06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

96. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, en ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. n. er andvígur frv., en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., þó með tveimur breyt. við meginmál 1. gr. frv. Önnur brtt. er um það, að niður falli heimildíu til þess að láta miðskóladeild starfa við menntaskólann í Reykjavík. Meiri hl. n. var þeirrar skoðunar, að það væri ekki ástæða til þess að veita þessa heimild og þá með sérstöku tilliti til þess, að ekki yrði séð, að hægt væri að nota slíka heimild í sambandi við menntaskólann í Reykjavík, þar sem húsnæði hans er mjög af skornum skammti fyrir lærdómsdeildina eina, hvað þá ef þar ætti að bæta við deild. Þess vegna leggur meiri hl. n. til, að heimildin verði felld niður varðandi menntaskólann í Reykjavík. — Í öðru lagi leggur meiri hl. n. til, að sú heimild, sem veitt yrði til viðbótarkennslu við menntaskólann á Akureyri — en það er hún, sem fyrst og fremst er óskað eftir með frv. að mega hafa — verði tímabundin, þannig að heimilt verði að láta miðskóladeild starfa þar til vorsins 1954. Í þeim l., sem áður hafa verið samþ. um málið, tvisvar sinnum að ég ætla, hafa ákvæðin um miðskóladeildina við þennan skóla verið bundin við vissan tíma. Og meiri hl. n. taldi eftir atvikum eðlilegt, að svo yrði einnig í þetta skipti, þannig að það sé þá að þeim tíma liðnum enn til athugunar, hvort þá sé nægilegt húsrúm til þess að hafa þessa deild við skólann. Þetta eru þær breyt., sem meiri hl. n. leggur til, að gerðar verði á frv., og mælir hann með því, að frv. verði samþ. svo breytt.

Ég þarf ekki að öðru leyti að fara mörgum orðum um þetta mál. Hv. þm. er nokkuð kunnugt um þau rök, sem fram hafa verið færð fyrir því, að rétt sé að halda uppi miðskólakennslu við menntaskólann á Akureyri. Það var nú svo, að með skólalöggjöfinni frá 1946 var gert ráð fyrir því, að menntaskólarnir yrðu aðeins 4 ára skólar. Þetta komst í framkvæmd þá þegar við menntaskólann í Reykjavík, en í sambandi við menntaskólann á Akureyri var þá þegar ákveðið af Alþ., að miðskóladeild skyldi þar vera star fandi fyrst um sinn, þannig að bekkirnir yrðu sex þar, eins og áður hafði verið. Og þessi skipan hefur haldizt við menntaskólann á Akureyri, allt fram á þetta ár. Það er því með þessu frv. og brtt. meiri hl. n. í raun og veru aðeins verið að gefa heimild til þess að framlengja um tvö ár fyrirkomulag, sem verið hefur við þennan skóla. Meiri hl. n. virðist, að ástæður séu enn óbreyttar, síðan Alþ. tók ákvörðun um, að þessi kennsla skyldi fram fara við skólann. Þetta var þá einkum byggt á því, að skólinn hefði nægilegt húsrými fyrir miðskóladeild. Þetta húsrými hefur skólinn enn og þó heldur meira en hann hafði þá. Og nemendunum í menntaskólanum á Akureyri hefur ekki fjölgað á seinni árum, heldur eru þeir heldur færri en þeir áður voru. Ef húsrými skólans leyfði það fyrir 4 árum, að þar væri haldið uppi miðskóladeild, þá leyfir það ekki síður nú, að þetta sé gert. Hins vegar getur það náttúrlega vel verið, að síðar verði sú breyting, að nemendum við menntaskólanám á þessum stað fjölgi til mikilla muna. Þá er hugsanlegt, að málið horfi öðruvísi við. En eins og sakir standa, virðist húsrými ekki vera því til fyrirstöðu á næstu árum, að þessir tveir bekkir geti starfað við skólann. Það er ýmislegt, sem mælir með því, að þessi kennsla sé tengd við skólann eða að hún sé höfð þar, ef ástæður leyfa, og þá ekki sízt það, að eins og hv. þm. er kunnugt, hafa borizt um það á undanförnum árum mjög margar óskir úr héruðunum á Norðurlandi, að þessu fyrirkomulagi yrði ekki breytt. Og segja má, að ef það er að öðru leyti útlátalítið fyrir hið opinbera og kringumstæður leyfa það, eins og ég hef nú talað um, þá sé það æskilegt að geta orðið við þessum óskum. Þessar óskir hafa, ef ég man rétt, komið fram í ályktunum frá flestum sýslunefndum og bæjarstjórnum norðanlands og sömuleiðís ýmsum fundum, sem rætt hafa þetta mál.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Það fór nú þannig í fyrra, þegar þetta mál var til meðferðar í þinginu, að það var samþ. hér í hv. d., varð hins vegar ekki útrætt í hv. Ed. þá. En ég vildi mega vænta þess, að afstaða til málsins nú í þessari háttvirtu deild sé hin sama eins og hún var í fyrra, þannig að þess megi vænta, að frv. megi ná samþykki hér í þessari hv. d.