18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

177. mál, fé mótvirðissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og frá er skýrt í grg. með frv., ber brýna nauðsyn til þess að lána meira fé til hinna miklu virkjana við Sog og Laxá og áburðarverksmiðjunnar en búið er að ákveða. Eins og kunnugt er, var með l. nr. 47 frá 1951 heimilað að lána 120 millj. kr. til þessara framkvæmda úr mótvirðissjóði. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að heimildin verði hækkuð um 95 millj., og er það þó nálega vissa, að þetta fé mun ekki nægja til að ljúka þessum framkvæmdum, en aftur á móti mun þetta fé duga þangað til þing verður kallað saman aftur. Það hefur verið neytt allra bragða til þess að fá fé til þessara framkvæmda annars staðar frá, og þótt allmikið hafi safnazt, er það engan veginn nægilegt. Eins og ég sagði áðan, mun þessi upphæð ekki vera nægileg, en þó sýnt, að hún mun duga fram á næsta þing. — Ég vona svo, að frv. verði vísað til hv. fjhn. og 2. umr.