16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að lýsa þeirri skoðun minni, að þær brtt., sem n. leggur til, álít ég að séu til bóta og í samræmi við þá skoðun, sem ég lét uppi um þetta við 1. umr. þessa máls. — Varðandi brtt., sem þeir flytja, hv. þm. V-Húnv. og hv. þm. Mýr., þá held ég, að þær hafi flestar verið fluttar hér á síðasta þingi og að það, sem tekið hefur verið með í þessum brtt., hafi verið samþ. þá. Og ég er hv. flm. sammála um það, að ekki sé ástæða til að skipa þetta sérstaka öryggisráð, sem frv. gerir ráð fyrir, og sé því til bóta að fella ákvæðin um það úr frv., og ég hafði þá afstöðu á síðasta þingi.

Ég hef orðið nokkuð síðbúinn með að flytja þær brtt., sem útbýtt hefur verið hér í dag á þskj. 221, og skal ég gera grein fyrir þeim. Þær voru allar fluttar af mér á síðasta þingi. Tvær fyrstu brtt. voru þá samþ., en hv. fim. frv. hefur samt ekki séð ástæðu til að taka ákvæði þeirra upp í frv., þegar hann flytur það nú, en ég geri ráð fyrir því, að þær muni hafa stuðning þingmeirihlutans nú eins og á síðasta þingi, og tel ég þær ekki nema sjálfsagða lagfæringu á því, sem þær taka til.

Varðandi 3. brtt., við 11. gr., hef ég ekki meira að segja en ég hef áður gert hér í hv. d., að hún miðar að því — að mínu áliti — að gera meðferð þessara mála einfaldari og skriffinnskuna minni en ef fylgt er þeim ákvæðum, sem eru í 11. gr. frv. En þessi 3. brtt. er umorðun á 11. gr. Það verður með þeim hætti, sem brtt. leggur til, nokkuð önnur aðferð við framkvæmd þessara mála, sem að minni hyggju verður heldur til þess að draga úr skrifstofubákni og skriffinnsku, frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Að öðru leyti tel ég ekki að sé verulegur efnismunur á brtt. og frv., og sé þar meira um formsbreyt. að ræða.

4. brtt. var einnig flutt á síðasta þingi af mér, en þá við aðra gr. frv. Við nánari athugun frv. tel ég eðlilegra, að þessi brtt. sé flutt við 20. gr., sem er um ráðstafanir til að verjast slysum. Eins og greinin er nú, þá eru ákvæði þar um aflvélarnar, hvernig þær skuli gerðar og með þeim hætti, að sem minnst hætta stafi af þeim við ræstingu og á annan hátt. Og aftan við þessi ákvæði tel ég eðlilegt að komi: „Á vinnustöðum, þar sem aflvélar eru eða önnur vélknúin tæki notuð við reksturinn, skal að jafnaði vera starfandi maður eða menn, er hafa þekkingu á vélum þeim og tækjum, sem á vinnustöðum eru.“ Um þetta var nokkur ágreiningur í fyrra og skiptar skoðanir. Samkvæmt þeirri reglugerð, sem nú gildir, frá 1929, er skylda að hafa vélstjóra við allar vélar í verksmiðjunum, og í fyrra var vitnað til þess, að þar af leiðandi væri þetta óþarft, sem í þessari brtt. er. Ég er ekki sammála því. Það er ekki ástæða til þess að þetta standi ekki í l., þó að það sé nú í reglugerð. Hins vegar tel ég, að það verði verkefni nýrrar endurskoðunar á reglugerð um þessi mál að setja ákvæði um réttindi og skyldur vélstjóra og hvaða kröfur eigi að gera til þeirra. En hinu tel ég að þurfi að slá föstu í l., að við vélarnar verði sérfróðir menn, sem er líka haft í framkvæmdinni samkvæmt gildandi reglugerð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessar brtt. minar að svo komnu. Ég vænti, að þar sem þær voru samþ. í fyrra, þá verði þær líka samþ. nú.