11.01.1952
Efri deild: 57. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að við 3 nm., sem stöndum saman í þessu máli, vorum sammála um, að ekki þyrfti að gera svo miklar breyt. á frv. eins og minni hl. taldi að gera þyrfti, og mun það koma fram við atkvgr. um brtt. hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., hverju við fylgjum og hverju ekki, það gæti orðið sitt á hvað.

Það, sem ég tel aðalatriðið í þessu máli og vildi heyra álit ríkisstj. um, er það, hvort hún feldi ekki vit í að samræma í eina heild allt öryggiseftirlit, sem nú er í landinu. Það kostar þjóðina fleiri milljónir allt þetta öryggiseftirlit, sem nú er, og ég hef trú á því, að það sé hægt að gera þetta eftirlit kostnaðarminna en það nú er.

Það, sem ég vildi fá að heyra frá hæstv. ríkisstj., er, hvað hún álíti í þessu máli, og treysti hún sér ekki til að segja neitt um það nú, þá er ég til í að samþ., að það bíði til næsta þings. Ég vil fá að heyra álit ráðh. á þessu, en hann er ekki viðstaddur nú. Afstaða mín nú fer eftir því, hvort hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að láta rannsaka þetta fyrir næsta þing, og ef svo væri, þá væri hægt t.d. að samþ. frv. til bráðabirgða nú eða láta það daga uppi. Það er þetta, sem ég vil fá að heyra álit hæstv. ríkisstj. um og heyra, hvað hæstv. ráðh. segir í málinu. Það mundi sparast við það fé, ef þetta væri sameinað undir eina stjórn. Ég vildi hafa hæstv. ráðh. viðstaddan vegna þessa, því að ég vil fá að heyra álit hans, svo að ég geti tekið afstöðu til þeirra brtt., sem fram hafa komið, áður en atkvgr. fer fram. Mér er vel ljóst, að þeir, sem eru þessu mótfallnir, segja, að það verði erfitt að hafa allt þetta eftirlit á einni skrifstofu, en ég er ekki viss um, að svo verði, nema síður sé. Hví má ekki sameina allt þetta eftirlit í eina heild? Það er augljóst mál, að það verður handhægara í meðförum þannig. — Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti atkvgr. ekki fara fram, fyrr en við höfum fengið að heyra álit hæstv. ráðherra.