18.01.1952
Efri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

47. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var mjög rætt um það hér fyrr, að það mundi verða mjög mikill fjárhagslegur sparnaður að því að sameina bæði verksmiðjueftirlitið, skipaskoðunina og eftirlit með flugvélum allt undir eina stjórn. Mér er tjáð, að þegar málið var til umr. í Nd., hafi hæstv. landbrh. mætt þar og verið einmitt sérstaklega spurður um þetta atriði og hafi upplýst, að hann hefði kynnt sér gögn, sem rn. hefði látið safna, og látið athuga þetta og fengið umsögn þeirra manna, sem hann teldi óhætt að byggja á, um þetta atriði og taldi, að rn. mundi ekki telja frekari rannsóknar þörf á þeim atriðum, en niðurstaðan hefði orðið sú, að um sparnað yrði ekki að ræða af slíku. Ég hef svo fengið í hendur afrit af bréfum, í fyrsta lagi frá verksmiðjuskoðunarstjóra ríkisins, sem fjallar um málið, og skýrir hann afstöðu sína til fyrirhugaðrar sameiningar í sparnaðarskyni. Bréf þetta er skrifað að beiðni samgmrn., og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þau atriði, sem þessa málshlið snerta. Í bréfi hans segir meðal annars þetta:

„Eins og eftirlitið er rekið nú, eru við það þrír fastlaunaðir starfsmenn, — skoðunarstjóri, skoðunarmaður og skrifstofustúlka. Verður ekki að mínum dómi komizt af með minna starfslið, ef inna á af höndum þau störf, sem til er ætlazt.“

Þá segir hann: „Skrifstofuhúsnæði eftirlitsins er nú ein sæmileg stofa, sem skipt hefur verið í tvennt, og tel ég, að ekki verði komizt af með minna húsnæði, sem gerist í nýrri húsum.“ — Enn fremur: „Væru fyrr greindar stofnanir sameinaðar, get ég ekki séð, að það gæti sparað starfsmenn, með því að ég tel ekki, að starfsmenn verksmiðju- og vélaeftirlitsins gætu bætt á sig störfum í þágu skipaskoðunarinnar, enda störfin gerólík og sérhæfni starfsmanna sín á hvoru sviði. Þá get ég ekki séð, að hægt sé að ætla verksmiðju- og vélaeftirlitinu minna húsnæði en það hefur nú, enda þótt það væri sameinað skipaskoðuninni.“

Og enn segir: „Ég get því ekki séð, að sameining stofnana þessara hefði sparnað í för með sér fyrir ríkissjóð, en lít hins vegar svo á, að sameiningin gæti haft margs konar neikvæðar afleiðingar, svo ólík sem starfssvið stofnananna eru.“

Enn fremur segir: „Þá er talað um innheimtu skoðunargjalda þessara stofnana og talið eðlilegra, að stofnanirnar innheimti þau sjálfar. Um skeið var sú aðferð höfð í verksmiðju- og vélaeftirlitinu, en þótti afar óþægileg fyrir skoðunarmennina. Það er heldur óheppileg aðstaða, sem skoðunarmaður kemst í, þegar hann hefur skoðað fyrirtæki og afhent skoðunarvottorð, þar sem krafizt er svo og svo mikilla umbóta, sem kosta fyrirtækið ef til vill ærið fé, að verða þá samtímis að framvísa reikningi fyrir heimsóknina; verður skoðunarmaður á þann hátt að nokkru fjárhagslega háður fyrirtækjum þeim, sem hann á að skoða.“

Og að lokum segir: „Þrátt fyrir þetta ákvæði hefur þeirri reglu verið fylgt að krefja ekki fyrirtæki um skoðunargjald, nema skoðað hafi verið á árinu. Hafi annað komið fyrir, er um hreina undantekningu að ræða.“

Þetta er sem sagt álit verksmiðjuskoðunarstjóra varðandi sparnaðarhliðina, og er umsögn hans um það atriði öll neikvæð.

Þá er hér einnig bréf Ólafs Sveinssonar skipaskoðunarstjóra, sem er svar við bréfi fjvn. til hans frá 18. okt., þar sem spurt er um, hvort hagkvæmt muni vera að sameina skipaskoðunina og vélaeftirlit ríkisins til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, grípa niður á nokkrum stöðum í því bréfi, þar sem þetta atriði er tekið til meðferðar. Þar segir meðal annars orðrétt:

„Ég sé því ekki, að skipaskoðuninni sé neinn styrkur í sameiningunni frá vélaeftirlitsins hálfu, því að í stað skoðunarstjóra verður að sjálfsögðu að koma fulltrúi. Ef skipaskoðunarstjóri hætti, en hann stjórnar allri skipaskoðun, skipamælingum og skipaskráningunni, kæmi í hans stað fulltrúi. Þar mundi sparast eitthvað í launum, en aftur á móti hugsa ég, að forstjóri fyrir báðum stofnununum fengi sín laun eitthvað hækkuð, og gerður þá sparnaðurinn ekki stór. Aðrir starfsmenn skipaeftirlitsins, sem eru á föstum launum, eru skipasmíðameistarar eða skipstjórar.

Af þessu má sjá, að starfsmenn skipaskoðunarinnar, sem eru, eins og áður er sagt, skipstjórar skipateiknarar og skipasmíðameistarar, að undanskildum skipaskoðunarstjóra og vélritunarstúlku (Hér mun hafa fallið niður.)... þekkingu, sem verksmiðjueftirlitið þarfnast og koma því verksmiðjueftirlitinu að engu gagni, enda er hér um mjög ólík störf að ræða.“

Þó að hér hafi eitthvað fallið niður, er greinilegt, að skipaskoðunarstjóri fullyrðir, að það fólk, sem skipaskoðunin hefur til umráða, hefur ekki þá þekkingu til að bera, sem geti komið verksmiðjueftirlitinu að gagni, þar sem um svo ólík störf er að ræða.

Síðan heldur hann áfram:

„Ef skipaskoðunin hefði á að skipa vélfræðingi fastlaunuðum eða vélfræðingum, væri öðru máli að gegna, en skipaskoðunin hefur aldrei fengið fastlaunaðan vélfræðing við skipaskoðunina, og er það mjög bagalegt og algerlega ónóg af mörgum ástæðum.“

Svo víkur hann einnig að húsaleigu- og skrifstofukostnaði og felur ómögulegt að spara nokkuð þar. Raunar telur hann, að komið geti til mála að spara eitt herbergi frá því sem nú er, en hvort það í reynd yrði ódýrara, segist hann láta ósagt, því að skipaskoðunin sé nú til húsa í þakhæð húss og herbergin undir þaki og húsaleigan þar af leiðandi hagkvæm. Segir hann þar að lokum: „Svo þegar litið er á allt, tel ég sparnaðinn hæpinn.“

Síðan heldur hann áfram:

„Þá er talað um í bréfi fjvn., að það mundi sparast mikið fé, ef skoðunarmenn sjálfir innheimtu skoðunargjöldin.

Þetta tel ég alveg fráleitt, enda er í lögum um eftirlit með skinum ákveðið, að skoðunargjöldin skuli innheimt af lögreglustjórunum. en hér í Reykjavík af tollstjóra, og er þetta ákvæði laganna byggt á margra ára reynslu.“

Og síðast segir í þessu bréfi Ólafs Sveinssonar: „Af framansögðu sé ég ekki, að neinn sparnaðargrundvöllur sé fyrir hendi fyrir sameiningu nefndra stofnana, og tel ekki æskilegt að breyta til frá því fyrirkomulagi sem nú er, nema sjáanlegt sé, að með því sé fengið aukið öryggi fyrir sjófarendur, en það sé ég ekki, að fengið sé með sameiningu nefndra stofnana.“

Og þá hefur hann úttalað sig um öryggishliðina, en bæði frsm. meiri hl. og minni hl. ræddu um það, að þetta atriði þyrfti sérstaklega að rannsaka, hvort ekki mætti spara og auka öryggið með því að sameina þetta. Það hefur sem sagt verið leitað til þeirra trúnaðarmanna, sem taldir eru að vera dómbærastir á þetta, og þeir telja, að það mundi ekki spara og ekki heldur auka öryggið að samelna þessar tvær stofnanir. Þessar upplýsingar úr bréfunum taldi ég rétt að kæmu fram.