17.01.1952
Neðri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú alveg sérstaklega að ræða við hæstv. forsrh., en ég sé, að hann hefur brugðið sér út úr salnum. Ræða hans áðan bar vott um það, að „sannleikanum verður hver sárreiðastur“. Það er rangt, sem hæstv. forsrh. sagði, að heppilegra væri að framleiða þessa áburðartegund en allar aðrar, sem til greina kæmu. Það vill nú svo til, að ég hef farið í gegnum bók, sem Rauðka var nefnd og var samin af Skipulagsnefnd atvinnumúla. í þessari n. átti hæstv. forsrh. sæti á sínum tíma, en n. fjallaði þá og gerði m.a. tillögur um byggingu og rekstur áburðarverksmiðju. En hver var nú niðurstaða þessarar nefndar? Hver var skoðun hæstv. forsrh. þá á því, hvaða áburðartegundir væri ákjósanlegast að framleiða fyrir íslenzkan landbúnað — íslenzka jarðrækt? Niðurstaðan var sú þá (1933), að heppilegast væri að framleiða nitrophoska og kalksaltpétur. Það var nú niðurstaðan þá. Hins vegar hefur ammoniumnitrat meira köfnunarefnisinnihald (33%) en t.d. kalkammon-saltpéaurinn, sem inniheldur 20.5% köfnunarefni. Hér kemur þó líka annað til greina. Kalkammon-saltpéturinn inniheldur mikið kalk, sem ammoniumnitratið gerir ekki, en það er álit sérfróðra manna, að mjög sé heppilegt að bera talsvert mikið kalk í íslenzka jörð, og reynslan hefur sýnt, að það gefur mikinn uppskeruauka. Mig undrar annars, að maður, sem jafnkunnugur er búnaði og búnaðarmálum eins og hæstv. forsrh., skuli tala um þetta mál eins og hann hefur gert. Hann talaði um það, að bændur fengju þann ódýrasta og bezta áburð, sem völ væri á, með framleiðslu á ammoniumnitrati og væri hægt að nota það árum saman á túnin. Það hefur nú verið gert, því miður, í of mörgum tilfellum og með þeim árangri, að jarðvegur hefur stórspillzt. Það er fleira, sem kemur til greina en köfnunarefnisinnihald áburðarins eitt, er leitað er eftir auknum afrakstri jarðvegsins með áburðargjöfum. Ég hefði haft gaman af að ræða þetta mál út af fyrir sig við hæstv. forsrh. Það er skoðun sérfræðinga, að mjög hættulegt geti verið að spara steinefnin, en köfnunarefnið kemur ekki að notum, ef hörgull er á þeim í jarðveginum. Pálmi Einarsson landnámsstjóri hefur m.a. lagt áherzlu á þetta. Þessi atriði eru sannarlega þess eðlis, að full ástæða væri að ræða þau ýtarlega í sambandi við áburðarverksmiðjuna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta nú. Hins vegar er það furðulegt moldviðri, sem stjórnarflokkarnir hafa þyrlað upp í sambandi við þetta mál. Það er ekki lítið blekkingamoldviðri. Þeir hafa haldið því fram, að við sósíalistar höfum verið að reyna að bregða fæti fyrir málið og tefja framgang þess — og af eintómri illgirni væri það sprottið. Fyrr má nú vera. En hvernig var það með áburðarverksmiðjuna, sem Skipulagsnefnd atvinnumála lagði til að reist yrði? Voru það sósíalistar, sem hindruðu framgang málsins þá? Nei, árið 1936 er vart hægt að brigzla sósíalistum um það. Í þeirri n. átti nú enginn annar sæti en núverandi hæstv. forsrh. Í Tímanum stóð nú fyrir nokkrum dögum, að undirbúningur hefði verið hafinn að byggingu áburðarverksmiðju á nýsköpunarárunum, en sósíalistar hafi hindrað framgang og framkvæmdir. Þá var áætluð verksmiðja til afkasta á 1200 tonnum, sem hefði ekki verið 1/3 þess, sem nauðsynlegt var. En ég vil nú spyrja: Hvers vegna hófst nú Framsókn ekki handa, er sú stjórn fór frá völdum og framsóknarmenn fengu landbúnaðarráðherrann? Hvers vegna var þá ekki hafizt handa? Nei, afskipti Sósfl. af þessu máli hafa einungis leitt til góðs. Stjórnarflokkarnir hafa neyðzt til þess að endurskoða sínar fyrri áætlanir og komizt að raun um, að þær stóðust ekki. Þeir hafa orðið að fallast á rök okkar, og það, sem þeir hafa tekið til greina af till. okkar í þessu máli, hefur orðið því einungis til góðs eins.