10.12.1951
Neðri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

96. mál, menntaskólar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta mál og ætlaði ekki að taka þátt í þeim. En ég get ekki komizt hjá því að láta í ljós mína skoðun núna á þessu máli. Með þessari brtt., sem hæstv. menntmrh. hefur nú flutt, er bókstaflega verið að stíla skref aftur á bak hvað fræðslulöggjöfina snertir. Það er auðséð, af hverju þessi till. er upphaflega komin fram. Það er sökum ofurkapps þeirra manna, sem fylgja því, að miðskóladeild starfi við menntaskólann á Akureyri. Mér skildist, að raunverulega væri hæstv. menntmrh. á móti málinu og að hann flytti sína till. til þess að sýna þeim mönnum, sem harðast hafa sótzt eftir þessari breytingu, fram á, hvað það er, sem þeir eru að fara. Ég vil takmarka mitt mál við það, sem hefur orðið tilefni þessarar umr., sem sé þá kröfu, að miðskóladeild fái að starfa við menntaskólann á Akureyri. Þetta hefur verið sótt sem metnaðarmál af þeim, sem telja sig hlynnta menntaskólanum á Akureyri, og það hefur verið sótt af mesta ofurkappi.

Mér er menntaskólinn á Akureyri eins kær og nokkrum öðrum, sem um þetta mál hefur fjallað. Ég var kennari við þann skóla, þegar hann var að byrja, og hann var næstum því að hrjóta lög með starfsemi sinni, því að hugsjónin í sambandi við menntaskóla Akureyrar var alltaf sú að búa menn undir stúdentspróf. Ég hef alltaf skilið það svo, að með menntaskólanum á Akureyri væri hugmyndin fyrst og fremst að endurreisa hina gömlu menntastofnun, sem hafði þau einkenni að vera menntaskóli, og reisa þar upp hinn gamla Hólaskóla. Hugmyndin var sú að skapa þarna menntaskóla, sem helgaði sig því starfi sérstaklega að útskrifa stúdenta og veita sem fullkomnasta fræðslu. Það, sem verið er að gera nú með því að auka skólann, skilja allir. Það er verið að setja menntaskólann á sama stig og barnaskólana og gagnfræðaskólana, en skólastig menntaskólanna á að vera fyrir ofan þessa skóla. Menntaskólinn ætti því algerlega að losa sig við miðskólann til þess að helga sig því verkefni að útskrifa stúdenta. Gagnfræðaskólunum er ætlað að vera í sem flestum héruðum landsins, en síðan fer duglegasta fólkið úr þeim í menntaskólana, og þannig ætti Akureyrarskólinn eingöngu að vera menntaskóli og kennarar skólans eingöngu að annast kennslu við menntaskólann. Það, sem skólinn þarf að gera, er að hafa einsett í kennslustofum sínum, því að það er ekki nokkur mynd á því að verða að tví- og jafnvel þrísetja í skólastofur gagnfræðaskólanna, eins og nú er yfirleitt gert. Og nemendurnir eiga að nota bókasafn skálans og kennslustofur skólans í samræmi við hin nýju fræðslulög sem menntaskólanemendur. Við vitum vel, að í menntaskólanum á Akureyri er ekki pláss nema fyrir einsettar skólastofur. En það er mikið talað um það, að menntaskólinn á Akureyri sé eini menntaskólinn, sem hefur stóra og góða heimavist, þar sem í þessari dýrtíð sé gott fyrir fátæka nemendur að fá að dvelja. En margir skólar á landinu, t.d. héraðsskólarnir, hafa góðar heimavistir fyrir nemendur víðs vegar að af landinu. Ég held þess vegna, að þeir, sem unna menntaskólanum á Akureyri, ættu að vinna að því, að hann geti losnað við miðskólann sem allra fyrst. Þegar menntaskólarnir eru eins fullir og þeir nú eru og til eru miðskólar víðs vegar um land, ættu menntaskólarnir alls ekki að sækjast eftir því að hafa miðskóla, heldur að leggja allt kapp á að bjóða nemendum sínum í menntaskóla upp á sem allra bezt kjör. Menn taka eftir því, hvað ásóknin er mikil um að koma upp menntaskóla annars staðar vegna þess, hve dýrt er fyrir nemendur utan af landi að kljúfa námskostnaðinn við menntaskólana. En menntaskólinn á Akureyri getur tekið við þessum nemendum. Það, sem helzt þyrfti því að gera, er að leggja meira fram til þess að gera heimavistina á Akureyri ódýra, til þess að nemendur utan af landi gætu dvalið þar. En þá á ekki að vera að hurðast með miðskóladeild við skólann. Við höfum nóg af gagnfræðaskólum og héraðsskólum víðs vegar um landið, þar hafa unglingarnir aðstöðu til þess að nema og koma svo á eftir í menntaskólana. Ég hef aldrei getað skilið þetta kapp, sem lagt hefur verið á það að viðhalda gagnfræðadeild við menntaskólann á Akureyri. Það er í mótstöðu við hugmyndir þeirra manna, sem byrjuðu störf sín við menntaskólann á Akureyri. Þetta er að draga niður þá stofnun, sem menn ætluðu menntaskólanum að verða. Ég vil vona, að þeir menn, sem hér gengur til tilfinningasemi gagnvart menntaskólanum á Akureyri, láti af hendi og setji metnað sinn í að skapa menntaskólanum á Akureyri sem allra bezta aðstöðu, til þess að hann geti skapað sér góða heimavist fyrir sem flesta nemendur, og það þarf að vera einsett í slíkum skóla. Það er ekki nokkur mynd á því að geta ekki tekið við nemendum í menntaskóla nema með því að setja í hann morgna og kvölds, og þannig verður aðstaða menntaskólanna, ef þeir hafa miðskóladeildir. Það væri óheppilegt, ef þetta ofurkapp færi að verða til þess að vinna menntaskóla Akureyrar tjón og til þess að draga báða menntaskólana niður, bæði á Akureyri og í Reykjavík. Ég vil því vona, að hv. deild beri gæfu til þess að fella þetta út úr deildinni og bjarga menntaskólunum frá því að vera dregnir niður á lægra stig en þeim raunverulega er ætlað.