13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

96. mál, menntaskólar

Ásmundur Sigurðsson:

Það er rétt hjá hv. þm. V-Húnv., að þetta er fyrst og fremst metnaðarmál íbúa Akureyrar, og það er e.t.v. þannig til komið, að þegar skólalöggjöfin nýja var sett, starfaði sem forstöðumaður menntaskólans á Akureyri kunnur menntamaður, Sigurður Guðmundsson, sem mun hafa þótt öllu lakara, því að hann var þá í þann veginn að hætta störfum, að þurfa að fara að breyta um fyrirkomulag skólans fyrir þennan stutta tíma, og þess vegna gaf fræðslumálastjórnin eftir, að skólinn starfaði í sama horfi og áður, meðan þessi maður veitti honum forstöðu. En það er misskilningur hjá forstöðumanni skólans, að skólinn setji niður í einhverju, þó að hann falli alveg undir fræðslul. að því er starfsemi hans snertir. Aðalatriðið í þessu máli er það, að út frá þessu var það, að ég greiddi atkv. með brtt. meiri hl. menntmn. við 2. umr. málsins, vegna þess að hún fól í sér tímatakmark, tvö ár, og taldi ég, að frv. væri betra þannig en eins og það var upphaflega flutt hér. Nú felur sú till., sem hæstv. menntmrh. flytur hér, í sér að hafa þessa heimild ótímabundna, og tel ég það vera, verði það samþ., til hins lakara, því að verði frv. samþ., tel ég, að það eigi ekki að vera ótímabundið. Ég mun greiða atkv. móti þessari till. menntmrh., en í sambandi við það, að hv. 3. landsk. óskaði eftir nafnakalli til þess að fá það staðfest, hverjir vilja greiða atkv. með því, sem hann kallar móðgun við menntaskólann í Reykjavík, vil ég taka fram, að það er náttúrlega fjarstæða að telja slíkt móðgun við hann, þó að ekki verði farið að starfrækja við hann miðskóladeild, sem sannað er, að hann hefur ekkert húsrúm til að starfrækja.