13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

96. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja neitt að ráði þær umr., sem orðið hafa um þetta mál, en ég vil aðeins leyfa mér að ítreka það, sem ég hef látið í ljós í þessum umr., að með þessari brtt., sem nú liggur hér fyrir á þskj. 395, er í ýmsum greinum gengið lengra en gert var í frv. eins og það var flutt í upphafi. Hér er stefnt að því, að sú breyting, sem verður á lögunum um menntaskóla. verði ekki ákvæði til bráðabirgða, heldur breyting á lögunum sjálfum, þannig að sú skipulagsbreyting verði gerð á menntaskólunum báðum eða öllum, að í stað þess, að þeir eru nú 4 ára skólar, verði þeir nú 6–7 ára skólar. Nú vil ég á engan hátt segja, að þau ákvæði laganna, sem nú gilda, séu þannig, að þau eigi að standa óbreytt um allan aldur og aldrei geti verið ástæða til að endurskoða þau. En ég lít þannig á, að ef gera á slíka skipulagsbreytingu sem þá, sem hér er stefnt að, þá þurfi að athuga málið nánar en hér hefur verið gert.