01.11.1951
Efri deild: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

84. mál, happdrætti íþrótta- og ungmennafélaga

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er borið fram, er flutt að tilhlutan nokkurra áhugamanna í íþróttamálum hér í bænum, sem höfðu óskað eftir því að fá leyfi til að stofna til svokallaðs töluspjaldahappdrættis, sem hægt yrði að reka í sambandi við skemmtanir, kvikmyndasýningar og aðrar samkomur. Væri þá ekki ætlazt til, að til slíks happdrættis yrði efnt nema að fengnu leyfi forstöðumanns hlutaðeigandi samkomu. Mér sýndist svo, að í núgildandi l. væri ekki heimild til að veita leyfi til slíkrar starfsemi, en þar sem vitað er, að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin þarf á auknum tekjum að halda, ef hún á að geta innt af hendi þá félagsstarfsemi, sem æskilegt væri, vildi ég stuðla að því, að samtökum þessum yrði leyft að reyna þá tekjuöflunarleið, sem frv. fjallar um. Ég kann satt að segja ekki að gera nána grein fyrir því, hvernig þetta happdrætti er hugsað, en það mun tíðkast nokkuð í öðrum löndum og reynist þar allvel. — Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.