13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

96. mál, menntaskólar

Helgi Jónasson:

Ég skal ekki vera langorður. Mig hefur lengi furðað á því ofurkappi, sem hér hefur verið háð, bæði á Alþ. og utan þess, í sambandi við menntaskóla Norðurlands. Og ég tek mikið undir það með hv. 2. þm. Reykv., að það er ákaflega nýtt í okkar skólamálum, að menntaskólar óski eftir því að fá að kenna unglingum á gagnfræðastigi eða börnum, og næsta sporið gæti orðið það, að heimtað yrði. að barnaskólanám færi fram í háskólanum. Þetta er nokkur breyting frá því, sem var á fyrstu árum háskólans. Þá minnist ég þess, að við heimspekideild háskólans fengu hálærðir íslenzkumenn fyrir mestu náð að sækja fyrirlestra hjá Birni Ólsen. Ég þekkti þessa menn, sem voru þá færustu íslenzkumenn í landinu og eru það enn, og varð að fara til háskólaráðs til að fá leyfi til þess, að þeir mættu sækja háskólann. Má vera, að þetta sé nokkuð strangt, en mér þykir langt farið aftur á bak, þegar keppt er að því að fá að fara niður í skólastiginu; ég held það sé spor aftur á bak. Ég skil ekki, hvaðan þetta er runnið. Þetta mun vera eitthvert metnaðarmál viss hluta af Akureyrarbúum, sem þarna ætla að búa börnum sínum viss skilyrði til að geta farið á menntaskóla, tryggja, að þau verði tekin ung í undirbúningsdeildina, og þar eiga þau að vera áfram þrátt fyrir það, að aðrir nemendur, sem taka miðskólapróf, hafi ekki skilyrði til þess. — Þetta held ég að sé undirrótin að þessu skólamáli Norðlendinga, að Akureyrarbúar vilji tryggja sér, að börn þeirra komist nógu ung inn í menntaskólann og haldi þar áfram á kostnað hinna, sem ekki hafa slík skilyrði. — Ég tel eðlilegt, að, menntaskólinn í Reykjavík vilji fá sömu réttindi, hvort sem hann notar þau eða ekki, því að það er bara sjálfsagt, en hreinasta hneisa að gera upp á milli þessara tveggja skóla. Menntaskólinn í Reykjavík er ekki neitt lægra settur í skólalöggjöfinni frá Alþ. en menntaskólinn á Akureyri, — ég tel þá báða ágæta skóla og ekki vera hægt að gera upp á milli þeirra. þannig að eigi að veita öðrum þessa undanþágu, verði hinn líka að fá hana, en ég tel, að hvorugur eigi að fá hana. Þessi till. hæstv. menntmrh. hefur bæði kosti og galla, en þó mun ég fylgja henni, því að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að báðir menntaskólarnir fái sömu réttindi, og það er þó alltaf til bóta, að hún gerir báða skólana jafnréttháa. Annars hefur till. ýmsa galla, og má þar til nefna, að þetta er ótímabundið og það lengir kannske menntaskólanámið um eitt ár og yrði mikill kostnaður fyrir ríkissjóð. En sem sagt, ég mun greiða þeirri till. atkv., hvað sem ég svo geri við atkvgr. málsins í heild.