16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

28. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fram í hv. Nd. til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. gaf út 30. júní í sumar af þeim ástæðum, að fyrirsjáanlegt þótti, að stjórn skuldaskilasjóðs sjávarútvegsins mundi ekki hafa lokið úthlutun lána úr sjóðnum fyrir 1. júlí, eins og gert var ráð fyrir þegar lögin voru sett, en þau eru nr. 120 frá síðastliðnu ári. Þótti því nauðsynlegt að lengja starfstíma sjóðstjórnarinnar með brbl. frá því, sem hann hafði verið ákveðinn í lögum. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., eru ekki svo veigamiklar, að ég líti svo á, að ástæða sé til að taka þær sérstaklega til meðferðar.

Frv. var tekið fyrir á fundi í sjútvn., og voru þar mættir þrír af fimm nm. Þeir, sem mættir voru, voru því fylgjandi, að frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir. En með því að tvo nm., þá hv. 4. og 6. landsk. þm., vantaði á fundinn, þótti mér varlegra að orða það svo, að nál. væri frá meiri hl. sjútvn. Mér er þess vegna ekki kunn afstaða þessara tveggja hv. nm., en ef hún er eitthvað í misræmi við þær niðurstöður, sem þeir komust að, sem mættir voru, kemur það sjálfsagt fram í umr. í hv. deild. — Þeir, sem mættir voru í sjútvn., leggja til, að frv. sé samþ. óbreytt eins og þegar hefur verið gengið frá því.