10.12.1951
Neðri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

96. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með fáum orðum eindregið mæla með þeirri till. hæstv. menntmrh., sem hann var að lýsa í ræðu sinni. Í till. þessari felast þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að breytingin sé ekki bráðabirgðaákvæði, og er það miklu eðlilegra. Í öðru lagi er tryggður jafn réttur beggja menntaskólanna, í Reykjavík og á Akureyri. Í þriðja lagi er sá kostur við till., að það er ekki gert ráð fyrir því, að heimildin sé bundin við tveggja ára miðskóla, eins og áður var gert ráð fyrir.

Það hafa verið höfuðrök þeirra, sem barizt hafa gegn frv., að það væri ókleift og óheppilegt að ætlast til þess, að miðskóladeild væri starfandi við annan menntaskólann, en ekki hinn, og að hægt væri með góðu móti að anna þessari miðskólakennslu á tveim árum. Þessum röksemdum er ekki hægt að beita gegn þessari till. hæstv. menntmrh. Það verður svo framkvæmdaratriði, hvort þessi deild verður tveggja ára deild eða ekki, og er það menntmrh. að ákveða, hvernig þessu verður hagað. Þau meginrök, sem fyrr voru viðhöfð gegn þessu máli, eiga ekki við um þessa till., sem nú hefur komið fram. Ef hún nær fram að ganga, tel ég, að það verði sennilega þriggja ára miðskóli, sem menntaskólarnir taka upp.

Rökin gegn miðskóladeild við menntaskólann í Reykjavík hafa fyrst og fremst verið þau, að menntaskólinn í Reykjavík hafi ekki húsnæði til þess. Það er rangt. Það hefur verið farið út á þá braut að tvisetja í skólastofur í öllum gagnfræðaskólum í Reykjavík. Menntaskólinn í Reykjavík hefur til umráða átta skólastofur og hefur sömu skilyrði til þess að starfrækja miðskóladeild og gagnfræðaskólar í bænum. Þessi rök, að menntaskólann hér skorti til þess húsnæði, fá því ekki staðizt.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á samþykkt, sem fundur menntaskólakennara í Reykjavík hefur gert um þetta mál og sent til Alþingis og ég hygg til hvers einasta alþingismanns líka, þar sem fundurinn lýsir sig mjög andvigan þeirri stefnu, sem meiri hluti hv. þm. í þessari deild tók við afgreiðslu þessa máls við fyrri umræðu, og krefst þess, að þessir tveir skólar hafi í þessu efni sömu aðstöðu. Og þeir vekja athygli á því, að menntaskólinn muni ekki síður hafa á að skipa kennslukröftum til að annast kennslu en gagnfræðaskólarnir. Ef heimila ætti menntaskólanum á Akureyri að hafa miðskóla, þá er eðlilegt, að menntaskólanum í Reykjavík verði veitt sama heimild, og er í þessari samþykkt fundarins mjög eindregið mælzt til, að þannig verði þetta.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að mæla með till. menntmrh. og læt þess getið, að verði hún felld, þá ætla ég ekki að fylgja málinu út úr deildinni, en greiða atkv. á móti því, vegna þess að þá yrði afgreiðsla þess ranglát gagnvart menntaskólanum í Reykjavík.