16.11.1951
Neðri deild: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þó að hv. þm., er hefur talað, telji brtt. mínar ekki veigamiklar, tel ég, að þær séu ekki þýðingarminni en annað í frv. Það er rétt, að þessar brtt. eru ekki fluttar með þeim röksemdum, að þær skipti höfuðmáli, en þær eru þó allar til hóta. Hv. þm. Hafnf. virtist telja, að verkamenn ættu að lagfæra, ef eitthvað færi úr lagi. Ef þetta ákvæði er óbreytt, getur það valdið slysum að leggja á verkamenn að lagfæra það, sem fer aflaga. Þetta getur átt við rafknúin tæki, sem þeir bera ekki skynbragð á, og getur stofnað til vandræða, ef þeir telja sér skylt að lagfæra það, sem aflaga fer. Ég tel því, að till. verði til þess að draga úr slysahættu.

Varðandi 4. brtt. er mér liðinn úr minni sá ágreiningur, er varð út af þessu á síðasta þingi. Það má til sanns vegar færa, að rafstöðvar í sveitum nái undir þessi ákvæði, en það finnst mér vera of langt gengið. Mér finnst ekki vera ástæða til, að ég taki mína till. aftur, þar sem hún er í samræmi við ákvæði, sem nú eru í gildi. Efni hennar er, að á vinnustöðum, þar sem að jafnaði vinnur margt fólk og vélar eru notaðar, skuli maður með þekkingu annast eftirlit með vélunum. — Ég legg til við forseta, að hann beri till. upp í tvennu lagi, ef hv. þm. finnst hún vera of takmörkuð.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Hafnf., að það séu sérstök ákvæði um vélstjóra í þessum 1. Það eru engin ákvæði um rétt vélstjóra, heldur er það sett til að forða slysum, að menn með sérþekkingu verði settir til gæzlu véla á vinnustöðum. Eins og ég sagði áðan, er kveðið á um það á öðrum stað, hve miklar kröfur eigi að gera til vélstjóra á hverjum vinnustað. Þá koma kröfur um sérþekkingu manna, sem bera ábyrgð á meðferð aflvéla á vinnustöðum. Umr. (atkvgr.) frestað.