11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er r~it hjá hv. þm. V-Húnv., að eins og frv. kom frá hv. Ed. var það að sumu leyti óljóst, og ég álít, að það sé nú á ýmsan hátt skýrara og betur orðað. En það eru einkum tvö atriði, sem ég hefði heldur kosið að hefðu verið öðruvísi, þó að ég hafi ekki á þessu stigi kosið að bera fram brtt. Eins og frv. kom frá Ed., var ætlazt til, að þessi erfðafjárskattur rynni til ríkisins og það veitti fé til þessara stofnana. Ég tel heppilegra, að Tryggingastofnunin sjálf komi upp þessum hælum, og er það ekki útilokað með breytingu fjhn. Þá er og betra, að sjóðurinn sé aðgreindur og í vörzlum Tryggingastofnunarinnar. Upp á notkun þessa fjár væri heppilegra, að Tryggingastofnunin skipulegði sjálf að koma upp slíkum vinnuheimilum, því að oft þarf sérfræðilega kunnáttu til að athuga, hvernig nota eigi vinnugetu öryrkja, og því ekki nema að nokkru leyti treystandi á getu einstaklinga og félaga til að gera slíkt, þó að það hafi að vísu tekizt vel í Reykjalundi. Ég mun ekki að svo stöddu flytja brtt. um þetta, en set þetta fram til athugunar. — Varðandi 3. gr. held ég að væri heppilegast, að Tryggingastofnun ríkisins tæki ákvarðanir um lánveitingar og styrkveitingar úr sjóðnum og það væri háð samþykki ráðh. Ætti að vera litlum efa bundið, að Tryggingastofnunin fylgist bezt með slíku og ætti að hafa sem mest ráð í því. Fyrir ráðh. ætti að vera nóg að leggja samþykki sitt á þetta. — Þetta eru ekki svo veigamiklar athugasemdir, að ég hafi við þessa umr. viljað flytja brtt. við frv. Í heild er frv. betur orðað og skýrara eins og fjhn. leggur til að því verði hreytt, og má þá athuga við 3. umr. um frekari brtt. — Þetta vildi ég segja vegna þessa fyrirvara.