17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem ég vildi leyfa mér að vekja athygli á og leyfa mér að bera fram fyrirspurn um til hæstv. fjmrh.

Það stendur í 1. gr., að ríkisstj. sé heimilt að lána fé úr mótvirðissjóði til Sogs- og Laxárvirkjananna og Áburðarverksmiðjunnar h/f. Ég hef áður gert athugasemd við þetta atriði í byrjun þessa þings. Ég benti á það þá, að það væri að mínu áliti mjög varhugavert að slá því föstu í þessum lögum um heimild til handa ríkisstj., á hvern hátt eignaryfirráðin yfir áburðarverksmiðjunni skyldu vera. Áburðarverksmiðjan h/f er ekki til í lögum um áburðarverksmiðju. Það er ekki til fyrirtæki með því nafni í þeim lögum, það er ekki nefnt á nafn á neinum stað, og hingað til hefur yfirleitt ekki verið gengið frá stofnun hlutafélaga með lagasetningu. Og ég vil í þessu sambandi minna hv. þm. á það, sem segir um þessa stofnun í þeim lögum, sem um hana fjalla, þ.e. í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“ — Og það hefur engin heimild verið veitt til þess að breyta þessari 3. gr.

Til er í 13. gr. ákvæði, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt þrátt fyrir ákvæði 2. gr. að leita eftir þátttöku félaga og einstaklinga um hlutafjárframlög til stofnunar áburðarverksmiðjunnar og leggja fram til hennar hlutafé úr rekstrarsjóði áburðarsölu ríkisins allt að einni milljón króna. Ef slík framlög nema minnst 4 milljónum króna, leggur ríkissjóður fram hlutafé, sem þá vantar til, að hlutaféð verði alls 10 millj. kr., og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“

Þetta virðist vera ótvírætt, og þegar rætt var um þetta atriði í fjhn., þá virtist flestum fjhn.-mönnum það vera ótvírætt, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins, en hins vegar væri rekstrarfélagið hlutafélag. (Viðskmrh.: Hlutafélög eru rekin eftir hlutafélagalögum.) En eftir þessum lögum á þetta hlutafélag aðeins að hafa með höndum rekstur stofnunarinnar, en það er ekki einn stafur um það, að það sé eigandi hennar. Það segir ótvírætt í 3. gr.:

„Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess af Alþingi.“ (Einhver: Ríkið á meiri hlutann af hlutafénu.)

Ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir menn að gera sér það ljóst, að hér er ekki til þess ætlazt, að þessi verksmiðja verði hlutafélag. Það segir í 2. gr., að ríkisstj. sé heimilt að láta reisa og reka verksmiðju til þess að framleiða þær tegundir áburðar, sem eru síðan þar upp taldar. 13. gr. tekur það hins vegar fram, að það sé leyfilegt að leita eftir fé til þess að stofna hlutafélag til að sjá um rekstar hennar, og þar er ekkert tekið fram um þau ákvæði 3. gr., að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun. Hins vegar verðum við að ganga úr skugga um það, hvernig þessu er nú háttað. Það er prinsip-atriði, sem hér er um að ræða af hálfu ríkisins.

Þetta er stofnun með 10 millj. kr. hlutafé. Af þessum 10 millj. leggur ríkið fram 6 millj. Það er gert ráð fyrir því, að þessi verksmiðja muni kosta um 108 millj. Ef það er rétt, að þessi verksmiðja sé eign hlutafélags, þá verður það þannig, að ef hún borgar sig vel, þá verður hægt að greiða ríkinu aftur það fé, sem það hefur látið til hennar fara, og síðan hirða hluthafarnir þann arð, sem af rekstri verksmiðjunnar kann að verða. Það þýðir, að þeir, sem þessar 10 millj. kr. eiga, eru þá búnir að eignast þessar 98 millj., sem það kostaði ríkið að koma henni upp, og hirða eftirleiðis þann gróða, sem af henni kann að verða. Nú skulum við gera ráð fyrir því, að þessi verksmiðja sé eign þessa hlutafélags, en sem stendur lítur út fyrir, að meiri hluti hlutafjárins verði eign ríkisins. Nú þarf ekki nema meiri hluta Alþingis til að samþykkja að selja þessu hlutafélagi hluta ríkisins af bréfunum. (Viðskmrh.: Hver tapar, ef tap verður?) ríkið. Ef hæstv. viðskmrh. er ekki svo mikill fjármálaspekingur, að hann sjái, að það getur verið gott að láta gefa sér 98 millj., þá verð ég að segja, að hann er minni spekúlant en ég hef haldið hingað til.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.. hvort það sé þannig háttað með það fé, sem verður veitt til þessarar verksmiðju, að það sé gengisklásúla á því. Ég meina, að ef áburðarverksmiðjan verður hlutafélag og gengið verður fellt á nýjan leik, eins og hv. stjórnarflokkar stefna beinlínis að, á þá að gefa áburðarverksmiðjunni eftir þau lán, sem nú er verið að veita henni? Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi gert sér það ljóst, hvað í þessu er fólgið, og mér þætti vænt um, ef hann gæti upplýst þingmenn um það, hvort gengisklásúla er á þessum lánum.

Það er rétt fyrir hv. þm. að gera sér það ljóst, hvað hér er á ferðinni. Það, sem hér er verið að gera, er hvorki meira né minna en það, að það er verið að gera samsæri um að ná eignum undan ríkinu og gefa vissum aðilum verksmiðjuna gegn því, að þeir leggi til 4 millj. í fyrirtæki, sem í grg. frv. er gert ráð fyrir að muni kosta 108 millj.

Ég vil vekja athygli á því, hvernig farið var að því að ná þessari eign úr höndum ríkisins. Áburðarverksmiðjufrv. var alltaf lagt fyrir Alþingi sem lög um áburðarverksmiðju, sem skyldi vera eign þess. Og það frv., sem síðar varð lög nr. 40 23. maí 1949, var lagt fram sem frv. til laga um áburðarverksmiðju ríkisins og var samþ. sem slíkt við 1. og 2. umr. Síðan er við 3. umr. af núverandi viðskmrh., sem þá hafði áður haft samband við núverandi formann verksmiðjustjórnar, komið fram með brtt., sem nú er 13. gr. laganna. Þetta er gert við síðustu umr. í Nd. Þá er ekki lengur hægt að vísa málinu til nefndar, og þetta er barið í gegn við þá einu umr., sem eftir var. Og þær greinar, sem þessi 13. gr. stangast bókstaflega á við, fást ekki einu sinni lagfærðar, þannig að nú stangast 13, gr. á við 3. gr., þó að hún ætti að koma í veg fyrir ákvæði 2. gr., en það var bara ekki nóg. Þessum ákvæðum um hlutafélag var smeygt inn í frv. á síðustu dögum þingsins sem brtt. við 3. umr., og þannig var ríkið svipt eignum sínum á síðustu og mestu annadögum þingsins.

Ég hef tvisvar áður vakið máls á þessu með eignarréttinn og vil nú leyfa mér að biðja fjmrh. að gefa skýlausa yfirlýsingu um það, hverjum hann tilheyrir. (Fjmrh.: Hvað oft þarf ég að gera það, til þess að hv. þm. skilji?) Ég held, að þær yfirlýsingar ráðherrans hafi ekki nægt til þess að breyta lögunum. Og ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að sýna sig í því að reyna að koma eitthvað við lögin.

Nú er eftir þessu frv. litið svo á, að það sé búið að selja þetta fyrirtæki í hendur Áburðarverksmiðjunni h/f, og nú eiga þm. að leggja blessun sína yfir það að lána þessu hlutafélagi svo og svo mikið að eignum ríkisins, til þess að það síðan geti eignazt þær að fullu. Ég álít, að þessi aðferð sé óverjandi, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið. Og mér þykir það hart, ef það eru engir aðrir þm., sem líta svo á, að það sé hart að gera slíkar ráðstafanir í nafni þingsins. Ég er sannfærður um, að eigendur hlutabréfanna hafa lagt fram hlutafé sitt í þeirri góðu trú, að þeir væru að eignast verksmiðjuna. Ég vil fá úr þessu skorið. Ég álít, að ríkið eigi að kaupa öll hlutabréfin í verksmiðjunni, og ég vil vekja athygli á því, að ef eigendum hlutabréfanna finnst ástæða til, þá geta þeir skotið þessu til dómstólanna, og þótt þeir yrðu ekki dæmdir eigendur verksmiðjunnar, þá ættu þeir mjög miklar skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði, þar sem þeir lögðu fé sitt fram í góðri trú.

Svo vil ég einnig taka það fram, að ég álít. að rekstrarfyrirkomulag verksmiðjunnar sé ekki sem heppilegast. Svo virðist sem einn aðilinn í verksmiðjustjórninni ráði þar öllu og geri meira að segja ráðstafanir í trássi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Nú er risinn upp ágreiningur um staðarval verksmiðjunnar og áburðarefni það, sem hún á að framleiða, vegna þess að af því getur stafað sprengihætta. Ásgeir Þorsteinsson verkfræðingur hefur ritað um þetta mjög athyglisverða grein, þar sem hann færir sönnur á það, að áburðartegund sú, sem verksmiðjunni er ætlað að framleiða, sé stórhættulegt sprengiefni. Ég er ekki kunnugur því, hvaða áburðartegund hentar bezt íslenzkum landbúnaði, en mér er nær að halda, að er ákveðið var að framleiða þessa tegund áburðar, hafi önnur sjónarmið ráðið meiru en hagsmunir íslenzks landbúnaðar. Við þetta bætist svo, að þegar verksmiðjunni hafði verið valinn staður á Hvaleyri við Hafnarfjörð, komu þangað liðsforingjar úr ameríska hernum til þess að rannsaka staðhætti, og var þá hætt við að reisa hana þar. Svo sýnir það sig, þegar öll kurl koma til grafar, að þeir menn hér á landi, sem standa í nánustu sambandi við amerísku auðhringana, ráða mestu í stjórn verksmiðjunnar. Það eru gerðar ráðstafanir til þess að afla véla í verksmiðjuna, sem framleiða ekki fyrst og fremst áburð, heldur stórhættulegt sprengiefni. Því er lýst yfir af ríkisstj., að verksmiðjan skuli skoðast sem einkaeign þessa hlutafélags. Þetta allt gefur til kynna, að það er verið að taka yfirráðaréttinn yfir verksmiðjunni af Alþingi, til þess ekki fyrst og fremst að framleiða áburð handa íslenzkum landbúnaði, heldur aðallega sprengiefni í þágu Bandaríkjaauðvaldsins. Það er því bezt fyrir hæstv. fjmrh. að hafa sig alveg hægan í þessu máli, því al það er ekki svo þokkalegt samsæri, sem hér er verið að gera. (Fjmrh.: Veit ekki hv. þm., að þessi áburður hefur verið notaður hér undanfarið og reynzt vel?) Ég skal viðurkenna, að ég er því ekki kunnugur, hvaða áhurðartegundir reynast hér bezt, en hins vegar hef ég hér fyrir framan mig skýrslu þeirra manna, sem bezta þekkingu hafa á þessu máli, og sýnir hún vel, að ég fer hér ekki með neitt fleipur.

Ég mun síðar leggja fram brtt. um lækkun á vöxtum af lánunum úr 51/2% í 4%.

Ég mun nú láta útrætt um þetta mál að sinni, en vildi gjarnan fá upplýsingar um það frá hæstv. fjmrh., hvort um nokkra gengisklásúlu sé að ræða á lánunum úr mótvirðissjóði.