11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þess verður vart um þessar mundir, að nokkurrar bjartsýni gætir hjá þm. um fjárhagsafkomu ríkisins og þeir telja óhætt að færa eitthvað af tekjustofnum ríkisins til og láta þá gegna öðru hlutverki en að renna í ríkissjóð. Þetta frv. er ekki stórvægilegt og ekki um háa fjárhæð að ræða, en þó spor í þessa átt. — En í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að minna hv. þm. á, að í gildi eru lög, sem snerta það efni, sem hér liggur fyrir. Þegar lögin um almannatryggingar voru sett, var þetta sjónarmið látið liggja til grundvallar því frv. og það rætt allmikið. Niðurstaðan varð sú, að með lögunum um almannatryggingar var ákveðið, að ellistyrktarsjóðunum, sem höfðu safnazt áður en lögin voru sett, og sjóðum þeim, sem sjúkrasamlögin höfðu safnað, skyldi varið til að koma upp elliheimllum og stofnunum fyrir öryrkja.

Í 101. gr. l. um almannatryggingar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ellistyrktarsjóðunum skal varið til að koma upp elliheimilum og stofnunum fyrir öryrkja, sbr. 17. gr.

Tryggingastofnunin skal gera heildartill. um, hvar elliheimilum og stofnunum fyrir öryrkja skuli komið upp, og sé stefnt að því, að tryggingaumdæmi, eitt eða fleiri, geti verið saman um stofnun þeirra og rekstur. Tillögur þessar skulu lagðar fyrir félagsmálaráðherra til staðfestingar og síðan tilkynntar hlutaðeigandi sveitarfélögum. Að fenginni staðfestingu félagsmálaráðherra skal fara fram atkvæðagreiðsla um, hvort koma skuli upp slíkum stofnunum, ef Tryggingastofnunin eða sveitarstjórnir eins eða fleiri sveitarfélaga óska þess. Atkvæðagreiðslan fer fram á sameiginlegum fundi sveitarstjórna í því umdæmi, er hlut á að máli. Ef meiri hluti er því fylgjandi, að komið verði upp slíkum stofnunum, getur ráðherra ákveðið, að samþykktin sé bindandi fyrir öll sveitarfélög innan umdæmisins eða umdæmanna, ef fleiri eru, og að þau sameiginlega skuli koma á fót slíkri stofnun innan þess tíma, er ráðherra ákveður. Jafnframt er þá Tryggingastofnuninni skylt að greiða upphæðir þær, sem standa í ellistyrktarsjóðum hlutaðeigandi sveitarfélaga, upp í stofnkostnaðinn.“

Í 104. gr. sömu laga segir:

„Heimilt er að veita sveitarfélögum byggingarlán úr varasjóði sem hér segir:

a) Til að koma upp elliheimilum og öryrkjastofnunum, sbr. 101. gr., þó ekki yfir 40% af þeim hluta varasjóðsins, sem myndaður er úr Lífeyrissjóði Íslands.“

Út af þessu vil ég leyfa mér að beina þeim fyrirspurnum til fjhn., sem hefur fjallað um þetta mál, hvort n. hefur tekið til athugunar þau atriði í sambandi við þetta mál, sem nú skal greina:

1) Hve miklu nemur fé ellistyrktarsjóðanna gömlu, sem ákveðið er að eigi að renna til þess að koma upp elliheimilum og öryrkjastofnun?

2) Hefur verið gerð heildartill. um það, hvar stofnun fyrir öryrkja skuli komið upp samkvæmt ákvæðum almannatryggingal.?

3) Hefur Tryggingastofnunin greitt fjárhæð úr ellistyrktarsjóði upp í stofnkostnað slíkrar stofnunar?

4) Hafa sveitarfélögin fengið byggingarlán samkv. 104. gr. almannatryggingal. til þess að koma upp stofnun fyrir öryrkja?

Ef til vill hefur n. athugað þetta, en mér finnst sambandið milli þessara ákvæða í gildandi l. og frv., sem verið er að fjalla um, vera þannig, að eðlilegast sé, að þetta verði athugað í einni heild.

Að öðru leyti vil ég taka fram, að ég tel brtt. þær, sem fluttar eru af fjhn., vera til bóta á frv. og mun fylgja þeim, ef málið kemur til atkv. hér í deildinni.