18.01.1952
Efri deild: 62. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

96. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal vera eins stuttorður og ég get. — Það kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan, að hann væri æ minna og minna sannfærður um réttmæti þessa máls. Ég vildi aðeins minnast þessara ummæla hæstv. ráðh., að hann sagði, að þótt þessi heimild væri veitt, þá væri ekki víst, að hann sæi sér fært að nota hana. — Hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir aðstöðumun skólanna á Akureyri og í Reykjavík til að taka við nemendum.

Ég vil svo aðeins víkja að því, sem hæstv. forseti sagði um þetta mál. Hann sagði, að Möðruvallaskólinn gamli hefði verið algerlega rekinn fyrir ríkisfé. Þetta er rétt. Gagnfræðaskólinn á Akureyri hefur líka verið rekinn fyrir ríkisfé, menntaskólinn einnig, og get ég því ekki séð, að Akureyri hafi verið svipt neinu. En hvaða ástæða er til þess að halda þessum forréttindum áfram? Hin nýja skólalöggjöf er rétt að komast í framkvæmd, og það er eðlilegt, að hún fái nokkurn reynslutíma, áður en breytt er til.

Ræða hv. þm. S-Þ. bar keim af tilfinningum hans fyrir þessum skóla. — Í vetur starfar enginn 1. bekkur miðskóla við menntaskólann. En til þess að hafa mál sitt fram, þá hafa Akureyringar látið í það skína, að þeir mundu stofna sérstakan námsflokk til þess að hafa mál sitt fram. Annar bekkur er starfandi, og það er álitamál, hvort hann gangi undir landspróf. Um þetta skal ég ekkert segja. Nú hafa forsvarsmenn þessa máls talað mikið um það, að nauðsynlegt væri að hagnýta það mikla húsnæði til kennslu, sem fyrir er nú við menntaskólann á Akureyri. Nú er það svo, að þegar á fund fjvn. kemur, virðist þetta mikla húsnæði ekki fullgert. Að minnsta kosti segir hv. þm. Ak., að nauðsynlegt sé að fá 11/2 millj. kr. fjárveitingu til húsnæðisins. Þegar húsið er fullbyggt, er gert ráð fyrir, að um 130 nemendur fái húsnæði í 250–300 manna skóla. Það er því fyllilega þörf fyrir þetta húsrými. Það má því alveg eins búast við því, að ekki líði á löngu, að aftur verði skortur á húsnæði. – Ég læt svo útrætt um þetta að sinni, ef ekki gefst sérstakt tilefni til.