21.01.1952
Neðri deild: 65. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

96. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Út af ummælum menntmrh. og hv. 2. þm. Eyf. vil ég taka það fram, að sú deild, sem starfar nú við menntaskólann á Akureyri, starfar þar ekki samkvæmt lagafyrirmælum, heldur er þar um að ræða námsflokk, sem skólinn veitir forstöðu og er algerlega á hans vegum. Þó að þetta frv. næði ekki fram að ganga, sé ég ekki, að skólinn gæti ekki eftir sem áður haldið slíkum námsflokki áfram, enda vil ég á engan hátt leggja stein í götu þess, að svo geti orðið. Ráðherra tók það fram áðan, að þó að milliþn. athugaði um endurskoðun skólalöggjafarinnar, þá mundi hún ekki komast að þeirri niðurstöðu, að lögfesta bæri slíka deild við menntaskólana. Mér virðist, að þessi ummæli séu sízt meðmæli með þessu frv. Ef það er álit skólamanna nú, að ekki sé rétt að lögfesta slíka deild, sýnist mér, að enn minni ástæða sé að samþykkja þetta frv. nú. Annars er rétt að vera ekki að spá neinu um það, að hvaða niðurstöðu slík nefnd kynni að komast. En ég legg áherzlu á það, að ef horfið verður að skipulagsbreytingu á starfi menntaskólanna, þá er nauðsynlegt að athuga það gaumgæfilega áður ásamt þeim skólamönnum, sem færasta má telja á þessu sviði.

Þegar lögin um menntaskólana voru undirbúin, var það gert í fullu samráði við forráðamenn þessara stofnana. Yfirkennari menntaskólans í Rvík átti sæti í nefnd þeirri, sem undirbjó lögin.

Ég mun ekki tefja þetta mál með frekari umr., en vildi aðeins vekja athygli á þessu atriði.