10.12.1951
Neðri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

96. mál, menntaskólar

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mjög er vafasamt, að ég mundi telja mér fært að nota þá heimild, sem nú hefur verið samþ. við 2. umr., ef ekki fæst þar breyting á, sökum þess að þar er mjög gert upp á milli þeirra tveggja stofnana, sem óska að hafa miðskóladeildir, menntaskólans á Akureyri og menntaskólans í Reykjavík.

Ástæðan fyrir því, að menntaskólinn á Ákureyri vill hafa miðskóladeild, er nákvæmlega hin sama og sú, sem menntaskólinn í Reykjavík ber fram um að hafa slíka deild. Þar sem mér virðist svo sem þingvilji sé fyrir þessari breytingu, sem hér um ræðir á þessum lögum, þá týndist mér eðlilegast, að það yrði ekki gerð bráðabirgðabreyt., eins og hér er lagt til, heldur breyt. á þeirri grein fræðslulaganna, sem þetta ætti að koma inn í, en það er 3. gr. laganna um menntaskóla. Það er því um að ræða breytingu á fræðslulögunum að þessu leyti, og ég mun því leyfa mér að bera hér fram brtt., sem ég ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. frv. hljóði svo: Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: Ráðherra getur heimilað, að við menntaskólana starfi óskipt miðskóladeild, að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólastjórnar.“

Ef þessi till. verður samþ., þá nær hún að sjálfsögðu sama tilgangi og frv. eins og það er á þskj. 370. En ef till. yrði samþ., mundi ég skilja hana sem yfirlýsingu Alþingis um, að menntaskólunum yrði heimilt að hafa óskiptar miðskóladeildir. Með því væri þessu máli lokið og ekki lengur deilt um það. Væri það heppilegra en að setja bráðabirgðaákvæði eins og hér er stefnt að, sem þá þyrfti að endurnýja á eins til tveggja ára fresti.