15.10.1951
Neðri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það má nú auðvitað alltaf deila um það, hvaða ákvæði eigi að setja í lög og hvaða ákvæði í reglugerð. Og það má vel vera, að það séu nokkur ákvæði í þessu frv., sem heldur ættu heima í reglugerð, og hef ég ekkert á móti því. Aðalatriðið er, að þessu máli sé tryggð framganga. En ég vil þó jafnframt benda á það, að hliðstæð ákvæði eru í lögum meðal nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum, og hefur þar þótt heppilegra að setja þau í lög en í reglugerð. Og allt það, sem sett er í reglugerð, er ólíkt lausara en það, sem sett er í lög, því að reglugerð getur hvaða ráðh. sem er breytt, en lögum verður aðeins breytt hér á Alþingi. Það mun aðallega vera 3. kafli frv., sem kæmi til greina að gæti átt heima í reglugerð. Það eru þar ýmis ákvæði. sem segja má, að ættu frekar heima í reglugerð en lögum, og ég skal ekki setja mig á móti því, aðalatriðið er, að sett verði ákvæði um þetta, en ekki á hvern hátt þau verða sett.

Þá sagði hv. 5. þm. Reykv., að vitanlega væri ekki hægt að koma í veg fyrir slys á vinnustöðum með því að setja um það reglur. Þarna er vitanlega um grundvallarmisskilning að ræða, því að vitanlega geta varúðarráðstafanir komið í veg fyrir, að slys verði, og í því er fólgið mikið aukið öryggi fyrir þá menn, sem vinna á öllum vinnustöðum, og áreiðanlega verður slysahættan minni.

Þau ákvæði, sem nú eru í gildi um öryggi á vinnustöðum, eru síðan 1928, og síðan hafa komið fram við þau breytingar, 1935 og 1940, en það er vitað mál, að þróunin hefur orðið geysileg síðan á því tímabili, sem liðið er, og er tímabært orðið að taka þau lög til athugunar. Og það er vonandi, að það vaki ekki fyrir þessum hv. þm. að segja, að setning þessara laga sé tilgangslaus og það sé alveg sama, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki, en sé svo, er þar um grundvallarmisskilning að ræða.

Um sameiningu skipaskoðunarinnar og öryggiseftirlitsins vil ég segja það, að ég las hér upp álit skipaskoðunarstjóra og verksmiðjuskoðunarstjóra, og þau eru á þá leið, að ég sé ekki, hvað á að vinnast. Í hinni rökst. dagskrá var gert ráð fyrir, að með þessu mættu sparast útgjöld, en það kemur hins vegar í ljós, að með þessu er ekki hægt að fá aukinn sparnað og alls ekki aukið öryggi. En ef það hins vegar yrði til þess að flýta fyrir framgangi þessa máls, að þessi embætti verði sameinuð, skal ég ekki setja mig á móti því, að athugaðir verði möguleikar á því, en hins vegar legg ég til, að þessi embætti verði aðskilin hér eftir eins og hingað til.