14.01.1952
Neðri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

84. mál, happdrætti íþrótta- og ungmennafélaga

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég hef ekki mikið fylgzt með þessu máli, það er komið frá hv. Ed. og er nú komið hér til 2. umr. í þessari hv. d.

Ég skal strax taka það fram, að ég er hlynntur íþróttastarfseminni og þykir gott og heilbrigt, að hægt sé að veita einhverjar tekjur eða einhverja möguleika til tekjuöflunar handa henni. En þó er það alltaf svo, þegar farið er að ræða um þá hluti að velja einhver sérstök hlunnindi á þennan hátt, þá vakna upp svo margar spurningar og margar kröfur frá öðrum aðilum í sambandi við það, að oft verður erfitt að gera upp við sig, hverju skuli fylgja í því efni og hvað eigi að ganga fyrir. En ég nefni þetta út af því, að til ráðuneytisins hefur nú fyrir skömmu borizt erindi frá landlækni ásamt frv. til l. um íþróttagetraunir, sem er í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir til umr. Það, sem landlæknir leggur til í þessu sambandi, er, að nokkrum hluta af þeim tekjum, sem hlytust af happdrætti sams konar og gert er ráð fyrir á þskj. 538 eða eitthvað í þá átt, yrði skipt milli íþróttastarfseminnar í landinu og að öðru leyti til þess að styrkja sjúkrahús, sumpart til þess að styðja að því að koma upp sjúkrahúsum og sumpart til þess að styðja rekstur sjúkrahúsa. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kröfur til umbóta í þeim málum eru geysilega miklar, og við vitum, að það eru einnig réttlátar kröfur að því leyti, að það er fátt sem meira liggur við en að þau mál séu í lagi, og þó að það sé margt, sem að kallar í þessu sambandi, þá veit ég þó, að það eru afar miklir erfiðleikar á því að fá fé til þessara hluta, sem nauðsynlegt er. Ég hafði ætlazt til þess fyrir fáum dögum, að þetta frv. og erindi landlæknis bærist til þeirrar n. hér í hv. Nd., sem þetta frv. kom til, en af mistökum hafði frv. verið sent til heilbr.- og félmn. ásamt erindi landlæknis, sem ekki hafði málið með höndum, og hefur það því ekki komið til hv. allshn., sem hafði með höndum það frv., sem nú liggur hér fyrir til umr. Ég vildi því ekki láta hjá líða við þessa umr. fyrst og fremst að benda á þetta erindi, sem hefur verið sent heilbrmrn., og um leið láta þess getið, að heilbrmrn. hefur skrifað hv. allshn. bréf, þó að það af misgáningi hafi verið stílað til heilbr.- og Félmn., sem er á þessa leið:

„Hér með sendir ráðuneytið háttvirtri heilbr.- og félmn. Alþingis frv. til l. um íþróttagetraunir, er landlæknir hefur samið. Er þess óskað, að nefndin taki frv. þetta til athugunar í sambandi við frv. til l. um heimild til að leyfa héraðssamböndum íþrótta- og ungmennaféla,r,a að stofna til sérstakrar tegundar happdrættis, en þetta frv. mun nú liggja hjá nefndinni. Ráðherra heilbrigðismála mun síðar ræða við nefndina um mál þetta.“

Ég vildi leyfa mér að óska eftir því, að þessari 2. umr. yrði frestað. þannig að allshn. gæti kynnt mér þau nýju plögg, sem nú liggja fyrir um þetta mál, áður en það er afgreitt. Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekkert, hvað í þessari heimild felst, sem hér er gefin með því frv., sem nú liggur fyrir. Það hefur ekki legið fyrir opinberlega hér í þinginu, hvað gert væri ráð fyrir, að þetta gæfi gefið í tekjur. Þess vegna virðist mér ekki óeðlilegt, að þetta mál verði athugað betur, áður en það yrði að fullu afgr., a.m.k. vildi ég óska eftir því, að n., sem fékk málið til meðferðar, gæti getið upplýsingar um það, hvað áætlaðar tekjur af þessu yrðu miklar, o.s.frv., vegna þess að það veltur mikið á því. hvaða afstaða verður tekin til málsins að öðru leyti. En það, sem ég vildi segja hér, er ekki að mæla á móti málinu, heldur að koma á framfæri því erindi, sem kom frá landlækni. um það, að teknar yrðu til athugunar í sambandi við þetta þær till., sem hann ber fram um, að einhverju af ágóðanum, sem af þessu yrði, yrði varið til þess að efla sjúkrahús og rekstur þeirra. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að segja fleira að svo stöddu.