18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

96. mál, menntaskólar

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta mál, sem mér hefur fundizt vera talsvert hitamál, og gerði ekki heldur, er þetta var hér áður til meðferðar. Ég þekki þó talsvert sögu þessa máls og minnist þess, að ég var einn af þeim mönnum, sem studdu að því að koma upp heimavist á Akureyri eins og hún nú er, fyrir þá sök að ég áleit hennar mikla þörf af þrem ástæðum. Í fyrsta lagi var heimavistin allt of lítil. Í öðru lagi var því alltaf haldið fram, að timburheimavistirnar væru ónothæfar sökum eldhættu, og var því alltaf hafður vökumaður í skólanum. Ég álelt þá, að ef byggð yrði ný, stór heimavist, þá mundi vera hægt að nota gömlu heimavistirnar, með því að gera á þeim einhverjar breytingar, til annarra hluta. Eins var það vegna þess, að það var vitað mál, að þetta mundi styrkja mjög aðstöðu sveitapilta til að leita sér æðri menntunar, vegna þess að þá fengju þeir húsnæði og eins fæði ódýrt í heimavistinni, eða það var að minnsta kosti ódýrt. Af þessu þrennu taldi ég ástæðu til að koma heimavistinni upp. Ég skal ekki fara að ræða það, hvernig hægt hefði verið að nota gömlu heimavistirnar, en ég hef alltaf litið svo á, að það sé fyrsta atriði fyrir fátæka pilta úr sveit, sem ætla að leita sér æðri menntunar, þar sem ekki er auðhlaupið að því að ná í peninga, að fá fæði og húsnæði ódýrt seinustu 4 árin, svo að námið gæti orðið þeim hæfilega ódýrt. Þetta hlýtur alltaf að verða aðalatriðið fyrir pilta, sem ætla að stunda nám, og þetta vitum við, sem stundað höfum nám og erum úr sveit.

Mér finnst eðlilegt að gera menntaskólana á Akureyri og hér að menntaskólum og halda sig við það, því að það ætti að vera auðvelt fyrir fátæka pilta úr sveit að stunda nám við þær ódýru aðstæður, sem nú eru á Akureyri og Laugarvatni. Ég tel, að það eigi að koma þessu svo fyrir, að þegar þessu verði breytt, þá líði þeir piltar, sem nú stunda nám á Akureyri, ekkert tjón af. Ég tel það mjög miður farið, ef ekki verður hægt að leysa þetta ástand upp án þess, að þessir piltar biði við það tjón. Ég tel, að það sé ekki betra fyrir skólann að fá þessi réttindi, en ég tel, að hann verði að halda þeim þannig, að piltar þeir, sem nú stunda nám, bíði ekki tjón af, en verði annars gerður að menntaskóla.

Sá skóli, sem mér þykir vænst um, er gamli gagnfræðaskólinn á Akureyri. Þar sem mér þykir vænt um skólann, þá þykir mér leitt, að hann skuli sækja um þetta og ég verði að greiða atkvæði á móti því, en ég get ekki látið tilfinningar minar ráða, þar sem ég álit heppilegra fyrir hann að vera 4 ára skóla. Tveggja ára gagnfræðaskólamenntunar geta allir aflað sér, meira að segja geta duglegir sveitapiltar lesið að mestu leyti heima. Þess vegna verð ég að greiða atkvæði á móti þessu, þótt mér þyki vænt um skólann, því að ég tel þetta heppilegra, en ég tel það mjög miður farið, ef ekki verður hægt að leysa upp þetta ástand án þess, að þeir piltar, sem þar eru, bíði tjón. Menntmrh. talaði um, að skólanum yrðu veitt þessi réttindi til 1954, og getur verið, að þá verði hægt að komast hjá því, að þessir piltar bíði tjón. — Ég skal svo ekki ræða um þetta frekar, en taldi rétt að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli.