15.01.1952
Neðri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

121. mál, ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkisjóðs til vinnuheimila

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, út af því, sem fram hefur komið um þetta mál, að vekja athygli á því, að frsm. fjhn. hefur upplýst, að ekki liggi fyrir neinar óskir um slík hæli er ræðir um í frv. frá neinum aðilum. Ef svo er, hvaða nauðsyn ber þá til að taka fé úr ríkissjóði, þótt ekki sé nema um 300 þús. kr., og binda það í sjóði með þessu markmiði, fyrst engar óskir liggja fyrir um slíkan sjóð? Mér finnst, að Alþ. hafi hingað til haft nóg að gera með sína fjármuni og ástæðulaust sé að binda fé þannig í sjóðum, sem ekki er vitað til að neinum muni koma að notum. Af þessum ástæðum og öðrum, er komu skýrt fram hjá hv. þm. A-Sk., sé ég mér ekki fært að fylgja þessu frv.