — Er gert ráð fyrir, að sá erfðafjárskattur, sem til fellur frá ársbyrjun 1953, renni í þennan sjóð. Erfðafjárskatturinn er áætlaður 300 þús. á þessa árs fjárl. Segir í nál., að nm. séu á einu máli um, að hyggilegt sé að verja skattinum fyrst um sinn í þessu skyni. En ekkert er hægt að segja um, hver þörf er fjárveitinga í þessu skyni, og verður reynslan að skera úr um það, og kemur þá til athugunar Alþ. að gera breytingar á þessu, ef þörf þykir.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Einn nm., hv. 2. þm. Reykv., skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hafði hann kosið að hafa brtt. öðruvísi, og mun hann gera grein fyrir því, ef hann sér ástæðu til.