13.12.1951
Neðri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

96. mál, menntaskólar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það má vel vera, að það gagni lítið fyrir mig að reyna að færa hv. þm. Hafnf. heim sanninn um, að þetta verður til að hækka útgjöld ríkissjóðs. Hann sagði, að ekki þyrfti að auka húsnæði skólans. En sleppum nú því. Ég veit ekki betur en menntaskólakennarar eigi að kenna ákveðinn stundafjölda á viku hverri. Ef þeir kenna fleiri stundir á viku, þarf að greiða fyrir það aukaborgun. Eftir því sem deildirnar eru fleiri í menntaskólanum, þá verður kennslan meiri, og þá verður annaðhvort að bæta við nýjum kennslukröftum eða leggja meiri kennslu á þá kennara, sem þar eru, og borga þá kennslu sér í lagi. En þetta kemur ekki til þess að lækka kostnað við kennslu í öðrum skólum að neinu ráði. Þetta var það, sem ég sagði, og það er rétt.

Aðalrökin gegn þessu eru þau, að þetta er alveg óþarft. Allir, sem vilja komast í menntaskóla, geta fengið undirbúningsmenntun sína í öðrum skólum, því að nú eru fjölmargir skólar víðs vegar um land, sem veita þá menntun, og er því ekki þörf á því að auka útgjöld ríkissjóðs vegna miðskóladeilda við menntaskólana. — Ég er sammála hv. þm. Hafnf. um það, að gera þarf ýmsar breytingar á fræðslulögunum, og ég hef borið fram till. þar að lútandi, en ég vil ekki láta gera þær breytingar á þeim, sem þarflausar eru, en verða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.