17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. — Hann talaði um hina fyrirhuguðu áburðarverksmiðju á alleinkennilegan hátt. Var svo á honum að skilja, að henni væri ætlað að framleiða eina áburðartegund, sem væri alger nýjung og jafnframt stórhættulegt sprengiefni, en þegar ég skaut því að honum, að þessi áburðar hefði verið notaður hér á landi undanfarin ár með góðum árangri, sagðist hann ekki vera því kunnugur, hvaða tegund hentaði bezt íslenzkum landbúnaði. Ég held því, að það hefði verið bezt fyrir hv. þm. að kynna sér betur, hvaða áburðartegund hér er um að ræða. Sams konar áburður hefur verið notaður hér á landi síðastliðin 10 ár. Gengur hann almennt undir nafninu „sprengipétur“. Hefur bændum líkað afburða vel við hann, og er hann nú langsamlega mest eftirsóttur af öllum þeim áburðartegundum, sem hér hafa verið reyndar.

Viðvíkjandi aðalefninu í ræðu hv. þm. vil ég benda honum á, að í l. um áburðarverksmiðju er gert ráð fyrir því, að hún geti verið bæði sjálfseignarstofnun og einnig hlutafélag, sbr. 13. gr. laganna, og ef helmild þeirrar gr. er notuð, þá fellur 2. gr. um sjálfa sig, enda er í 13. gr. ákvæði um, hvernig þessum málum skuli háttað, ef heimild þeirrar gr. er notuð. Það hlýtur því hver maður að sjá, að verksmiðjan verður annaðhvort rekin sem hlutafélag eða sem sjálfseignarstofnun. Hitt er svo annað mál, að það getur orkað tvímælis, hvort heppilegra hefði verið, að ríkið ætti verksmiðjuna eitt eða þá í félagi við aðra aðila. En ég held, að ríkisstj. hafi hér farið rétt að, þegar þess er gætt, að hún hefur algeran meiri hl. í stjórn verksmiðjunnar og hefur þar af leiðandi úrslitavald um rekstur hennar.

Það er rétt að henda á þá fjarstæðu, sem fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann hélt því fram, að ríkið ætlaði að geta hlutafélaginu verksmiðjuna. þetta er alger fjarstæða. Félagið verður að standa skil á öllum þeim peningum, er ríkið lánar til framkvæmdanna. Það tekur á sig alla áhættuna við stofnun og rekstur verksmiðjunnar, og ég vil halda því fram, að þeir einstaklingar og félög, sem fé hafa lagt fram til áburðarverksmiðjunnar, hafi sýnt lofsverðan þegnskap.

það er óþarft að taka það fram, að engin gengisklásúla er á láninu úr mótvirðissjóði frekar en á öðru því, sem ríkið lánar hér innanlands.

Það má bezt sjá samræmið á málflutningi þessa hv. þm. (EOl) í sambandi við þetta mál, þegar hann í öðru orðinu talar um þau geysilegu hlunnindi, sem félagið hafi orðið aðnjótandi í sambandi við lánsfé, en í hinu orðinu heldur hann því fram, að lánskjörin séu allt of þungbær, og boðar, að hann muni flytja brtt. um að lækka vextina af lánunum.