11.01.1952
Neðri deild: 56. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu vinsælt mál að koma upp vinnuhælum fyrir öryrkja og gamalmenni, enda virðist þetta frv. hafa mikið fylgi í báðum d. þingsins. — Mér finnst sjálfsagt, að ekki verði hjá því komizt að taka tillit til þeirra atriða, sem hv. þm. A-Sk. gat um í ræðu sinni, og má að vísu undarlegt teljast, að það skuli ekki hafa komið til athugunar, hvorki í Ed.Nd., þegar málið var í nefnd. En ég vildi þó sérstaklega í sambandi við þetta mál benda á, að þótt hér sé um nauðsynlegar og vinsælar stofnanir að ræða, þá er hér verið að ráðstafa, eins og hv. þm. A-Sk. gat um, föstum tekjulið ríkissjóðs, en mér finnst, að slík ráðstöfun á föstum tekjuliðum ríkissjóðs geti farið út í öfgar. Mætti t.d. hugsa sér, að lestagjald af skipum rynni til Slysavarnafélags Íslands, og það mætti kannske hugsa sér, að veitingaskatturinn ætti að renna til þess að byggja gistihús víðs vegar á landinu, sem er afar mikil nauðsyn. Það má því lengi um það deila, hvaða verkefni er nauðsynlegast að taka og koma í framkvæmd og nota til þess einn af . föstum tekjuliðum ríkissjóðs, því þótt hér sé um tvær tekjugreinar að ræða, annars vegar erfðafjárskatt og hins vegar fé, sem að erfðum fellur til ríkissjóðs, þá er þó meginhlutinn af þessu fé erfðafjárskatturinn, sem nú er áætlaður í fjárl. 300 þús. kr.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta hafi mikil áhrif á hv. þd., eins og málum er nú komið, en mér finnst ógerlegt að afgreiða svo frv., að ekki sé bent á þetta atriði, sem ég álít vera grundvallaratriði í sambandi við afgreiðslu slíks máls.