13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

96. mál, menntaskólar

Emil Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., a.m.k. ekki að neinu ráði, en fyrir mér hefur verið gerð sú grein fyrir því, að ég tók þau rök alveg gild, sem fram voru færð í þá átt, að við menntaskólana báða væru til kennslukraftar, sem gætu annazt þetta; það væri til húsrúm, að minnsta kosti á öðrum staðnum mjög sæmilegt, og í þriðja lagi væri að minnsta kosti á öðrum staðnum til heimavist, sem gerði að verkum, að menn ættu hægara með að sækja skóla þangað en á aðra staði, þar sem hún væri ekki. Þessi rök tók ég fyllilega gild, og þess vegna skil ég ekki það, sem hér kom fram, að fyrir þessu máli hafi ekki verið færð nein rök, því að bæði hv. þm. V-Húnv., hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. komu fram með þau rök gegn þessu, sem mér finnst ekki mega standa alveg ómótmælt.

Hv. þm. V-Húnv. færði fram sem aðalrök fyrir því að vera á móti þessu máli, að af því mundi skapast mikill aukakostnaður fyrir ríkið. Þetta fæ ég ekki skilið. Ég hef gert ráð fyrir, að óskipt miðskóladeild starfaði við báða skólana, og má gera ráð fyrir, að hún verði fullsetin, þannig að ekki verði að stofna til neins kostnaðar í sambandi við aukið húsnæði. Að vísu yrðu fengnir kennarar til að kenna þeim fjölda barna, sem þarna eiga að vera, en að það þyrfti að vera dýrara en í öðrum miðskólum, fæ ég ekki skilið. Þetta gæti kannske dregið úr því, að aðrir skólar þyrftu að auka við húsnæðið hjá sér, sem sumir verða að gera í náinni framtíð, ef aðsókn heldur áfram að aukast eins og nú er. Ég fæ því ekki skilið, að þetta þurfi að hafa aukinn tilkostnað í för með sér, ef litið er á skólamálin í heild.

Enn þá þótti mér undarlegri rök hv. 2. þm. Reykv., en ég gat ekki skilið annað af hans ræðu en hann teldi, að með þessu fyrirkomulagi væri stofnað til nokkurs konar misréttis milli nemenda, þannig að þeir, sem lærðu í menntaskólunum, hefðu betri aðstöðu til að komast áfram á menntabrautinni en hinir, sem væru fyrir utan þessa einu eða tvær skólastofnanir. Ég veit ekki, hvernig því hefur verið varið með hann, en það var þannig með mig, að þegar ég á sínum tíma var útskrifaður sem gagnfræðingur og tók prófið utanskóla, varð ég ekki var við, að ég yrði fyrir neinum óþægindum af þeim kennara menntaskólans, sem hafði kennt í gagnfræðadeild skólans. Og enn síður ætti þetta að vera tilfellið nú. Munurinn, ef nokkur er, er þá sá, að aðrir njóta betri kennslu en hinir, því þyrfti að forða þeim frá því að fá betri kennslu. Þetta eru svo fráleit rök, að um þau þarf ekki að ræða. Og álíka voru rök hv. 5. landsk. Hann sagði, að af því að menntaskólarnir hefðu farið fram á þetta leyfi, þá hlytist af því það, að gagnfræðaskólarnir færu að heimta börnin úr barnaskólunum. Þetta er vitanlega hrein fjarstæða. Menntaskólinn í Reykjavík hefur starfað í meira en hundrað ár með gagnfræðadeild, og aldrei hefur hann heimtað til sin barnakennsluna. Það voru þá til gagnfræðaskólar á Akureyri, Flensborg og Möðruvöllum, án þess að þeir heimtuðu barnakennsluna til sín. Það, sem er kjarni þessa máls, er það, að báðir menntaskólarnir hafa haft þessa kennslu með höndum, þeir eru ekki núna að fara fram á þetta nýmæli. Annar þessara menntaskóla hefur annazt þessa kennslu um tugi ára og hinn í heila öld, og þeir vilja ekki fella sig inn í þá skipun fræðslumálanna, sem gerð var 1946.

Í bréfi frá menntaskólanum í Reykjavík, sem ríkisstj. hefur borizt og öllum hv. þm. hefur verið sent afrit af, eru færð fram veigamikil rök. Þar stendur í áliti kennarafundarins, sem haldinn var 7. þ. m., eftirfarandi, sem ég les upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar nýju fræðslulögin voru sett, töldu kennarar menntaskólanna óheppilegt að slita miðskólastígið algerlega frá menntaskólastiginn og væri hitt betra, að nokkur hluti nemenda í lærdómsdeild a.m.k. hefði notið undirbúningsfræðslu í sama skóla, því að á þann hátt skapaðist meiri heildarsvipur og festa í starfi skólanna. Þetta er einnig skoðun flestra skólamanna erlendis, enda starfa undirbúningsdeildir eða miðskóladeildir við langflesta menntaskóla á Norðurlöndum og Bretlandi, og taka sumar þeirra við nemendum 11 ára gömlum.“

Svo hefur verið talað um það hér, að þetta mál sé sótt af ofurkappi af þeim mönnum, sem vilja ljá skólunum lið, þótt þeir vilji veita þessum skólum leyfi til þess að kenna sömu kennslu og þeir hafa haft með höndum, annar um áratugi og hinn í heila öld. Ef um ofurkapp er að ræða, þá er það hjá andstæðingum þessa frv. Ég skil ekki, hvað þeim kemur til, nema þeir áliti fræðslulöggjöfina frá 1946 svo óskeikula, að ekkert megi við henni hrófla. En það litur út fyrir, að ýmsir séu að komast á þá skoðun, að svo sé ekki.

Það er alveg sjálfsagt, að menntaskólinn í Reykjavík hljóti í þessu efni sömu heimild og menntaskólinn á Akureyri. Það er að vísu rétt, að menntaskólinn í Reykjavík hefur ófullkomið húsnæði. En hann verður í framtíðinni að fá rýmra húsnæði og fleiri stofur. Þótt hann hafi litil húsakynni, er ekki rétt að svipta hann fyrir það rétti til þess að hafa miðskóladeild. Ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem hæstv. menntmrh. leggur til, þá finnst mér það rétt, að ráðuneytið hafi heimild til. þess að leyfa miðskóladeildum að starfa við menntaskólana ettir tillögum hlutaðeigandi skólastjórna, ef fullnægt er af þeirra hálfu ákveðnum skilyrðum.

Ég skal ekki halda uppi deilum um þetta mál. Ég vil ekki sækja það af neinu ofurkappi, heldur láta koma í ljós þau rök með málinu, sem ég nú hef drepið á.