06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

96. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og nál. sýna og tekið var fram af hv. frsm. meiri hl. n., þá hefur menntmn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég mun með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu okkar, sem stóðum saman að áliti minni hlutans.

Þetta mál hefur verið til umr. áður hér á þingi og er því hv. þm. kunnugt. Fyrir því eru nú færð sömu rök og áður hafa verið, svo að ekki verður hjá því komizt, að umr. um málið nú verði að nokkru leyti endurtekning á því, sem áður hefur komið fram.

Með lögum um menntaskóla, sem sett voru 1946, var horfið að því ráði að ákveða, að menntaskólarnir yrðu fjögurra ára skólar, en gagnfræðanám færi fram í sérstökum skólum víðs vegar um landið og landspróf frá þeim skólum gæfi rétt til inntöku í 1. bekk menntaskólanna. Þessi ákvörðun var tekin að mjög vel athuguðu máli. Löggjöfin hafði verið undirbúin af milliþn. í skólamálum, og í þeirri n. áttu sæti skólamenn, prófessor frá Háskóla Íslands, yfirkennari menntaskólans í Reykjavík, skólastjóri gagnfræðaskóla í Reykjavík og skólastjóri barnaskóla hér í Reykjavík. Höfðu allir þessir menn mikla reynslu og þekkingu á sviði skólamálanna, og þess vegna minni ég á þetta. Nú hefur það farið svo, að síðan þessi lög voru sett, þá hefur menntaskólinn í Reykjavík starfað alveg samkvæmt þeim í einu og öllu, og frá honum hafa ekki borizt kröfur inn á þingið um að fá þessari skipan breytt. Öðru máli er að gegna um menntaskólann á Akureyri. Forstöðumenn hans hafa bæði fyrr og nú óskað þess, að skólinn héldi áfram að starfa með sama fyrirkomulagi og áður, eftir að þessi nýja löggjöf var sett, en hafa þó lagt megináherzlu á það atriði, að við skólann starfaði miðskóladeild áfram, þannig að þar væri um sex ára skóla að ræða. Fyrir þessu eru færð ýmis rök, bæði almenn rök og sérstök fyrir skólann á Akureyri. Þeir segja, bæði formælendur þessa máls hér á þingi og forráðamenn og skólastjóri menntaskólans á Akureyri, í þeim grg., sem frá þeim hafa borizt til þingsins, að betra sé, að nemendur komi ungir í menntaskólana og sitji lengi í sama skóla og mótist þar, það sé sterkara fyrir skólann og nemendurna og hollara en að breyta. menntaskólunum í fjögurra ára skóla. Það er kunnugt, að um það er ágreiningur meðal skólamanna. Það eru ýmsir fleiri skólamenn þessarar skoðunar en þeir, sem starfa við menntaskólann á Akureyri. En svo eru aftur aðrir, sem reynslu og þekkingu hafa á sviði skólamála, sem ekki vilja fallast á, að þessi skoðun sé hin rétta. Þeir benda á það, að nemendur séu tæplega um það færir þroskans vegna ú fermingaraldri að ákveða sér lífsstöðu. Það séu foreldrar þeirra, sem hafi áhrif á að senda þá í skóla, en eftir að þeir séu komnir í skóla, þá sé námið einskorðað við skólanám til stúdentsprófs, en þá veitist minni möguleikar til að skipta um og fara yfir til verknáms eða annars náms, sem aðrir skólar hafa að bjóða. Í öðru lagi má benda á, að sé skólanum áfátt í einhverju, þá má gera ráð fyrir því, að það sé vandséð, hvort það sé hollt fyrir nemandann að sitja mjög lengi í sama skóla. Nú ber þess að gæta, að hér eru námsmenn, sem ekki hafa það að lokamarki að ljúka stúdentsprófi, heldur ætla sér, allur þorri þeirra, að halda áfram námi í háskóla. Ef þeir hafa átt þess kost á námsbraut sinni að skipta um skóla, reyna fleiri en einn, kynnast nýjum viðhorfum, nýjum keppinautum, þá álíta margir skólamenn, að þeir standi betur að vígi í starfi sínu og námi innan háskólaveggjanna, ef fyrirkomulagið er það, sem núverandi skólalöggjöf gerir ráð fyrir. Ég hef það og fyrir satt, að í ýmsum nágrannalöndum. okkar, t.d. Svíþjóð, sé þeirri skipan fylgt, að menntaskólarnir séu fjögurra eða jafnvel ekki nema þriggja ára skólar. Hins vegar mun þetta vera nokkuð misjafnt í nágrannalöndunum.

Þess þyrfti og að gæta, að gagnfræðaskólarnir kenna verknám að meira eða minna leyti. En sú deild, sem starfað hefur við menntaskólann á Akureyri, hefur fellt það niður, enda er ekki til þess ætlazt, að í menntaskólum fari fram verklegt nám. Það leiðir til þess, eins og ég tók fram áðan, að eftir að nemandi er kominn inn í menntaskólann, þá er námið miðað við. að hann haldi áfram eftir miðskólapróf beint til stúdentsprófs.

Þá eru færð fram þau almennu rök fyrir þessu máli, að það sé mikill kostur, að með þessari deild sé stefnt að því að veita möguleika til að þreyta landspróf eftir tveggja vetra nám, í stað þess að í gagnfræðaskólum er gert ráð fyrir, að það taki þrjá námsvetur að ná slíku prófi. Það er bent á það í þeim skilríkjum, sem fylgja þessu máli, að þetta séu sterk rök í málinu og það sé miklu aðgengilegra fyrir nemendur að eiga þess kost að ljúka þessu námi á tveimur vetrum. — Þess ber að gæta í sambandi við þessa röksemd, að vitanlega geta þessi dæmi gerzt, þegar um vissa einstaklinga er að ræða. þroskaða einstaklinga, sem hafa áhuga á námi og keppa að vissu marki, og slík dæmi eru að gerast í þjóðfélaginn í dag. Ég þekki dæmi þess. að á síðasta vetri tók sig upp frá heimili sína í sveit 18 ára piltur, sem engrar skólavistar hafði notið nema farkennslu á skólaskyldualdri lögboðinn tíma, — hann tók sig upp og settist í héraðsskóla og lauk landsprófi eftir eins vetrar nám með ágætum vitnisburði, í stað þess að gert er ráð fyrir, að þetta sé þriggja vetra nám. Svona dæmi geta gerzt og eru að gerast. Og á það vil ég benda, að núgildandi skólalöggjöf stendur ekki í vegi fyrir því, að þetta eigi sér stað. En það er allt öðru máli að gegna, þegar farið er að tala um heila bekki, sem á að taka inn í skóla og láta þá ganga í gegnum nám á svo stuttum tíma. Þá verður annað upp á teningnum.

Fyrir ekki alllöngu var haldið þing skólamanna, svonefnt uppeldismálaþing, hér í Reykjavík. Það gerði ályktun um gagnfræðanámið, og í þeirri ályktun segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið vill leggja áherzlu á, að það telur skipan gagnfræðastigsins, eins og fræðslulögin gera ráð fyrir, skynsamlega og tiltölulega sveigjanlega í framkvæmd, nema ef vera skyldi að því leyti, að aðgreining verknáms og bóknáms sé á skyldunámsárunum óþarflega ákveðin.

Sérstaklega vill þingið vara alvarlega við þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til að kljúfa gagnfræðastigið á þann veg, að miðskóladeildir verði tengdar menntaskólunum, að ekki sé nefnd sú óhæfa að ætla unglingum aðeins tveggja vetra nám frá barnaprófi til landsprófs miðskóla.“

Þetta er álit skólamannanna, sem sátu á uppeldismálaþinginu. — Eftir að frv. það var flutt, sem hér er til umr., ritaði einn viðurkenndur skólamaður, Ármann Halldórsson, grein í Alþýðublaðíð, sem birtist nú í haust, eftir að þetta frv. var flutt. Þar ræðir þessi skólamaður um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé mjög varhugavert að samþ. það, og leggur þó höfuðáherzlu á þetta, þar sem hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að ég telji, frá sjónarmiði skólamanns, flest mæla á móti þeirri skipan að hafa miðskóladeildir við menntaskólana, tel ég ákvæðið um tveggja vetra miðskóla langalvarlegustu yfirsjónina í því efni.“

Þetta segir maður, sem hefur fengið reynslu sem skólamaður við fjölmennan skóla hér í Reykjavík, hefur til brunns að bera meiri þekkingu á uppeldismálum og sálarfari nemenda en kennarar almennt, og maður, sem nú er ráðinn eftirlitsmaður, námsstjóri skóla gagnfræðastigsins, a.m.k. hér í höfuðstað landsins.

Nú hefur, þegar fengizt nokkur reynsla um það, hvernig hefur tekizt á Akureyri að láta nemendur ganga gegnum þetta nám á tveimur vetrum, og sú reynsla, sem fyrir liggur í því efni, er á þann veg, að vorið 1950 gengu 38 nemendur undir landspróf upp úr miðskóladeild, sem ráðgert er að lögfesta með þessu frv., og aðeins 20 þeirra fengu einkunnina 6 og þar yfir, en vorið 1951 gengu 60 nemendur undir próf upp úr þessari deild, og aðeins 34 þeirra fengu einkunnina 6 og þar yfir. Það er sannast sagna, að þetta er ekki til að miklast af í samanburði við niðurstöður frá öðrum skólum, sem létu nemendur ganga undir sams konar próf. Ekki dreg ég í efa, að menntaskólinn á Akureyri sé góður menntaskóli út af fyrir sig eða að þar sé vel séð um nám og starf eftir því, sem tök eru á, en skyldi ekki skýringin á þessu liggja í því, að það sé nokkuð djarft teflt með því að ætla sér að þrýsta heilum bekk gegnum þetta nám á ekki lengri tíma en hér er gert ráð fyrir?

Það, sem ég hef nú sagt, má kalla almenn rök í þessu máli, en fyrir þessu máli hafa og verið færð fram rök, sem mega teljast sérstök fyrir menntaskólann á Akureyri, og kemur þá sérstaklega til greina, að talið er, að skólinn hafi húsrúm umfram þarfir, ef þessi deild er ekki látin starfa þar. Það má vel vera, að svo sé, að eins og nú stefnir með húsrúm í heimavistinni, þá verði fullrúmt um lærdómsdeildarnemendur eina, miðað við tölu þeirra, sem nú sitja í skólanum. En ég er á þeirri skoðun, að lærdómsdeildarnemendum muni fjölga, eftir því sem fleiri og fleiri skólar í landinu útskrifa nemendur með landsprófi, nemendur, sem gjarnan vilja ganga í menntaskóla, og þá hlýtur Akureyrarskólinn fyrst og fremst að verða þeirra athvarf. Það er kunnugt, að hér í Reykjavík er menntaskólinn mjög fjölsóttur, jafnvel svo, að það er ekki talið, að hann geti tekið við þeim nemenda — fjölda, sem þar vill stunda nám, þar er því ekki á bætandi, og þá verða að sækja menntaskólann á Akureyri fyrst og fremst þeir nemendur utan af landi, sem vilja stunda menntaskólanám, og hann á fyrst og fremst að nota húsrúm sitt til þess. En þótt svo kynni að vera, að húsrúm menntaskólans á Akureyri, þegar heimavistarhúsið er fullbúið, notist ekki að fullu nú á næstunni, þá ber þess að gæta, að gagnfræðaskóli Akureyrar hefur nægilegt húsrúm til þess að veita kennslu öllum þeim Akureyringum, sem vilja stunda gagnfræðanám. Það má því heita, að það sé aðeins skipting milli skólanna, hvort húsrýmið í gagnfræðaskóla Akureyrar á þá að standa án þess að vera fullnotað eða húsrýmið í menntaskólanum, þannig að þegar þetta er athugað, þá eru þessi rök ekki veigamikil. Því er og haldið fram, að það séu miklir hagsmunir fyrir ýmsar byggðir á Norðurlandi utan Akureyrar, að þessi deild verði látin starfa við skólann áfram eins og verið hefur nú um skeið. Það er kunnugt, að víða á Norðurlandi, til beggja handa við Akureyri, starfa nú þegar skólar, sem veita gagnfræðamenntun og búa nemendur undir það að setjast í lærdómsdeild menntaskólanna, og það liggur ekki fyrir, að þeir hafi orðið að vísa nemendum frá. Mér tinnst ástæða til að ætla, að svo sé alls ekki.

Í grg., sem fylgir þessu frv. af hálfu menntaskólans á Akureyri, er það í raun og veru viðurkennt, að það sé ofætlun börnum upp til hópa að ætla þeim að ljúka miðskólaprófi eftir tveggja vetra nám, því að þeir segja svo:

„Í áliti, er skólinn sendi frá sér í fyrra, var það tekið fram, að hvorki væri „æskilegt né heldur mögulegt“, að allir lykju miðskólanámi á tveimur vetrum, en duglegum nemendum hefði hins vegar ekki orðið það ofraun.“

Þeir viðurkenna þetta í sjálfu sér, sem standa að menntaskóla Akureyrar, en þeir virðast miða óskir sínar og till. við það, að þeir geti valið úr nemendum, það sé hvorki æskilegt né mögulegt, að nemendur upp til hópa ljúki þessu námi á tilskildum tíma, heldur að þeir geti valið úr gáfuðustu börnin og komið þeim til menntaskólaprófs á þessum tíma. Það er einmitt þetta atriði, sem gagnfræðaskólanum á Akureyri fellur allra verst. Skólastjóri hans segir, að með því að fylgja þessu í framkvæmd sé gagnfræðaskólinn dreginn niður umfram það, sem annars væri. Skólastjóri gagnfræðaskólans á Akureyri hefur því í grg., sem hann lagði fram á fundi fræðsluráðs Akureyrar, gert þá uppástungu, að ef því yrði haldið áfram að hafa þessa deild við menntaskólann á Akureyri, þá sé gerð sérstök skipan á þessu. Hann segir svo:

„En fari svo, að Alþingi finnist enn nauðsynlegt að láta menntaskólann á Akureyri fá leyfi til þess að hafa miðskóladeild, meðal annars vegna nemendafæðar í skólanum, þá tel ég réttara heldur en að hafa það ástand, sem nú er, að skipta bænum sundur í skólahverfi eins og gert er í Reykjavík eða þá að sameina gagnfræðaskólann á Akureyri menntaskólanum á Akureyri og ríkið kosti þá allt unglinga-, miðskóla- og gagnfræðanám á Akureyri.“

Skólastjórn menntaskólans á Akureyri hefur viðurkennt þetta sjónarmið að nokkru leyti, því að í svari, sem undirritað er af Brynleifi Tobíassyni fyrir hönd menntaskólans, segir svo um þessa uppástungu: „Uppástunga skólastjóra gagnfræðaskólans um skiptingu á bænum í hverfi á milli skólanna er mikillar athugunar verð.“ En ef að því ráði yrði hnigið að hafa gagnfræðanám í báðum skólunum, gagnfræðaskólanum og menntaskólanum, og skipta bænum í hverfi. hvað verður þá um röksemdina um úrvalið ? Skyldi það vera svo, að í öðrum helmingi Akureyrarbæjar búi börn, sem eru betur gefin, og þau, sem auðið er að ljúka þessu námi á tveim vetrum, en í hinum helmingi bæjarins búi börn, sem hvorki er „æskilegt né mögulegt“, eftir orðum skólastjóra menntaskólans, að láta ganga þessa námsbraut á þeim tíma, sem hér er nefndur? Ég dreg í efa, að svo sé. Ég er hræddur um, að þetta yrði ekki alls kostar auðvelt í framkvæmd.

Það er kunnugt, að samkvæmt launal. eru laun kennara við gagnfræðaskóla nokkru lægri en menntaskólakennara og starfstíma þeirra er nokkuð annar stakkur skorinn en menntaskólakennara. Þess ber að gæta, að samkvæmt l. um gagnfræðanám eiga sveitarfélögin að standa straum af hluta af rekstrarkostnaði gagnfræðaskóla, en ríkið á samkvæmt l. að standa straum af kostnaði menntaskólanna að öllu leyti. Það liggur fyrir, að verði þessari skipan haldið áfram, sem stefnt er að með þessu frv., þá mun risa upp óánægja innan kennarastéttarinnar út af þeim málum. Í sambandi við þetta mál, þegar það var hér til umr. í fyrra, barst inn í þingið yfirlýsing frá gagnfræðaskólakennurum hér í Reykjavík, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir kennarar, sem starfa við miðskóladeildir gagnfræðaskólanna í Reykjavík, telja sjálfsagt, að öllum kennurum, er starfa við miðskóladeildir, verði tryggð sömu laun, hvort sem þær deildir eru í gagnfræðaskólum, héraðsskólum — eða menntaskólum, ef til þess kemur. — Vér teljum sérstaka ástæðu til að taka þetta fram nú, þar eð fyrir Alþingi liggur frv. (á þskj. 564), sem gerir ráð fyrir, að miðskóladeildir verði starfræktar við menntaskólana. Ef frv. þetta yrði samþ., væri raskað þeim grundvelli launalaga, sem réttlætir launamun kennara menntaskóla og gagnfræðaskóla.“

Undir þessa yfirlýsingu skrifa 20 kennarar her í Reykjavík. Mér finnst, að hv. þm. ættu að athuga þetta mál vel, áður en þeir stofna til þess fyrir ekki meiri nauðsyn en hér virðist á vera, að upp risi ágreiningur um þessi atriði, sem getur leitt af sér nýjar kröfur af hálfu kennarastéttarinnar og að ýmsu leyti raskað þeim grundvelli, sem ákveðinn er nú með starfi þeirra og launakjörum.

Þegar þetta mál hefur verið til umr. á undanförnum árum, þá hef ég fylgt því, að menntaskólanum á Akureyri væri leyft um tveggja ára skeið að hafa miðskóladeild innan skólans. Sú afstaða hefur eingöngu byggzt á því, að hér væri um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem miðaði að því að ná samkomulagi um málið, svo að það mætti greiða fyrir því að verða við óskum menntaskólans um stundarsakir. Ég stóð að því á þingi 1948, að þessi breyt. var gerð, og ég hafði ástæðu til að ætla, og menntmn. þessarar d., eftir þeim umr. og viðtölum, sem þá fóru fram, að á þetta yrði fallizt af hálfu beggja aðila. Nú sýnir það sig, að svo er ekki. Í fyrsta lagi er þetta frv., eins og það er flutt, án tímatakmarkana. Það er gert ráð fyrir, að þessi skipan haldist um óákveðinn tíma, ef húsrúm og aðrar ástæður leyfa. Í öðru lagi er það fært fram í grg. þessa frv., að vegna þess að málið hafi tafizt um eitt ár, þá sé meiri nauðsyn á því nú. Þetta hendir til þess, að það sé alls ekki ætlun þeirra manna, sem að málinu standa, að hér sé um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, heldur framtíðarskipan. Ég get því ekki fylgt þessu máli nú og við, sem skrifum undir álit minni hl. Nú standa sakir svo um þetta, að lagaheimild sú, sem starf deildarinnar byggist á, er niður fallin. Hér er því ekki um það að ræða að framlengja l., sem nú eru í gildi, heldur hitt, að setja l. um skipan þessa máls, setja 4. á ný í stað þeirra, sem eru úr gildi fallin. Við teljum ekki ástæðu til þess og leggjum því til, að frv. verði fellt. Ef hins vegar skólamenn og þingið kemst að þeirri niðurstöðu við nákvæma íhugun þessara mála, að það hafi verið rangt spor, sem stigið var með ákvæðum löggjafarinnar frá 1946, að miða menntaskólanám við 4 ára nám, hitt sé réttara, að halda gömlu reglunni, að menntaskóli verði 6 ára skóli, þá ber að breyta löggjöfinni og sú breyt. nái þá til beggja menntaskólanna, því að ef þm. eru nú þess albúnir að feila þann dóm, að það sé betra fyrir menntaskólann á Akureyri að hafa miðskóladeild starfandi, svo að hann sé 6 ára skóli, hvers á þá menntaskólinn í Reykjavík að gjalda og það fólk, sem þar stundar nám? Er það ekki íslenzk æska alveg eins og hitt fólkið, sem stundar nám á Akureyri? Ég sé ekki, að sú afstaða sé frambærileg, ef hér á að vera um framtíðarskipan að ræða, heldur verði þá að taka málið upp að nýju, og ef það reynist svo að beztu manna yfirsýn, að sú stefna sé réttari í þessum málum, sem fylgt var um langt skeið, þá verður að breyta löggjöfinni þannig, að hún nái jafnt til beggja eða allra menntaskólanna í landinu. Ég tel því, að brtt. meiri hl. sé til bóta að því leyti, að þar eru nokkrar skorður reistar við því, hve lengi þetta ákvæði á að vera í gildi. En ég tel aftur, að það fái ekki staðizt til frambúðar að útiloka menntaskólann í Reykjavík frá því að hafa nokkurn veginn jafna aðstöðu á þessu sviði við hinn skólann. Því mun ég ekki sjá mér fært, þótt brtt. meiri hl. sé samþ., að greiða frv. atkv.