06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

96. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil segja það út af síðustu ræðu hv. 3. landsk., að þegar ég ræddi um það áðan í framsöguræðu, að ég vænti þess, að d. tæki sömu afstöðu og í fyrra, þá átti ég eingöngu við heimildina til að starfrækja miðskóladeild við menntaskólann á Akureyri. Eins og hv. þm. heyrðu, þá ræddi ég aðallega um það málsatriði, og þessi orð mín áttu þess vegna eingöngu við það, enda hefur það alltaf verið kjarni málsins, og þetta mál er hér borið fram vegna menntaskólans á Akureyri eða vegna þess, að þeir, sem það hafa í öndverðu fram borið, vilja, að heimild sé veitt til þess, að miðskóladeild verði látin starfa við þann menntaskóla. Ég vil taka það fram, að það kann að vera, að eitthvað annað og meira hafi vakað fyrir einhverjum flm. málsins að þessu sinni, en í upphafi er málið upp tekið hér á Alþ. eingöngu með tilliti til menntaskólans á Akureyri. Annað er það, að við meðferð málsins í þessari hv. d. á síðasta Alþ. kom fram, eftir að málið var afgr. frá n., brtt. frá þm. innan d. um að láta heimildina einnig ná til menntaskólans í Reykjavík. Ég verð að segja, að mér hefur þótt þessi brtt. mjög einkennileg. Ég vil ekki fara út í neinar getgátur um það, hvers vegna hún sé fram borin, en ekkert hefur legið fyrir um það við meðferð málsins áður í d. eða í hv. menntmn. Hins vegar er kunnugt, að þannig er ástatt fyrir menntaskólanum í Reykjavík í húsnæðismálum, að þýðingarlaust mun vera að veita heimild, eins og sakir standa, til að stofna slíka deild þar. Menn vita, að þröngt er í menntaskólanum fyrir þá bekki, sem þar eru, hvað þá ef ætti að fjölga þar bekkjum.

Hv. 3. landsk. þm. tók það fram í sinni ræðu, að rektor menntaskólans hefði tjáð sér, að þótt þessi heimild væri í lögum, þá væri óvíst, að hann óskaði eftir því, að miðskóladeildin yrði sett á stofn. En til hvers er þá verið að fara fram á þessa heimild? Það er yfirleitt ekki venjan að flytja till. um heimildir á Alþingi, sem ekki er óskað eftir. Það liggur venjulega fyrir, að líkur séu til þess, að heimildin verði notuð. (GÞG: Rektor óskar eftir þessari heimild.) Mér þykir það einkennilegt að óska eftir heimild, sem menn eru ekki vissir um að verði notuð. Hér er verið að veita tímabundna heimild til tveggja ára. Ef svo yrði um menntaskólann hér í Reykjavík, að hann eftir eitt til tvö ár hefði ástæður til þess að taka upp þessa starfsemi, þá er það annað mál, án þess að ég segi um það, hvernig taka bæri undir það. Menn vilja þá e.t.v. spyrja, hvort ekki sé þá a.m.k. meinlaust að veita þessa heimild og engin ástæða til þess að vera á móti því. Þessi heimild er í frv. eins og það er flutt í d., og ég sem meðflutningsmaður setti mig ekki á móti því, að hún stæði í því, þar sem talið var rétt, að frv. væri ekki breytt frá því, sem, það var, þegar það dagaði uppi í Ed. í fyrra. Hins vegar, þótt ég setti mig ekki á móti þessu, er ég þeirrar skoðunar, að þetta sé sízt til bóta. Ég held, eins og ég sagði áðan, að þó að þessi heimild yrði látin ná til menntaskólans hér, þá kæmi það honum ekki að neinu gagni eins og sakir standa, en gæti hins vegar orðið aðalmálinu heldur til trafala, og það er vegna þess, að þeim, sem halda fastast við það skólakerfi, sem sett var fyrir nokkrum árum, er það viðkvæmt mál, að nokkuð sé hreyft við því kerfi. — Ég tel, að þessi heimild komi ekki að gagni fyrir menntaskólann í Reykjavík, en hún getur orðið til óþurftar því máli, sem hér er um að ræða. En með þessum orðum vil ég svo endurtaka það, sem ég sagði í lok ræðu minnar áðan, að ég vil vænta þess, að afstaða hv. deildar til málsins verði hin sama og hún var í fyrra, og vænti ég, að það verði ekki misskilið.

Hv. frsm. minni hl. flutti hér langa ræðu almennt um skólamál og menntaskóla sérstaklega. Ég veit, að hv. þm. hefur mikla þekkingu og reynslu í uppeldismálum og að hann hefur starfað lengi að þeim málum, og ýmislegt af því, sem hann sagði, get ég viðurkennt að sé rétt. Ég ætla hins vegar ekki að fara út í það að gera að umræðuefni deilur manna um ýmis atriði uppeldismála og skólamála almennt, eins og það, hvort hollara sé fyrir nemendur að vera í mörgum skólum eða aðeins fáum eða bara einum skóla. Menn greinir á um þetta, og ég tel mig ekki hæran að dæma um það til hlítar. En mundi það ekki í þessu efni geta skeð, að það væri heppilegt, að hvort tveggja væri til, að menn gætu gert hvort tveggja, en ekki aðeins annað hvort, að stunda nám sitt í fleiri skólum eða í einum skóla eftir því, hvernig þeim býður við að horfa, og eftir því, hvernig aðstæður þeirra eru? Hugsanlegt væri það, að þó að það væri gott fyrir suma að vera í mörgum skólum, fyrst í gagnfræðaskóla, svo í menntaskóla og háskóla, að þá gæti verið eins gott fyrir aðra að stunda nám sem mest í einum og sama skóla. En þetta atriði er deilumál, sem ég hef ekki ætlað mér að ræða hér, enda ekki þörf á því að gena það upp við sig til þess að geta tekið afstöðu til þess frv., sem hér liggur fyrir. Staðreyndin er nú sú, að menntaskólinn á Akureyri hefur lengi verið sex bekkir og það virzt ganga nokkuð vel, og síðan nýja skólalöggjöfin var sett, hafa verið starfandi tveir miðskólabekkir við þann skóla. Það fyrirkomulag hefur haldizt árum saman, og verður ekki séð, að af því stafi nein hætta. Nú liggur það fyrir, að skólinn hefur húsrúm til þess að láta þessa kennslu halda áfram, og það eru margir á Norðurlandi, sem óska eftir, að hún verði ekki lögð niður. Það þarf ekki að fara út í langar rökræður um uppeldisfræði eða hvort heppilegt sé, að nemendur sæki einu eða fleiri skóla til þess að taka afstöðu í þessu máli. Málið er einfaldara en svo.

Hv. frsm. minni hl. ræddi töluvert um það, að það væri töluvert óþægilegt fyrir gagnfræðaskóla Akureyrar, að þessar tvær deildir störfuðu við menntaskólann, og það mun rétt vera, að komið hefur fram frá gagnfræðaskólanum nokkur andstaða gegn þessu fyrirkomulagi. En í sambandi við þetta er ástæða til að benda á eitt mikilsvert atriði, sem ég man ekki, hvort frsm. minni hl. ræddi sérstaklega. Það má vera, að hann hafi gert það, því að ég heyrði ekki alla ræðu hans áðan. Frv. er þannig úr garði gert, eins og það liggur nú fyrir og eins og meiri hl. n. mælir með því, að þar er gert ráð fyrir, að þessi miðskóladeild verði fyrst og fremst fyrir nemendur utan Akureyrar, þótt ekki sé útilokað, að einhverjir nemendur frá Akureyri verði þar einnig. En það er tekið fram í frv., að heimild þessi sé bundin við óskipta bekki, óskiptan fyrsta bekk og óskiptan annan bekk. Áður hefur það verið svo, að þessum bekkjum hefur báðum verið skipt. Má því ganga út frá, að með því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, fækki nemendum í þessum tveim bekkjum skólans mjög verulega eða allt að því um helming. Niðurstaðan verður því sú, að þeim mun fleiri nemendur frá Akureyri fara í gagnfræðaskóla Akureyrar, og er beinlínis gert ráð fyrir því af meiri hl. nefndarinnar. Ég hygg því, að gagnfræðaskóli Akureyrar hafi litla ástæðu til að vera á móti frv. eins og það er núna, og án þess að ég hafi það eftir nokkrum sérstökum, þá fullyrði ég, að afstaða gagnfræðaskólans á Akureyri til þessa frv., eins og það liggur fyrir, hljóti að vera nokkuð önnur en hún áður var til þessa máls. Þetta segi ég út af því, sem frsm. minni hl. ræddi um þetta mál.

Nú hefur heyrzt, að gagnfræðaskólakennarar muni gera kröfur til hækkaðra launa, ef miðskóladeild starfi áfram við menntaskóla. Ég held nú, að sú hugmynd sé á nokkrum misskilningi byggð, enda hefur tilvera miðskóladeildarinnar við menntaskólann á Akureyri undanfarin 4 ár ekki haft neinar slíkar kröfur í för með sér, svo að mér sé kunnugt.