17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál, en ég vil fara nokkrum orðum um eignarheimildina fyrir áburðarverksmiðjunni. Lagalega er skilningur hæstv. fjmrh. réttur. Á 13. gr. laganna er að vísu sá galli, að hún vísar ekki í fleiri greinar. Það er þó tvímælalaust, að hlutafélagið eigi verksmiðjuna og sé ekki einungis rekstraraðili. Lögin kveða þannig á um það, að um það er ekki þörf að deila. Annað mál er svo það, hvort þessi skipan málanna sé rétt, og úr því að þetta mál hefur nú borið á góma, tel ég rétt að fara um það nokkrum orðum.

Það hefur verið afar hljótt um stofnun þessa fyrirtækis, og tel ég af þeim sökum eðlilegt, að gefnar væru frekari upplýsingar varðandi ýmis atriði í undirbúningi þess. Hverjir eru hluthafar í áburðarverksmiðjunni fyrir utan ríkissjóð, Samband ísl. samvinnufélaga og Reykjavíkurbæ? Ekkert er vitað um aðra hluthafa í verksmiðjunni, og væri mér því forvitni á að fá eitthvað að vita um þetta. Það skiptir miklu máli, að upplýsingar fáist um þetta, þar sem vitað er um, að hlutabréf í áburðarverksmiðjunni munu margfaldast í verði á fáum árum. Þetta liggur mjög ljóst fyrir. Segjum, að fjármagnið sé 100 millj. kr., sem er varlega áætlað, og það skili 10% arði, sem gerir 10 millj. kr., vextir séu greiddir 51/2 %, og verða það 51/2 millj. kr. Eftir eru því 41/2 millj., sem þýðir, að ágóði af hlutafénu er 4.5 millj. kr. Á þessu má sjá það mjög greinilega, að hlutabréfin munu fljótlega hækka mjög í verði. Nú er það svo, að ríkissjóður mun eiga meiri hluta hlutabréfanna, og mætti ef til vill segja, að ekki felist í þessu nein bein hætta. Hins vegar er það ljóst, að hér verður um mikið gróðafyrirtæki að ræða, sem mun vaxa og stækka, og getur þá skipt miklu máli, í hvers vasa ágóðinn rennur. Ef arðgreiðslur verða takmarkaðar, þá leiðir það af sjálfu sér, að verðmæti bréfanna eykst enn hraðar en ella. Væri því ekki óeðlilegt, að settar væru hömlur á sölu hlutabréfanna með löggjöf. Nú væri fróðlegt að fá í þessu sambandi upplýst, hvað hlutir einstaklinga í hlutafélaginu nema miklu, og í öðru lagi, hvort þessir aðilar geti selt hluti sína hverjum sem er eða ríkisvaldið hafi forkaupsrétt að þeim bréfum, sem þeir vilja selja. Mér er þetta ekki ljóst sökum þess, hversu hljótt hefur verið um málið. Það getur skipt miklu fyrir lítið þjóðfélag, hvar hlutirnir liggja í svo stóru fyrirtæki sem hér er um að ræða. Þar sem ríkið leggur fram meginið af stofnfé verksmiðjunnar, á hlutur þjóðarinnar að vera tryggður. Sama gildir um hlut Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Ég tel ekki eftir, þótt verðmæti bréfa þess fyrirtækis hækki og verði meira virði en greitt hefur verið fyrir þau, því að það fyrirtæki er þó eign almennings í landinu. Sama er að segja um bréf bæjarstjórnar Reykjavíkur, en hið sama verður ekki sagt um bréf, sem keypt hafa verið af einstaklingum. Það er óeðlilegt, að þeir geti selt hluti sína hverjum sem vera vill, og af þeim sökum vildi ég fá þetta upplýst.