17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í þessu máli, en vegna þeirra umræðna, sem hér hafa orðið um sprengihættu ammoniumnitrats, þá tel ég rétt að láta sannleikann koma í ljós og lesa hér upp bréf frá tveimur sérfræðingum í þessum efnum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur verið að tala um sprengihættu þá, sem stafaði af ammoniumnitrat-áburði, og vil ég nota tækifærið og mótmæla því. Hv. þm. vitnaði í Ásgeir Þorsteinsson verkfræðing, og mátti skilja, að Ásgeir teldi hættu geta stafað af framleiðslu ammoniumnitrats, en vitnisburður hans hljóðar á annan veg. Sú gagnrýni, sem hér kemur fram, er því tilefnislaus. Hitt er svo annað mál, að Ásgeir hefur talið heppilegra að framleiða annan áburð, en ekki vegna þess, að nein hætta geti stafað af framleiðslu þessa áburðar. Ég fyrir mitt leyti vil ekki gera lítið úr áliti Ásgeirs Þorsteinssonar, en ég vil þó heldur, að reynslan tali sínu máli um, hvað heppilegt sé, og þessi áburður hefur reynzt mjög vel. Ég hef haft þá atvinnu undanfarin ár að dreifa áburði út á meðal bænda, og ég veit því vel, hvaða áburð þeir kjósa, og það er sú tegund, sem ákveðið er að framleiða hér, ammoniumnitrat. Við höfum flutt þennan áburð til landsins síðastliðin 8–31) ár. Við höfum flutt hann með skipum okkar án sérstakra varúðarráðstafana og aldrei hlotizt slys af. Þessi áburður er 33–34% og er því sterkur áburður, kalksaltpétur er 15.5% og kalkammoniak 15.2%. Bændur hafa kosið þennan áburð fram yfir aðrar tegundir. Hitt er svo annað mál, að það er hægt að bera einhliða áburð á í 3–4 ár, áður en jörðin tæmist. Þess vegna er meiningin að framleiða ekki eingöngu þennan áburð, og er það því blekking hjá hv. 5. landsk., því að í l. um áburðarverksmiðju er gefin heimild til að framleiða ammoniumnitrat og ammoniumfosfat.

Svo skal ég víkja aftur að bréfi Ásgeirs Þorsteinssonar, dags. 19. des., til borgarstjóra Reykjavíkur. Þar segir:

„Mér hefur skilizt, að bréf mitt til yðar, dags. 28. nóv. s.l., um sprengihættu af ammoniumnitrati, hafi verið skilið á fleiri en einn veg, og vil því leyfa mér að gefa eftirfarandi skýringar með tilvísun til bréfsins.

Á bls. 2 segir, að sprengihætta sé útilokuð eftir amerískum framleiðsluaðferðum, en þær aðferðir verði notaðar í verksmiðjunni hér. Síðan segi ég og undirstrika, að aðalviðfangsefni málsins megi einskorða við geymsluhættuna. Ég tel því jafnóhætt að framleiða ammoniumnitrat í verksmiðjunni á ófriðartímum sem öðrum tímum.

Ég tel einna minnsta hættu stafa af geymslu ammoniumnitratsins af öllum efnum áburðaverksmiðjunnar undir venjulegum kringumstæðum, að bruna og gassprengingum meðtöldum, sbr. bréfið. Er því heldur engin sérstök geymsluhætta í verksmiðjunni á friðartímum.

Samkv. bréfinu tel ég áhættuna því einskorðast við þá einstæðu og óvenjulegu hættu: Hvað skeður, ef sprengja, t.d. úr flugvél, fellur á eða fer inn í ammoniumnitrat-stabba og springur þar? Þessu treystist ég ekki til að svara.

Það getur því verið um sprengihættu að ræða í áburðargeymslu á stríðstímum.

Sem verksmiðjustæði í Reykjavík hef ég aðhyllzt Laugarnes, Kleppsvík og Ártúnshöfða, og geta þeir að mínum dómi allir komið til greina fyrir áburðarverksmiðju, sem framleiðir ammoniumnitrat, og á hvaða tíma sem er. Vil ég leyfa mér að skora á hv. bæjarráð að bjóða fram einhvern þessara staða undir áburðarverksmiðjuna.

Ef sérstök áhætta yrði talin færast yfir og stofna verksmiðjunni í voða, er hægt að taka burt allan áburðinn, jafnóðum og framleitt væri, t.d. með prömmum, sbr. bréfið, eða með því að hafa skemmur til vara á afskekktum stöðum, sem daglega yrði flutt í úr verksmiðjunni.

Um blandaðan áburð vil ég segja þetta til að fyrirbyggja misskilning:

hað hefur aldrei hvarflað að mér, að framleiða bæri blandaðan áburð vegna sprengihættu ammoniumnitrats, heldur vegna þess, að ég tel blandaðan áburð hagkvæmari áburðartegund.

En mér fannst sjálfsagt að benda á þá kosti blandaðs áburðar einmitt í sambandi við þetta mál, að hans vegna þyrfti ekki að mínum dómi að hafa neinar áhyggjur af sprengihættu, ekki einu sinni á stríðstímum.“

Það, sem Ásgeir Þorsteinsson segir um, að hann telji, að framleiðslu ammoniumnitrats geti einnig verið haldið áfram á stríðstímum, ætti að geta friðað 2. þm. Reykv.

Jóhannes Bjarnason verkfræðingur hefur verið í Ameríku á vegum áburðarverksmiðjunnar. Hann hefur ferðazt á milli áburðarverksmiðja og kynnt sér starfsháttu og framkvæmdir þar. Hann hefur gefið skýrslu um framleiðsluháttu í verksmiðjum þeim, er hann kynnti sér. Ég er með skýrslu þá í höndum og tel rétt, að hún komi fram. Það eru upplýsingar frá Jóhannesi Bjarnasyni verkfræðingi um áburðarverksmiðju, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur verið mælzt til þess, að ég svaraði eftirfarandi spurningum viðvíkjandi áburðarverksmiðju þeirri, sem hér á að reisa.

Svör þessi eru byggð á reynslu þeirri, er ég fékk, er ég dvaldi í Bandaríkjunum og Kanada á vegum áburðarverksmiðjustjórnarinnar til þess að læra rekstur áburðarverksmiðju og áburðarframleiðslu. Vann ég þá í sams konar verksmiðjum öll þau störf, sem þar eru unnin, og kynntist öllum framleiðsluháttum.

Áður vann ég að undirbúningi áburðarverksmiðjumálsins á vegum ríkisstj. og hafði þá tækifæri til þess að skoða sams konar verksmiðjur í ýmsum löndum Evrópu.

1. Hversu margar verksmiðjur eru til sömu tegundar í Bandaríkjunum og Kanada?

Svar: Þær verksmiðjur, sem mér er kunnugt um sömu tegundar í Bandaríkjunum og Kanada, skipta tugum.

2. Hversu margar í Evrópu?

Svar: Sams konar verksmiðjur í Evrópu eru allmargar. Í Evrópu hefur ammoniumnitrat víðast verið framleitt til áburðarnotkunar mun lengur en í Ameríku, og hefur áburðurinn gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem leuna-saltpétur, cal-nitro, nitro-kalk og kalkammonáburður. Að vísu hefur ammoniumnitratið þá að jafnaði verið blandað kalki eða ammoniumsulfati og stundum öðrum áburðartegundum, og var það meðal annars gert vegna þess, að til skamms tíma þekktust ekki aðrar öruggar aðferðir til þess að koma í veg fyrir, að áburðurinn drægi í sig raka úr loftinu og klesstist, og einnig til þess að draga úr sprengihættu. Nú eru hins vegar líka til í Evrópu verksmiðjur, sem framleiða ammoniumnitrat, sem er notað óblandað til áburðar. Þess skal getið, að hvort sem ammoniumnitratið er notað blandað eða óblandað til áburðar, þá er framleiðsluaðferðin og verksmiðjan að mestu sú sama. Kalkinu eða öðrum áburði er venjulega blandað í annarri verksmiðjudeild, eftir að ammoniumnitratið hefur verið framleitt óblandað. Þó eru til undantekningar frá því.

3. Hverjar eru helztu varúðarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir sprengibættu?

Svar: Hugsanleg sprengihætta í ammoniumnitratinn er aðeins fyrir hendi í þessari verksmiðju á síðasta framleiðslustiginu og í áburðargeymslunni. Þess vegna er það venja að hafa byggingu þá, er síðasta framleiðslustigið fer fram i, ásamt áburðargeymslunni um 50–100 metra frá hinum byggingum verksmiðjunnar.

Til skamms tíma var síðasta framleiðslustigið talið hættulegt, vegna þess að þá var ammoniumnitratið hitað upp í hátt hitastig á pönnum til þess að ná úr því vatni og raka. Í nýjustu verksmiðjum er þessi aðferð ekki lengur notuð, heldur er ammoniumnitratið krystallað í loftþynningarkötlum (vacuum kötlum) við lágt hitastig og með því móti komizt hjá eld- eða sprengihættu á því stigi.

Í þessari deild eru reykingar algerlega bannaðar og öll meðferð elds. Vörður er venjulega hafður við þessa byggingu, sem tekur vindlinga og eldfæri af öllum, sem inn í bygginguna fara. Í þessari deild eru því helztu varúðarráðstafanirnar einnig að forðast eld og svo líka að stafla ekki áburðarpokunum í mjög mörg lög, svo að ekki verði of mikill þungi á neðstu pokunum.

Þá má einnig benda á, að til skamms tíma var ammoniumnitrat-áburðurinn húðaður með parafini eða vaxi til þess að koma í veg fyrir, að áburðurinn drægi í sig raka úr loftinu. En til frekara öryggis er þessu nú hætt, vegna þess að vaxíð er eldfimt, og er nú áburðurinn duftaður með leir. Þá er og áburðurinn strax settur í 50—100 kg rakaþétta poka, um leið og hann kemur úr vélunum, og er því aldrei neinn laus áburður í verksmiðjunni, og er talið mikið öryggi að því.

Forðazt er að láta ammoniumnitrat-áburð komast í samband við lífræn (organísk) efni í geymslum eða flutningi, því að slík efni eru talin auka sprengihættuna.

4. a) Hversu langt frá íbúðarhverfum eru slíkar verksmiðjur reistar? b) Eru áburðargeymslurnar byggðar langt frá verksmiðjunum?

Svar: a) Verksmiðjur þessar eru að jafnaði byggðar í verksmiðjuhverfum eða í útjöðrum bæja, en í sumum tilfellum eru þær byggðar inni í bæjum, mjög skammt frá íbúðarhverfum, ekki meira en 100–150 metra. Þó er nú talið æskilegt, að verksmiðjurnar séu ekki reistar nær íbúðarhverfum en í um 500 metra fjarlægð. — b) Áburðargeymslurnar eru að jafnaði byggðar skammt frá verksmiðjunni, í 50-100 metra fjarlægð frá öðrum byggingum verksmiðjunnar.

Þess skal getið, að yfir 10 verkfræðifyrirtæki, bæði í Evrópu og Ameríku, gerðu áætlanir um áburðarverksmiðju þessa, sem hér á að byggja, og öll gerðu þau ráð fyrir, að áburðargeymslan væri á sömu lóð og verksmiðjan og ekki fjær en 50–100 metra frá hinum verksmiðjubyggingunum.

Sums staðar erlendis eru engar áburðargeymslur við verksmiðjurnar, en öll framleiðslan seld jafnóðum og flutt í burtu.

5. Hversu oft hafa sprengingar átt sér stað: 1) Áður en breytt var um framleiðsluaðferð?

2) Eftir að nýja aðferðin var upp tekin?

Til þess að sprenging geti átt sér stað í ammoniumnitrati, er talið, að hún þurfi að vera frá utanaðkomandi áhrifum. Þó hefur tekizt að sprengja ammoniumnitrat eitt sér með því að hita það í lokuðu rúmi, þannig að mikill þrýstingur myndist samfara háu hitastigi. Ammoniumnitrat er notað til sprengjuframleiðslu þannig, að því er blandað saman við sprengiefnið TNT, og eykur ammoniumnitratið þá eða nærir sprenginguna. En eitt sér er ammoniumnitratið talið alveg hættulaust undir venjulegum kringumstæðum.

Á meðan gamla framleiðsluaðferðin var viðhöfð, kom stundum fyrir, að eldur kom upp á síðasta framleiðslustiginu, og var þá sprengihætta undir vissum kringumstæðum fyrir henni og komu sprengingar fyrir. En síðan nýja aðferðin var upp tekin er sprengihættan alveg úr sögunni í verksmiðjunni, því að þar er áburðurinn framleiddur við lágt hitastig, og mér er ekki kunnugt um sprengingar, þar sem nýja aðferðin er viðhöfð. Er það því eingöngu í áburðargeymslunni, sem hugsanlegt er að sprenging orðið í ammoniumnitratinu.

Sprengingar hafa átt sér stað í ammoniumnitrat-birgðum, og eru það einkum tvær sprengingar, sem eru þekktastar og stærstar.

Sú fyrri varð í Oppau í Þýzkalandi 1921. Miklu af þessum áburði var hrúgað í bing, og rann hann þar saman í samfelldan hól. Svo þegar átti að fara að nota áburðinn, þurfti að mola hann niður. Til þess að ná honum í sundur voru sett í hann fjöldamörg dynamit-skot, og við það sprakk áburðarhóllinn í loft upp og gerði mikið tjón.

Hin sprengingin varð í Bandaríkjunum (Texas City) 1947, er tvö skip með ammonium-áburðarfarmi sprungu þar í loft upp í höfninni. Eldur kom upp í öðru, og er ekki með vissu vitað af hvaða ástæðum. Sprakk fyrra skipið tæpum klukkutíma eftir að vart varð við eldinn. Eldurinn komst í skip með brennisteinsfarmi, sem lá þar hjá. Gekk illa að slökkva þann eld, og um 16 tímum eftir að fyrri sprengingin varð sprakk hitt áburðarskipið. Geysimikið tjón hlauzt af þessum sprengingum.

6. Hvaða varúðarráðstafanir eru hafðar í höfnum í sambandi við umskipun áburðarins? Hafnir í Bandaríkjunum og Kanada og að minnsta kosti sumar hafnir í Evrópu hafa sett reglur til öryggisráðstafana, þegar um flutning ammoniumnitrats er að ræða. Mismunandi ráðstafanir gilda í hinum ýmsu löndum. Í aðalatriðum eru reglur þessar, að leyfi hafnaryfirvalda þarf í hvert skipti, sem áburð á að flytja um höfnina. Þá eru og reglugerðir um það, að hreinsa verður vel lestir skipa, sem flytja eiga áburðinn, þannig að sem minnst sé þar af lífrænum efnum eða óhreinindum, sem aukið gætu á sprengihættuna. Ef pokar rifna, má eigi moka áburðinum aftur í pokana, því að hætt er við, að óhreinindi geti þá slæðzt með.

Að lokum skal þess getið, að engin köfnunarefnisáburðartegund hefur rutt sér eins til rúms á síðustu árum og ammoniumnitrat. Af þeim köfnunarefnisverksmiðjum, sem byggðar hafa verið á síðustu 10 árum í Bandaríkjunum, framleiða fleiri ammoniumnitrat en nokkra aðra tegund. Stafar þetta meðal annars af því, hve tekizt hefur að gera ammoniumnitrat-áburðinn hættulítinn í framleiðslu, auk margra annarra mikilvægra kosta hans, svo sem hins háa köfnunarefnisinnihalds hans. Hef ég hvergi orðið var við, að hætta væri talin stafa af framleiðslu áburðar þessa meðal þeirra manna, sem mesta reynslu hafa og bezt þekkja til framleiðslu hans, ef sjálfsagðra varúðarráðstafana er gætt við framleiðslu hans.

Aths.: Frásögnin af sprengingunni í Texas City og um varúðarráðstafanir í höfnum hefur verið endurskoðuð frá því, er ég fyrst samdi greinargerð þessa, í samræmi við það, að fullkomnari upplýsingar liggja nú fyrir um þessi atriði. Var frásögnin af sprengingunni byggð á upplýsingum frá C.O. Brown og frásögnin um varúðarráðstafanir í höfnum byggð á upplýsingum frá Eimskipafélagi Íslands. Fyllri upp1ýsingar liggja nú fyrir um sprenginguna í skýrslum vátryggingarfélaga og einnig reglugerðir um varúðarráðstafanir í höfnum í U. S. A., Kanada og Osló, og hafa frásagnir af þessum atriðum verið endurskoðaðar í samræmi við þessar nýju upplýsingar.

Reykjavík, 28. des. 1951.

Virðingarfyllst,,

Jóhannes Bjarnason.“

Þannig hljóðar þá skýrsla Jóhannesar Bjarnasonar, en hann hefur ferðazt um Bandaríkin og kynnt sér ýtarlega starfrækslu áburðarverksmiðja, sem eru sams konar og hér er gert ráð fyrir að reisa. Ásgeir Þorsteinsson hefur einnig kynnt sér áburðarframleiðslu mjög ýtarlega. Vitnisburður þessara tveggja manna ætti því að nægja til þess, að menn gætu sofið rólegir, þótt verksmiðjan verði reist á Ártúnshöfða við Reykjavík. Áburðarverksmiðjan er svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðina, að mikið er í veði, að verið sé á verði gagnvart blekkingamoldviðri kommúnista.