10.12.1951
Neðri deild: 40. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

96. mál, menntaskólar

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstvirtur menntmrh. hefur lagt hér fram brtt. við frv. það um breyt. á l. um menntaskóla, sem ég ásamt sjö hv. þm. í þessari deild flyt hér. Í þessari brtt. er gert ráð fyrir því, að ráðherra sé heimilt að leyfa miðskóladeildum að starfa við báða menntaskólana. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. menntmrh. hefur tekið þá afstöðu til málsins. Mér þætti leitt, ef hann skyldi snúast gegn málinu, en vona, að hann nú muni ljá því stuðning sinn. Þessi brtt. hæstv. ráðh. um, að menntaskólarnir báðir fái heimild til þess að hafa miðskóla, er í fullu samræmi við skoðanir okkar flutningsmanna,. og ég fyrir mitt leyti er eindregið samþykkur því, að þessi breyting verði gerð á frv., ekki sízt sökum þess, að gert er ráð fyrir að veita menntaskólunum báðum sömu aðstöðu. Nú hefur Alþ. borizt greinargerð um þetta mál frá menntaskólanum í Reykjavík, og í þeirri grg. eru ýmsar upplýsingar, sem valda því, að ég hygg, að breytast muni afstaða þeirra manna, sem tala móti því að leyfa þessum skóla að starfrækja miðskóladeild og töldu líka, að ekki hefðu komið fram neinar formlegar óskir um að hafa slíka deild við skólann. Nú er því mjög ákveðið fram haldið, að nauðsynlegt sé fyrir skólann, og með sömu rökum og komið hafa fram viðkomandi skólanum á Akureyri, að fá að hafa miðskóladeild. Og það er meira að segja á það bent, að sá háttur sé hafður við menntaskóla á Norðurlöndum að taka nemendur unga til náms í menntaskólunum. Ég vil taka fram, — þó að ég hafi ekki umboð til að tala fyrir aðra hv. flm. frv., — þá er ég samþykkur þessari brtt. hæstv. menntmrh. Og ég fagna því. að með greinargerð þeirri, sem menntaskólinn í Reykjavík hefur sent hinu háa Alþ., hafa komið fram viðbótarrök fyrir því máli, í viðbót við þau rök, sem við flm. þessa frv. bentum á við flutning þess. Og mér virðist, að þessi grg. menntaskólans í Reykjavík, til viðbótar því, sem menntaskólinn á Akureyri hefur sagt um málið, ætti að sannfæra hv. þm. um, að hér er síður en svo um nokkurt hégómamál að ræða, þegar sýnt er, að þær stofnanir, sem hafa með höndum menntun æskunnar í landinu, leggja jafnríka áherzlu á að fá þessu til vegar komið — eins og þessir menn, kennarar og forstöðumenn þessara skóla, hafa mikla og langa reynslu um það, hvað hentugast sé og hæfi bezt menntun og uppeldi unga fólksins. Af þessum sökum tel ég, eftir að þessi brtt. hæstv. menntmrh. er fram komin og sú grg., sem menntaskólinn í Reykjavík hefur hér sent, að það hljóti að sannfæra hv. alþm. um það, að hér sé um að ræða mál, sem sé fyllilega þess virði, að það sé tekið til rækilegrar yfirvegunar, og ekki aðeins það, heldur sé hér um mál að ræða, sem þessi sterku rök mæli með að nái samþykki hér á hinn háa Alþ., og að það sé erfitt fyrir menn að snúast gegn því, í þessu formi a.m.k., sem það liggur fyrir í nú. Ég játa fúslega, að það virðist nokkuð mikil einsýni í því að láta menntaskólann á Akureyri einan hafa tækifæri til að starfrækja slíka deild. Og eins og menntaskólamenn í Reykjavík benda á, mundi það leiða til þess, að menntaskólinn í Reykjavík yrði eini menntaskólinn, sem ekki hefði leyfi til að starfrækja gagnfræðadeild, því að þriðji skólinn hér er Verzlunarskólinn, sem hefur, þó að það sé í öðru formi, meiri rétt heldur en hinir skólarnir til þess að taka við nemendum og búa þá undir stúdentspróf frá upphafi gagnfræðanáms.

Hv. 2. þm. Reykv. mælti hér allmikið á móti þessu frv., ekki sízt varðandi menntaskólann á Akureyri, og taldi, að þeir menn, sem menntaskólinn á Akureyri væri kær, ættu ekki að ljá þessu máli sinn stuðning, þar sem hér væri verið að stíga spor aftur á bak. Ég ætla ekki að deila neitt við þennan hv. þm. um það, hvorum okkar menntaskólinn á Akureyri sé kærari, — það læt ég liggja á milli hluta. Hitt held ég að hljóti hverjum manni að vera ljóst, að það er síður en svo, að það geti í sér falið skemmdarverk gagnvart menntaskólunum, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík, að beita sér fyrir þessari tilhögun náms í sambandi við þá skóla, sem forsvarsmenn þeirra fara fram á, sem eftir áratuga reynslu þessara skóla byggja till. sínar á því, sem þeir telja, að hagkvæmast sé og réttast og bezt fyrir skólana. Ég benti á í framsöguræðu minni — og hv. 3. landsk. þm. gerði það líka í sinni ræðu, að heppilegast og skynsamlegast væri fyrir nemendur, sem ætla sér að ljúka stúdentsprófi, að geta sem fyrst komið inn í menntaskólana. Fyrir þá, sem hins vegar ekki ætla að ljúka slíku prófi, er sjálfsagt hentugra að fara í gagnfræðaskóla hver á. sínum stað. Ég benti á, að á ýmsum stöðum eru ekki skilyrði fyrir nemendur heldur til þess að ljúka gagnfræðanámi, og fyrir þá er hagkvæmara, að miðskóladeild starfi við menntaskólann á Akureyri, þar sem þeir geti lokið gagnfræðanámi, enda hafa óskir komið úr öllum héruðum norðanlands um, að menntaskólinn á Akureyri fengi að taka nemendur til gagnfræðanáms.

Ég ætla aðeins að taka fram, út af orðum hv. 2. þm. Reykv., að þetta fyrirkomulag, a.m.k. við menntaskólann á Akureyri, útilokar ekki neinn nemanda frá því að komast í þann skóla, sem þess óskar, því að það er hér gert ráð fyrir, að menntaskólanemendur sitji alltaf fyrir um skólavist í skólanum í lærdómsdeild hans. Og hingað til hefur engum nemanda verið neitað um að setjast í lærdómsdeild skólans. Það er því misskilningur að láta orð liggja til þess, að þessi miðskóladeild rýri möguleika nemenda til þess að fá að njóta náms í lærdómsdeildinni. Og einnig er það ekki sanngjörn stefna að leyfa ekki nemendum við gagnfræðanám að njóta hins ódýra húsnæðis, sem þarna er fyrir hendi fyrir þessa deild.

Ég ætla ekki að ræða frekar um þetta mál. Ég hygg, að öll rök séu fram komin í málinu, sem nauðsynlegt er að draga fram. En ég fagna því, að ég þykist mega skilja afstöðu hæstv. menntmrh. þannig, að hann muni ljá þessu máli sinn stuðning, ef þessi brtt. verður samþ., sem hann hefur lagt hér fram. Og ég fyrir mitt leyti mun ljá þeirri brtt. stuðning.